Íslenski boltinn

Danskur markvörður spilaði með Víkingum í gær

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ingvar Þór Kale hefur varið mark Víkings undanfarin tvö ár eftir endurkomuna frá Breiðabliki.
Ingvar Þór Kale hefur varið mark Víkings undanfarin tvö ár eftir endurkomuna frá Breiðabliki. vísir/stefán
Danski markvörðurinn Thomas Nielsen spilaði æfingaleik með Pepsi-deildar liði Víkings í gær gegn 1. deildar liðið Þróttar.

Víkingar höfðu betur, 4-0, en mikið af leikmönnum sem liðin eru að skoða spiluðu leikinn. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði tvö af mörkum Víkinga beint úr aukaspyrnum.

Í marki Víkings í leiknum stóð Daninn Thomas Nielsen, 22 ára gamall leikmaður sem uppalinn er hjá Danmerkurmeisturum Álaborgar. Hann hefur undanfarin tvö ár spilað með Skjold og Lindholm í neðri deildum Danmerkur.

Thomas Nielsen.mynd/lindholmif.dk
„Hann var á reynslu hjá okkur í viku og við vildum sjá hann í leik. Hann fór heim í morgun,“ segir Milos Milojevic, annar þjálfara Víkings, við Vísi.

„Hann leit vel út þannig við Óli Þórðar ætlum að ræða þetta betur. Þetta er strákur sem var í akademíunni hjá Álaborg og er vel skólaður. Við þurfum að skoða kostina og gallana núna,“ segir Milos.

    

Ingvar Þór Kale sem varði mark Víkings í sumar verður samningslaus um áramótin. „Það eru samningaviðræður í gangi. Við viljum halda Ingvari þannig vonandi ganga samningaviðræðurnar upp,“ segir Milos.

Daninn er mjög líklegur til að verja mark Víkings fari svo að Ingver yfirgefi Víking, en helst vill Milos hafa þá báða næsta sumar.

„Það væri draumur að hafa þá báða, en ef Ingvar verður áfram efast ég um að svo verði. Fari Ingvar verður Nielsen líklega númer eitt ef við getum fengið hann,“ segir Milos Milojevic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×