Íslenski boltinn

Baldur Sigurðsson samdi við SönderjyskE

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Baldur Sigurðsson lyftir ekki fleiri bikurum fyrir KR í bili.
Baldur Sigurðsson lyftir ekki fleiri bikurum fyrir KR í bili. vísir/daníel
Baldur Sigurðsson, fyrirliði KR í Pepsi-deild karla í fótbolta, er genginn í raðir danska úrvalsdeildarliðsins SönderjyskE, en þetta kemur fram á heimasíðu liðsins.

Baldur skrifaði undir eins árs samning við danska liðið en með möguleika á að framlengja um tvö ár til viðbótar.

„Baldur Sigurðsson kom á reynslu til okkar og stóð sig vel. Hann getur spilað margar stöður bæði í vörn og sókn. Hann er týpískur Íslendingur sem leggur mikið á sig. Hann kemur líka með mikla reynslu í liðið,“ segir Hans Jörgen Haysen, yfirmaður knattspyrnumála hjá SönderjyskE.

Brotthvarf Baldurs er mikið áfall fyrir KR, en hann hefur verið einn allra besti leikmaður Pepsi-deildarinnar undanfarin ár og bar fyrirliðaband Vesturbæjarliðsins eftir að Bjarni Guðjónsson lagði skóna á hiluna.

Þetta er í annað sinn sem Baldur spreytir sig í atvinnumennsku en hann var áður á mála hjá Bryne í Noregi. Þaðan kom hann til KR árið 2009, en í Vesturbænum hefur hann unnið tvo Íslandsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla.

„Það er með gríðarlegum söknuði sem ég kveð KR, í bili allavega. Tími minn hjá KR hefur verið hreint stórkostlegur og það hefur verið mikill heiður að fá að taka þátt í velgengninni síðustu ár,“ segir Baldur í kveðju á Facebook-síðu sinni.

„Ég vil þakka allri KR fjölskyldunni fyrir allt sem hún hefur gert fyrir mig og ég vona að ég hafi náð að gefa eitthvað tilbaka. Vonandi hitti ég svo ykkur sem flest svo ég geti kvatt almennilega! Áfram KR“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×