Fótbolti

Mourinho: Tjái mig ekki um Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Chelsea mætir slóvenska liðinu Maribor í Meistaradeild Evrópu í kvöld en þeir ensku unnu 6-0 sigur þegar liðin mættust í Lundúnum fyrir tveimur vikum síðan.

Sigur í kvöld gæti tryggt Chelsea sæti í 16-liða úrslitum keppninnar en það mun einnig ráðast á úrslitum Sporting Lissabon og Schalke. Og Jose Mourinho, stjóri Chelsea, ætlar fara inn í leik kvöldsins af fullum krafti.

„Ég er hrifinn af því að koma með stórt félag og þekkta leikmenn til lands, borgar og leikvangs sem þeir heimsækja vanalega ekki. Ég tel að það sé ábyrgð okkar að spila bæði fyrir okkur sjálfa og fólkið,“ sagði Mourinho.

„Það þýðir að spila vel og sýna hvað við getum. Sýna hversu góða leikmenn og hversu gott lið við erum með,“ bætti hann við.

Brendan Rodgers ákvað að hvíla marga af sínum bestu mönnum er lið hans, Liverpool, mætti Real Madrid á útivelli í gærkvöldi. Chelsea mætir Liverpool á laugardag í ensku úrvalsdeildinni og Mourinho var spurður hvort að orð hans beindust að Liverpool.

„Ef Liverpool ákveður að hvíla leikmenn í leik gegn Evrópumeisturunum þá verður stjóri Liverpool að svara fyrir það. Það er ekki spurning fyrir mig. Ég reyni yfirleitt að stilla mínu sterkasta liði upp gegn erfiðustu andstæðingunum,“ sagði Mourinho.

Diego Costa var í hópi þeirra 22 leikmanna Chelsea sem fóru til Slóveníu í gær en Loic Remy og John Obi Mikel eru frá vegna meiðsla.


Tengdar fréttir

Rodgers: Ég vissi hvað ég var að gera

Margir sökuðu Brendan Rodgers, stjóra Liverpool, um að kasta inn hvíta handklæðinu fyrir leikinn gegn Real Madrid í kvöld en liðið sem hann valdi fékk aðeins á sig eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×