Íslenski boltinn

Atli og Sigrún Ella gáfu flestar stoðsendingar í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vísir
Atli Guðnason úr FH og Sigrún Ella Einarsdóttir úr Stjörnunni áttu flestar stoðsendingar í Pepsi-deildum karla og kvenna á árinu 2014.

Þetta kemur fram í bókinni Íslensk knattspyrna 2014 eftir Víði Sigurðsson sem var kynnt á fréttamannafundi í dag, þar sem þau fengu verðlaun fyrir frammistöðu sína frá Bókaútgáfunni Tindi.

Þetta er í annað sinn á þremur árum sem Atli á flestar stoðsendingar en þær voru 11 talsins hjá honum í deildinni í ár. Sigrún Ella hlýtur hinsvegar þessa viðurkenningu í fyrsta skipti en hún lagði upp 11 mörk fyrir Íslandsmeistara Stjörnunnar.

FH átti tvo efstu menn í Pepsi-deild karla því Ólafur Páll Snorrason varð annar með 10 stoðsendingar og þriðji varð síðan Ragnar Leósson úr Fjölni sem einnig átti 10 sendingar sem gáfu mörk.

Í Pepsi-deild kvenna varð Shaneka Gordon úr ÍBV í öðru sæti, einnig með 11 stoðsendingar. Í þriðja sæti varð síðan Harpa Þorsteinsdóttir úr Stjörnunni, markadrottning deildarinnar 2014, en hún áttu líka 11 stoðsendingar eins og þær Sigrún og Shaneka en í fleiri leikjum.

Bókaútgáfan Tindur veitti jafnframt árleg heiðursverðlaun sín og þau hlaut að þessu sinni knattspyrnudeild Leiknis í Reykjavík fyrir frábæran árangur liðsins sem varð sigurvegari í 1. deild karla og leikur í fyrsta skipti í efstu deild á næsta keppnistímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×