Lífið

37 ára í söngkeppni framhaldsskólanna

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Dagrún stefnir á að hafa gaman þegar hún keppir í söngkeppni framhaldsskólanna í apríl.
Dagrún stefnir á að hafa gaman þegar hún keppir í söngkeppni framhaldsskólanna í apríl. Vísir/Pjetur
„Ég söng Það er draumur að vera með dáta því mér finnst það mjög skemmtilegt lag. Ég tók útgáfuna sem Móeiður Júníusdóttir söng í þætti Hemma Gunn árið 1991 því mér finnst það mjög flott útgáfa,“ segir Dagrún Þórný Marínardóttir.

Hún bar sigur úr býtum í söngkeppni Fjölbrautaskólans við Ármúla og verður fulltrúi skólans í söngkeppni framhaldsskólanna í Hofi á Akureyri 5. apríl. Ef Dagrún vinnur þá keppni fetur hún ekki einungis í fótspor söngkvenna á borð við Emilíönu Torrini og Margrétar Eirar Hjartardóttur heldur verður hún einnig elsti keppandinn til að vinna keppnina en Dagrún varð nýlega 37 ára.

„Söngurinn er bara áhugamál, ég er alltaf syngjandi í bílnum. Mér finnst mjög gaman að syngja. Þetta er í þriðja sinn sem ég tek þátt í söngkeppninni í FÁ en ég bjóst ekki við því að vinna. Ég held að ég hafi aldrei verið jafn róleg á sviðinu og núna. Ég var mjög afslöppuð en þetta var rosalega gaman,“ segir Dagrún sem hélt ekki sérstaklega uppá sigurinn.

„Ég var komin heim um 23-leytið og hafði voðalega lítinn tíma til að halda uppá þetta. Ég átti að mæta í skólann klukkan 9 daginn eftir þannig að ég fór bara heim að sofa,“ segir Dagrún. Hún er á læknaritara- og heilbrigðisritarabraut og útskrifast næstu jól.

„Ætli ég vinni ekki sem læknaritari í einhvern tíma en ég stefni á að fara í háskólanám og klára það fyrir fimmtugt,“ segir Dagrún glöð í bragði. Hún útilokar ekki söngnám í framtíðinni.

„Mig hefur alltaf langað til að læra söng en ekki komist í það. Kannski læt ég verða af því á næstu árum.“ Dagrún er spennt fyrir söngkeppni framhaldsskólanna á Akureyri í apríl.

„Ég ætla að fara þangað og hafa gaman af þessu. Ætli ég reyni ekki að vera jafn afslöppuð og í keppninni í síðustu viku en þetta er líka þannig lag að það er varla hægt að vera stressaður þegar maður syngur það.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×