Tónlist

Íslensk tónlist vekur mikla lukku

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Arnar Eggert Thoroddsen er fulltrúi Íslands í samnorrænu dómnefndinni.
Arnar Eggert Thoroddsen er fulltrúi Íslands í samnorrænu dómnefndinni. fréttablaðið/valli
„Við stöndum vel að vígi og tónlistarsenan er góð á Íslandi. Það eru ákveðnar pælingar í gangi hér á landi, við erum rík af góðri tónlist,“ segir tónlistarfræðingurinn Arnar Eggert Thoroddsen en hann er fulltrúi Íslands í samnorrænu dómnefndinni sem velur þær plötur sem komast í úrtak til Norrænu tónlistarverðlaunanna.

Norrænu tónlistarverðlaunin eða Nordic Music Prize, verða veitt í fjórða sinn í febrúar í Ósló, samhliða by:Larm tónlistarhátíðinni. „By:Larm tónlistarhátíðin er nokkurs konar norsk Airwaves-hátíð og þar spila margar þeirra sveita sem tilnefndar eru til verðlaunanna.“

Ferli þeirra platna sem komast í úrslit er langt og strangt. „Fyrst er búinn til íslenskur 25 platna listi og svo er sá listi borinn undir tæplega hundrað manns sem tengjast hinum íslenska tónlistarbransa með margvíslegum hætti. Hlutverk þeirra var að velja áfram tíu plötur,“ útskýrir Arnar Eggert. Allar plötur sem koma út á Íslandi á árinu eiga möguleika á að komast í pottinn.

Samnorræn dómnefnd setur svo saman tólf platna heildarlista upp úr þessum fimmtíu plötum sem verður kynntur síðar í mánuðinum. Alþjóðleg dómnefnd sér svo um að velja lokasigurvegarann af tólf platna listanum.

Jónsi sigraði verðlaunin þegar Norrænu tónlistarverðlaunin voru haldin árið 2010. „Þessi verðlaun eru mjög sniðug til að koma norrænni tónlist á framfæri erlendis,“ bætir Arnar Eggert við.

Íslensku plöturnar tíu sem tilnefndar eru:

Emilíana Torrini – Tookah

Grísalappalísa – Ali

Hjaltalín – Enter 4

Mammút – Komdu til mín svarta systir

múm – Smilewound

Ojba Rasta – Friður

Samaris – Samaris

Sigur Rós – Kveikur

Sin Fang – Flowers

Tilbury – Northern Comfort






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.