Íslenski boltinn

Guðjón sár vegna ummæla Jónasar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Valli
Guðjón Þórðarson segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að hann sé því feginn að máli hans gegn knattspyrnudeild Grindavíkur hafi verið til lykta leitt.

Guðjón fór fram á skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar er Guðjóni var sagt upp störfum hjá Grindavík á haustmánuðum 2012. Héraðsdómur Reykjaness dæmdi Guðjóni í vil á sínum tíma og Hæstiréttur staðfesti dóminn á fimmtudag.

Knattspyrnudeild Grindavíkur þarf að greiða Guðjóni rúmar 8,4 milljónir króna í skaðabætur auk málsvarnarkostnaðar upp á samtals 900 þúsund krónur.

„Nú getur maður loksins horft fram á veginn á ný. En það er búið að valda mér miklum skaða að standa í þessu, ekki síst ómakleg ummæli sem hafa fallið í minn garð,“ segir Guðjón við Morgunblaðið.

Hann hefur ekki þjálfað síðan hann hætti hjá Grindavík en hann ræddi við forráðamenn nokkra knattspyrnudeilda í haust. „Einn aðili í efstu deild sagði við mig að þeir vildu ekki ræða málin frekar á meðan ég ætti í málaferlum við eitt af aðildarfélögum hreyfingarinnar.“

Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, sagði í viðtali við Víkurfréttir fyrir helgi að það hefðu verið hans stærstu mistök á ferlinum að ráða Guðjón.

„Það var mjög dapurlegt að lesa viðtal við Jónas [...] þar sem hann talar um mig sem gallagrip.“

Guðjón hefur að undanförnu sótt sér menntun í Háskóla Íslands í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun. „Kannski má segja að ég hafi fengist við svipaða þætti á þjálfaraferlinum. Það er til dæmis gaman að skoða þá sem léku undir minni stjórn á Akranesi 1996 og með landsliðinu næstu ár á eftir og hve margir þeirra eru leiðtogar í fótboltanum í dag,“ sagði Guðjón.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×