Íslenski boltinn

Pálmi Rafn: Maginn sagði mér að fara í KR | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gaupi spjallar við Pálma Rafn.
Gaupi spjallar við Pálma Rafn. vísir/vilhelm
Pálmi Rafn Pálmason skrifaði undir þriggja ára samning við KR í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag, en hann er annar stóri bitinn sem Vesturbæjarstórveldið fær til sín í vetur. Húsvíkingurinn var mjög eftirsóttur, en KA, Valur og FH höfðu mikinn áhuga á að fá hann í sínar raðir.

Guðjón Guðmundsson var í KR-heimilinu í dag þegar Pálmi var kynntur til leiks og spurði hann fyrst af hverju hann valdi KR.

„Það er svolítið erfitt að segja. Ég átti í miklum erfiðleikum með að velja og átti gott spjall við öll liðin. Það var svona maginn sem sagði mér að fara í KR. Ég hef mikla trú á verkefninu sem er að fara í gang hérna. Hér vil ég vinna titla og gera það gott,“ sagði Pálmi Rafn.

„Það var margt sem spilaði inn í. Ég átti gott spjall við Bjarna og Gumma og fleiri. En á endanum tók ég þessa ákvörðun og vonandi var þetta góð og rétt ákvörðun.“

Pálmi fékk tilboð frá öðrum liðum í Noregi en fannst þau ekki nógu spennandi. Hann vill ekkert segja til um hvort hann geti farið í janúar komi tilboð að utan.

„Ég ætla ekkert að segja til um hvað stendur í samningnum. Ég hef hafnað tilboðum að utan sem hafa ekki verið spennandi. Það sem er í gangi hér finnst mér spennandi og þess vegna er ég hérna núna,“ sagði Pálmi.

„Það var aðallega Noregur sem var að heyra í mér, en eins og ég segi var það ekki nógu spennandi til að taka því.“

Guðjón ræddi einnig við Bjarna Guðjónsson, þjálfara KR, sem fagnaði því eðlilega að hafa fengið einn feitasta bitann á markaðnum.

„Ekki nokkur spurning. Þetta eru frábærar fréttir fyrir okkur KR-inga. Hann er ekki bara frábær fótboltamaður heldur frábær karakter. Það er mikið ánægjuefni fyrir okkur að fá hann,“ sagði Bjarni.

„Pálmi er mjög góður leikmaður sem hefði getað verið lengur úti. Það voru vissulega lið hérna heima sem höfðu áhuag á honum. Mér fannst eftir fyrsta fund að hann myndi velja KR á endanum.“

KR-ingar eru einnig búnir að semja við danska varnarmanninn Rasmus Christiansen og þeir eru ekki hættir.

„Við þurfum að styrkja okkur meira. Við erum búnir að ganga frá samningum við Rasmus háð ákveðnum skilyrðum. Við þurfum að styrkja okkur, en það er ennþá bara desember,“ sagði Bjarni Guðjónsson.

Viðtölin við þá félaga má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Pálmi Rafn búinn að semja við KR

Húsvíkingurinn Pálmi Rafn Pálmason er orðinn leikmaður KR. Hann skrifaði nú síðdegis undir þriggja ára samning við Vesturbæjarfélagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×