Hin hliðin Þorsteinn Pálsson skrifar 4. janúar 2014 06:00 Forsætisráðherra kvaddi gamla árið með snotru sjónvarpsávarpi. Þar var réttilega getið um þau efni sem snúist hafa til betri vegar fyrir þjóðina jafnframt því sem vísað var í hetjur frelsisbaráttunnar eins og við hæfi er á lokadegi hvers árs. Þó að ekkert hafi verið missagt í þessum ágæta texta er forvitnilegt að skoða hina hlið nokkurra þeirra atriða og tilvitnana sem gerð voru að umtalsefni. Ærin ástæða var til að minnast á sigur Íslands í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Hin hlið þeirra góðu tíðinda var þó ekki nefnd. Hún er sú að það voru lög Evrópusambandsins sem í þessu tilviki vernduðu Ísland í deilum við tvö af aðildarríkjum þess. Þetta er því gott dæmi um hvernig smáríki hagnast á þátttöku í alþjóðasamstarfi og aðild að alþjóðlegri löggjöf. Í þessu samhengi hefði forsætisráðherra einnig getað rifjað upp að hann og forseti Íslands höfðu um það stór orð fyrir dómsuppkvaðninguna að dómstóll úti í Evrópu hefði ekki vald til að gera út um málið; aðeins íslenskir dómstólar gætu veitt Íslandi skjól. Annað kom á daginn og gott eitt er um það að segja að menn geri ekki veður úr því að þeim hafi sjálfum skjöplast. Í samskiptum ríkja er það gjarnan afl þeirra stóru sem ræður. Í bandalögum ríkja er dregið úr þessu ofurvaldi. Það er ein helsta ástæðan fyrir því að minni ríki sjá sér hag í slíku samstarfi. Utanríkisráðherra hyggst nú gera Kína að þeim bandamanni sem Evrópuríkin hafa verið. Í þeim samskiptum mun fara minna fyrir þeirri vernd af alþjóðlegu regluverki og dómstólum sem við nutum í Icesave. Menn þurfa einfaldlega að sjá fyrir sér báðar hliðar Icesave-málsins til að geta dregið af því skynsamlegar ályktanir.Baldvin var með annan fótinn í Evrópu Vel fór á því að forsætisráðherra skyldi minnast á Baldvin Einarsson sem hóf útgáfu á tímaritinu Ármann á Alþingi í því skyni „að vekja andann í þjóðinni og fá hana til að meta sjálfa sig réttilega“. Ekki var ofmælt hjá ráðherranum að boðskapur hans á enn jafnvel við og þá. En hver var boðskapurinn? Hlutverk Baldvins Einarssonar var eins og annarra helstu eldhuga frelsisbaráttunnar á nítjándu öld að flytja nýja hugsjónastrauma frá meginlandi Evrópu hingað norður eftir. Jón Aðils sagnfræðingur lagði meiri rækt við íslenskt þjóðerni en margur annar. Í erindi um Baldvin Einarsson og Fjölnismenn, sem birtist í ritinu Dagrenning 1910, segir hann: „Baldvin stendur með annan fótinn í fortíðinni, en hinn í framtíðinni, eða öllu heldur með annan fótinn úti í Evrópu, þar sem Magnús [Stephensen] stóð með báða fætur, en hinn heima á Íslandi.“ Baldvin Einarsson var ekki Evrópusinni í nútíma merkingu orðsins. En þessi greining varpar ljósi á þá staðreynd að frelsisbarátta Íslendinga var ekki einangrað fyrirbæri. Hún var hluti af pólitískri gerjun í Evrópu. Frelsishetjurnar tryggðu að við urðum ekki viðskila í heimi nýrra hugmynda. Mikilvægt er að forystumenn landsins leggi hverju sinni sitt af mörkum til þess að halda anda þessa tíma vakandi. En við lærum lítið ef einungis er horft á aðra hlið þeirrar sögu. Þegar hún er virt frá báðum hliðum kennir hún að við megum ekki skilja okkur frá þeim þjóðum sem næst okkur standa. Sjálfstæði okkar hangir á þeirri spýtu. Það var og er boðskapurinn.„Að sitja sinn í hverju horni“ Það var einnig við hæfi að forsætisráðherra skyldi ljúka áramótaboðskap sínum með þessari tilvitnun í ávarp Fjölnismanna: „Óskandi væri Íslendingar færu að sjá, …að það er aumt líf og vesælt, að sitja sinn í hverju horni, og hugsa um ekkert nema sjálfan sig, og slíta svo sundur félag sitt, og skipta sundur afli sínu í svo marga parta sem orðið getur – í stað þess að halda saman og draga allir einn taum, og hugsa fyrst og fremst um heiður og velgengni landsins, sem öllum góðum Íslendingum ætti þó að vera í fyrirrúmi.“ Þegar þessi orð voru færð í letur voru milliríkjasamningar næsta fátíðir og má heita að þeir hafi helst snúist um stríðslok og landamæri. Nú tæpum tveimur öldum síðar velta flest viðfangsefni einstaklinga og ríkja aftur á móti á alþjóðlegum samningum og reglum. Í því nýja umhverfi er nú uppspretta helstu framfara. Í dag er það því ávísun á aumt líf og vesælt þegar þjóðir sitja hver í sínu horni, slíta sundur félag sitt og skipta aflinu í marga parta. Velgengni þeirra og heiður byggist öðru fremur á hinu að halda saman. Það er sem sagt önnur hlið á þessari tilvitnun í ávarp Fjölnismanna að í nútímanum geymir hún jafn gildan rökstuðning fyrir virku samstarfi þjóða sem byggja á sömu hugsjón frelsis og mannréttinda og Ísland á mest samskipti við. Sú hugsun ætti að vera í fyrirrúmi hjá öllum góðum Íslendingum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun
