Tónlist

OMAM fær platínuplötu í Bandaríkjunum

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hljómsveitin Of Monsters and Men hefur selt yfir eina milljón platna í Bandaríkjunum og því hlotið platínuplötu.
Hljómsveitin Of Monsters and Men hefur selt yfir eina milljón platna í Bandaríkjunum og því hlotið platínuplötu. nordicphotos/getty
„Ég heyrði af þessu á fimmtudaginn og er í skýjunum. Þetta er rosalega skrítið og ótrúlega gaman,“ segir Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, söngkona hljómsveitarinnar Of Monsters and Men, en sveitin hlaut fyrir skömmu platínuplötu í Bandaríkjunum fyrir plötuna My Head Is an Animal.

Um er að ræða mikið afrek en fyrir var Björk eini íslenski listamaðurinn sem hafði náð þessum merka áfanga í Bandaríkjunum.

Platan My Head Is an Animal kom út þann 3. apríl árið 2012 og hefur á þessum stutta tíma selst í yfir eina milljón eintaka í Bandaríkjunum. „Við bjuggumst ekki við þessu í upphafi. Það er líka endalaust af fólki í kringum okkur sem á sinn þátt í þessari velgengni,“ bætir Nanna Bryndís við.

Á Íslandi hefur hljómsveitin selt um 27.000 eintök af plötunni sem gefur tvöfalda platínuplötu og styttist óðum í þá þriðju.

Platínuplatan í Bandaríkjunum er þó ekki fyrsta viðurkenningin á erlendri grundu sem sveitin hlýtur fyrir sölu og hefur hún hlotið tvöfalda platínuplötu í Kanada og Írlandi. Þá hefur hún einnig hlotið platínuplötu í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi.

„Svona hlutir gerast auðvitað ekki af sjálfu sér og það er margt sem spilar inn í velgengni sveitarinnar. Það er fyrst og fremst frábær plata, mikil vinna og mikið skipulag sem hljómsveitin, ég og allt fólkið í kringum okkur hefur unnið að,“ segir Heather Kolker, umboðsmaður hljómsveitarinnar, stolt af þessum frábæra árangri.

Nanna Bryndís Hilmarsóttir hefur sannarlega slegið í gegn með hljómsveit sinni, Of Monsters and Men.nordicphotos/getty
Of Monsters and Men tók þátt í ýmsum verkefnum á árinu sem telja má að hafi hjálpað henni í að ná þessum frábæra árangri. Um er að ræða lag í hinni geysivinsælu kvikmynd Hunger Games – Catching Fire og einnig í kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty. „Það var virkilega gaman að semja lag fyrir Hunger Games og að eiga lag í svona kvikmyndum hefur klárlega hjálpað okkur mikið,“ segir Nanna Bryndís. Fyrir skömmu kom einnig út plata sem inniheldur lifandi útgáfur af lögum sveitarinnar. „Þetta var svona „live session“ og við gerðum öðru vísi útgáfur af mörgum lögunum okkar.“

Smáskífulög sveitarinnar hafa einnig farið sigurför um heiminn og hefur hún hlotið tvöfalda platínuplötu á Írlandi, Nýja-Sjálandi og í Bandaríkjunum fyrir smáskífulagið Little Talks og fimmfalda platínuplötu í Ástralíu. „Maður gerir sér sjaldan grein fyrir því hvaða lög eiga eftir að ná til fólks. Við vorum ekki viss um lagið Little Talks, það átti meira að segja annað lag að vera singull hjá okkur,“ útskýrir Nanna Bryndís.

Um þessar mundir er sveitin að koma saman aftur eftir pásu og er hún að hefjast handa við lagasmíðar og æfingar. „Við erum að byrja að hittast aftur núna eftir pásu sem er mjög gaman og höfum við saknað hvert annars mjög mikið,“ segir Nanna Bryndís létt í lundu.

Sveitin stefnir á að hefja upptökur á nýrri plötu í sumar og eru eflaust margir farnir að bíða með mikilli eftirvæntingu eftir næstu plötu.

Platan My Head Is an Animal hefur selst ótrúlega vel út um víða veröld og fengið fjölda viðurkenninga fyrir sölu á plötunni:

Sveitin hefur fengið tvöfalda platínuplötu í eftirtöldum löndum:

Ísland- um 27.000 eintök

Kanada- yfir 160.000 eintök

Írland- yfir 30.000 eintök

Hún hefur fengið platínuplötu í:

Bandaríkin- yfir 1.000.000 eintök

Ástralía- yfir 70.000 eintök

Nýja Sjáland- yfir 15.000 eintök

Hún hefur fengið tvöfalda gullplötu í:

Bretlandi- yfir 200.000 eintök

Þá hefur hún fengið gullplötu í Þýskalandi- yfir 100.000 eintök og silfurplötu í Frakklandi- um 40.000 eintök.

Smáskífur

Lagið Little Talks hefur farið sigurför um heiminn og hefur sveitin hlotið eftirfarandi viðurkenningar fyrir sölu á því smáskífulagi:

Sveitin hefur fengið fimmfalda platínuplötu Ástralíu.

Þrefalda platínuplötu í Kanada.

Tvöfalda platínuplötu í Írlandi, á Nýja Sjálandi og í Bandaríkjunum.

Platínuplötu í Þýskalandi, Ítalíu, Sviss og Belgíu.

Gullplötu í Mexíkó, Austurríki, Hollandi og Noregi.

Þá hefur hljómsveitin fengið platínuplötu í Ástralíu og gullplötu í Bandaríkjunum, Kanada og á Nýja Sjálandi fyrir smáskífulagið Mountain sound.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.