Íslenski boltinn

Ósvald snýr aftur í Kópavoginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ósvald í þann mund sem hann skoraði sitt fyrsta og eina mark í Pepsi-deildinni til þessa, gegn Val á Vodafone-vellinum.
Ósvald í þann mund sem hann skoraði sitt fyrsta og eina mark í Pepsi-deildinni til þessa, gegn Val á Vodafone-vellinum. Vísir/Valli
Ósvald Jarl Traustason mun spila með Breiðabliki í Pepsi-deild karla á næsta tímabili. Þetta staðfesti hann í samtali við Fótbolta.net í gær.

Fylkir sýndi Ósvaldi einnig áhuga, en hann ákvað að ganga til liðs við Breiðablik á nýjan leik. Ósvald, sem leikur jafnan í stöðu vinstri bakvarðar, er uppalinn Bliki en lék með Fram á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði eitt mark í 15 leikjum. Eftir tímabilið rifti hann samningi sínum við Safamýrarliðið líkt og svo margir leikmenn liðsins.

Ósvald, sem er 19 ára gamall, hefur ekki enn leikið deildarleik fyrir Breiðablik en hann lék átta leiki sem lánsmaður með Leikni R. í 1. deildinni 2013.

Breiðablik endaði í 7. sæti Pepsi-deildarinnar á síðasta tímabili. Að tímabilinu loknu tók Arnar Grétarsson við þjálfun liðsins af Guðmundi Benediktssyni, en hann stýrði Blikum stærstan hluta síðasta tímabils eftir að Ólafur H. Kristjánsson hætti í byrjun júní til að taka við danska úrvalsdeildarliðinu Nordsjælland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×