Forsætisráðherra kvaddi gamla árið með snotru sjónvarpsávarpi. Þar var réttilega getið um þau efni sem snúist hafa til betri vegar fyrir þjóðina jafnframt því sem vísað var í hetjur frelsisbaráttunnar eins og við hæfi er á lokadegi hvers árs. Þó að ekkert hafi verið missagt í þessum ágæta texta er forvitnilegt að skoða hina hlið nokkurra þeirra atriða og tilvitnana sem gerð voru að umtalsefni. Ærin ástæða var til að minnast á sigur Íslands í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Hin hlið þeirra góðu tíðinda var þó ekki nefnd. Hún er sú að það voru lög Evrópusambandsins sem í þessu tilviki vernduðu Ísland í deilum við tvö af aðildarríkjum þess. Þetta er því gott dæmi um hvernig smáríki hagnast á þátttöku í alþjóðasamstarfi og aðild að alþjóðlegri löggjöf. Í þessu samhengi hefði forsætisráðherra einnig getað rifjað upp að hann og forseti Íslands höfðu um það stór orð fyrir dómsuppkvaðninguna að dómstóll úti í Evrópu hefði ekki vald til að gera út um málið; aðeins íslenskir dómstólar gætu veitt Íslandi skjól. Annað kom á daginn og gott eitt er um það að segja að menn geri ekki veður úr því að þeim hafi sjálfum skjöplast. Í samskiptum ríkja er það gjarnan afl þeirra stóru sem ræður. Í bandalögum ríkja er dregið úr þessu ofurvaldi. Það er ein helsta ástæðan fyrir því að minni ríki sjá sér hag í slíku samstarfi. Utanríkisráðherra hyggst nú gera Kína að þeim bandamanni sem Evrópuríkin hafa verið. Í þeim samskiptum mun fara minna fyrir þeirri vernd af alþjóðlegu regluverki og dómstólum sem við nutum í Icesave. Menn þurfa einfaldlega að sjá fyrir sér báðar hliðar Icesave-málsins til að geta dregið af því skynsamlegar ályktanir.Baldvin var með annan fótinn í Evrópu Vel fór á því að forsætisráðherra skyldi minnast á Baldvin Einarsson sem hóf útgáfu á tímaritinu Ármann á Alþingi í því skyni „að vekja andann í þjóðinni og fá hana til að meta sjálfa sig réttilega“. Ekki var ofmælt hjá ráðherranum að boðskapur hans á enn jafnvel við og þá. En hver var boðskapurinn? Hlutverk Baldvins Einarssonar var eins og annarra helstu eldhuga frelsisbaráttunnar á nítjándu öld að flytja nýja hugsjónastrauma frá meginlandi Evrópu hingað norður eftir. Jón Aðils sagnfræðingur lagði meiri rækt við íslenskt þjóðerni en margur annar. Í erindi um Baldvin Einarsson og Fjölnismenn, sem birtist í ritinu Dagrenning 1910, segir hann: „Baldvin stendur með annan fótinn í fortíðinni, en hinn í framtíðinni, eða öllu heldur með annan fótinn úti í Evrópu, þar sem Magnús [Stephensen] stóð með báða fætur, en hinn heima á Íslandi.“ Baldvin Einarsson var ekki Evrópusinni í nútíma merkingu orðsins. En þessi greining varpar ljósi á þá staðreynd að frelsisbarátta Íslendinga var ekki einangrað fyrirbæri. Hún var hluti af pólitískri gerjun í Evrópu. Frelsishetjurnar tryggðu að við urðum ekki viðskila í heimi nýrra hugmynda. Mikilvægt er að forystumenn landsins leggi hverju sinni sitt af mörkum til þess að halda anda þessa tíma vakandi. En við lærum lítið ef einungis er horft á aðra hlið þeirrar sögu. Þegar hún er virt frá báðum hliðum kennir hún að við megum ekki skilja okkur frá þeim þjóðum sem næst okkur standa. Sjálfstæði okkar hangir á þeirri spýtu. Það var og er boðskapurinn.„Að sitja sinn í hverju horni“ Það var einnig við hæfi að forsætisráðherra skyldi ljúka áramótaboðskap sínum með þessari tilvitnun í ávarp Fjölnismanna: „Óskandi væri Íslendingar færu að sjá, …að það er aumt líf og vesælt, að sitja sinn í hverju horni, og hugsa um ekkert nema sjálfan sig, og slíta svo sundur félag sitt, og skipta sundur afli sínu í svo marga parta sem orðið getur – í stað þess að halda saman og draga allir einn taum, og hugsa fyrst og fremst um heiður og velgengni landsins, sem öllum góðum Íslendingum ætti þó að vera í fyrirrúmi.“ Þegar þessi orð voru færð í letur voru milliríkjasamningar næsta fátíðir og má heita að þeir hafi helst snúist um stríðslok og landamæri. Nú tæpum tveimur öldum síðar velta flest viðfangsefni einstaklinga og ríkja aftur á móti á alþjóðlegum samningum og reglum. Í því nýja umhverfi er nú uppspretta helstu framfara. Í dag er það því ávísun á aumt líf og vesælt þegar þjóðir sitja hver í sínu horni, slíta sundur félag sitt og skipta aflinu í marga parta. Velgengni þeirra og heiður byggist öðru fremur á hinu að halda saman. Það er sem sagt önnur hlið á þessari tilvitnun í ávarp Fjölnismanna að í nútímanum geymir hún jafn gildan rökstuðning fyrir virku samstarfi þjóða sem byggja á sömu hugsjón frelsis og mannréttinda og Ísland á mest samskipti við. Sú hugsun ætti að vera í fyrirrúmi hjá öllum góðum Íslendingum.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun