Íslenski boltinn

Hólmar Örn á leið í Keflavík

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hólmar Örn Rúnarsson varð Íslandsmeistari með FH 2012.
Hólmar Örn Rúnarsson varð Íslandsmeistari með FH 2012. vísir/arnþór
Hólmar Örn Rúnarsson, miðjumaður FH, er við það að ganga aftur í raðir uppeldisfélags síns Keflavík, en samningur hans við FH-inga rann út eftir tímabilið.

„Ég reikna fastlega með því að fara í Keflavík. Ég er í viðræðum við menn þar og það er komið eitthvað á veg,“ segir Hólmar Örn í samtali við Vísi, en hann er búinn að láta forráðamenn FH vita af áformum sínum.

„Ég er búinn að segja þér að ég sé á leið aftur til Keflavíkur. Þeir vita af því,“ segir Hólmar Örn, sem hefur verið í herbúðum FH frá 2011 og varð Íslandmeistari með liðinu 2012.

Hann segist hafa langað heim síðasta vetur, en fannst hann skulda FH annað tímabil eftir að hafa spilað aðeins einn sumarið 2013.

„Það var hugur í mér að fara til Keflavíkur fyrir síðasta tímabil. Það hefur kraumað í mér í smá tíma. Mér fannst ég bara ekki geta endað þetta svona með FH eftir að spila aðeins fimm mínútur í fyrra. Mér fannst ég skulda FH og sjálfum mér að taka annað tímabil,“ segir Hólmar Örn.

Fleiri lið höfðu áhuga á Hólmari og voru búin að hafa samband, en sjálfur valdi hann að fara aftur heim og hjálpa sínu uppeldisfélagi.

„Það eru einhver lið búin að hringja en það var alltaf fullur ásetningur hjá mér að fara heim. Ég bý þar og hef alltaf gert. Ég er búinn að eiga góð ár í FH, en mig langar heim að spila á meðan það er enn kraftur í fótunum. Það þýðir ekkert að fara heim bara til að geispa golunni,“ segir Hólmar Örn.

Tveir aðrir synir Keflavíkur; Guðjón Árni Antoníusson, samherji Hólmars Arnar hjá FH, og Jónas Guðni Sævarsson, sem spilar með KR, eru einnig orðaðir við heimkomu í Bítlabæinn. Er Hólmar að reyna að taka Guðjón Árna með sér heim?

„Það eru allskonar orðrómar um þetta í gangi, en ég ætla ekkert að tjá mig um það,“ segir Hólmar Örn Rúnarsson léttur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×