Lífið

Væri heima hjá sér að skera osta og horfa á Friends ef Airwaves væri ekki

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Mér finnst alltaf gaman að sjá hvernig bærinn lifnar við á nokkuð daufum tíma ársins,“ segir tónlistarmaðurinn Egill Ólafur Thorarensen, um Iceland Airwaves-hátiðina sem hófst á miðvikudaginn. Blaðamaður Vísis hitti hann ásamt Friðriki Ólafssyni á Slippbarnum í gær en þeir standa sjálfir að tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem fram fór síðasta sumar og mun einnig verða í Laugardalnum næsta sumar.

„Þetta er ótrúlegur vettvangur fyrir íslenskar hljómsveitir til að kynna sig. Þetta er fyrir mitt leyti besta hátíðin fyrir íslenska listamenn til að koma sér á framfæri,“ segir Egill og þá bætir Friðrik við: „Þú finnur alltaf eitthvað nýtt og sniðugt á þessari hátíð.“

Strákarnir segja að þetta sé árlegur viðburður fyrir þá báða og missa þeir helst ekki af hátíðinni en Friðrik er búsettur erlendis.

Egill hefur sjálfur spilað á Airwaves og þá aðallega með hljómsveitinni Quarashi.

vísir/sáp
„Það er svo gaman að spila á þessari hátíð. Ég man þegar ég fór síðast á svið og leit yfir salinn og gerði mér grein fyrir því að þetta voru mestmegnis erlendir gestir. Að spila fyrir sal sem er sjötíu prósent útlendingar sem eru komnir alla leið hingað til að hlusta á þig er ótrúlega gaman. Ég veit ekki hvað maður væri að gera ef þessi hátíð væri ekki, kannski heima hjá sér að skera osta og horfa á Friends.“

Secret Solstice hátíðin fór fram í Laugardalnum í sumar og stefna þeir félagar á það að gera enn betur næsta sumar. 

„Við fengum góðar ráðleggingar frá þeim sem standa að tónlistarviðburðum hér á landi og hér á landi eru allir bara svo miklir vinir og tilbúnir að hjálpa. Það vantaði bara einhverja hátíð hinumegin við árið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×