Íslenski boltinn

Jóhannes staðfestur sem nýr þjálfari ÍBV

Jóhannes Harðarson.
Jóhannes Harðarson. vísir/gloría
ÍBV kynnti til sögunnar eftir hádegi nýjan þjálfara meistaraflokks karla. Það er Skagamaðurinn Jóhannes Harðarson eins og búist var við.

Jóhannes samdi við ÍBV til þriggja ára og mun flytja til Eyja og búa þar. ÍBV segist vera að setja af stað þriggja ára verkefni þar sem á að festa ÍBV í sessi sem Pepsi-deildarlið og byggja upp sterkara lið en áður.

Jóhannes hefur verið að þjálfa í Noregi síðustu ár en þar lék hann áður en hann hellti sér út í þjálfun.

Hann tekur við starfinu af Sigurði Ragnari Eyjólfssyni sem hætti af fjölskylduástæðum.

FRÉTTATILKYNNING FRÁ ÍBV

Knattspyrnuráð ÍBV hefur gengið frá ráðningu Jóhannesar Þórs Harðarsonar sem þjálfara mfl. karla ÍBV í knattspyrnu. Samningur aðila er til þriggja ára og mun Jóhannes flytja til Eyja og hafa fasta búsetu í Vestmannaeyjum.

Með ráðningu Jóhannesar er lagt af stað í þriggja ára verkefni sem miðar að því að festa ÍBV í sessi sem Pepsídeildarlið og byggja upp lið sem hefur það markmið að ná betri árangri en undanfarin ár.

Einnig mun Jóhannes koma að mótun yngri leikmanna félagsins í góðu samstarfi við þá þjálfara sem starfa hjá félaginu. Markmið beggja, félagsins og Jóhannesar, er að byggja upp lið sem leikur skemmtilega knattspyrnu,byggir á þeirri Eyjastemmingu sem lið ÍBV á að byggja á, og síðast en ekki síst að efla yngri leikmenn liðsins.

Jóhannes er vel kunnur sem einn af okkar betri knattspyrnumönnum áður en hann snéri sér að þjálfun. Jóhannes lék allan sinn feril hérlendis með Skagamönnum og varð fljótt einn af lykilleikmönnum þess liðs.

Hann lék með liði Skagamanna frá árinu 1995-2000 og varð m.a. Íslandsmeistari með Skagaliðinu á sínu fyrsta ári. Hann varð svo tvöfaldur meistari með liðinu árið 1996 eftir tvo hreina úrslitaleiki, annars vegar gegn KR í deildinni, sigur 4-1, og svo gegn ÍBV í bikarkeppninni, sigur 2-1. Hann varð svo aftur bikarmeistari með liðinu árið 2000 eftir 2-1 sigur á ÍBV.

Eftir tímabilið árið 2000 hélt Jóhannes í atvinnumennsku til Hollands og lék þar árin 2001-2004 með liðum MVV Maastricht og Groningen. Þaðan hélt hann svo til Noregs og lék með liði Start árin 2004-2009 þar til hann snéri sér að þjálfun og tók þá við liði Fløy í 3. efstu deild í Noregi. Jóhannes Þór hefur nú þjálfað lið Fløy sl. 5 ár og skilar þar góðu búi.

Jóhannes á að baki leiki með öllum landsliðum Íslands og þar af 2 A-landsleiki, og voru það báðir sigurleikir gegn Suður-Afríku og Möltu. Jóhannes hóf hins vegar sinn landsliðsferil með U-16 hér í Vestmannaeyjum á Norðurlandamótinu árið 1991.

Leiðir Jóhannesar og ÍBV hafa því áður legið saman á hans ferli og nú mun það birtast í góðu samstarfi að efla ÍBV, búa til öflugt lið og hlúa vel að yngri leikmönnum liðsins.

Við vonumst einnig til að stuðningsmenn ÍBV, nær og fjær, fylki sér á bak við nýjan þjálfara, leikmenn og stjórn knattspyrnunnar í að styðja við þetta verkefni að festa ÍBV liðið í sessi sem Pepsídeildarlið.

Knattspyrnuráð ÍBV býður Jóhannes Þór velkominn til starfa.


Tengdar fréttir

Jóhannes kynntur til leiks í Eyjum?

Knattspyrnudeild ÍBV hefur boðað til blaðamannafundar eftir hádegið þar sem nýr þjálfari karlaliðsins félagsins verður kynntur til sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×