Tónlist

Garðar Thor Cortes syngur einsöng

Karlakórinn Heimir.
Karlakórinn Heimir.
Karlakórinn Heimir efnir til árlegra tónleika í tilefni af þrettándanum í kvöld klukkan 20.30 í Varmahlíð. Að þessu sinni fær kórinn liðsinni frá Garðari Thor Cortes sem syngur einsöng.

„Þetta eru tónleikar sem kórinn hefur haldið í áratugi,“ segir stjórnandi kórsins, Stefán Reynir Gíslason.

„Ég er búinn að stýra þessum kór í þrjátíu ár og þetta hefur verið gert síðan ég byrjaði. Ég byrjaði árið 1984 og kórinn var stofnaður árið 1927. Það er sterk hefð fyrir þessu og það hefur verið mjög góð aðsókn,“ segir Stefán.

Æfingar hefjast hjá kórnum í október og þetta eru alltaf fyrstu tónleikar hans á starfsárinu.

„Á þessu ári flytjum við sama prógramm 2. mars í Hofi á Akureyri. Helmingurinn er hefðbundið karlakórsprógramm. Hitt eru aríur, sem Garðar Thor syngur með okkur. Meðal efnis sem verður á dagskrá er Kór prestanna eftir Mozart úr Töfraflautunni og fleiri klassísk stykki. Svo kemur Garðar og syngur ítalskar aríur og Bikarinn eftir Eyþór Stefánsson og fleira.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.