Lífið

Þarf klikkaðan mann eins og mig í svona

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
„Við rennum svolítið blint í sjóinn því við vitum ekki hvaða verkefni verða fyrir valinu. Við auglýsum eftir verkefnum frá fólki og tillögurnar mega vera hvað sem er í rauninni, svo framarlega sem verkefnið taki ekki meira en fimmtán til tuttugu daga í framkvæmd,“ segir Gulli Helga. Hann undirbýr nú þriðju seríuna af Gulli byggir, þá fyrstu á Stöð 2 en hinar tvær seríurnar voru sýndar á RÚV.

„Við undirbúum jarðveginn fyrir fólk og hjálpum því að komast af stað. Við skiljum það síðan eftir og fáum að vera fluga á vegg fylgjast með vinnunni. Síðan komum við aftur í lokin og hjálpum fólki að klára verkefnin,“ segir Gulli en þættirnir verða alls sex og er fylgst með einu verkefni í hverjum þætti.

Áhugasamir geta sótt um til 1. febrúar á netfangið gullibyggir@stod2.is og býst Gulli við að fara í tökur stuttu seinna. Hann biður umsækjendur um að senda mjög góðar útskýringar á verkefninu, ljósmyndir og jafnvel teikningar af því sem á að framkvæma. Hann er einnig útvarpsmaður í Bítinu á Bylgjunni og því nóg að gera.

„Þetta er mjög tímafrekt og ekki allir sem nenna þessu. Það þarf klikkaðan mann eins og mig í svona vinnu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.