Íslenski boltinn

Arnþór Ari hefur rætt við FH og Víking

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnþór Ari Atlason er eftirsóttur.
Arnþór Ari Atlason er eftirsóttur. vísir/daníel
Arnþór Ari Atlason, miðjumaðurinn efnilegi sem spilaði með Fram í Pepsi-deildinni í sumar, hefur rætt við FH og Víking um að ganga mögulega í raðir þeirra.

Arnþór Ari, sem er 21 árs gamall, kom til Fram frá uppeldisfélagi sínu Þrótti fyrir tímabilið og skoraði þrjú mörk í 20 leikjum. Þegar tímabilinu lauk með falli Safamýrarliðsins rifti Arnþór Ari samningi sínum við félagið.

„Ég hef ekki rætt neitt alvarlega við neitt lið, en ég er búinn að setjast niður með tveimur liðum,“ sagði Arnþór Ari við Vísi í dag.

Aðspurður hvort það eru FH og Víkingur staðfestir hann það: „Já, ég hef rætt við FH og Víking. Ég settist niður með þeim og sá hvað þau höfðu að segja og bjóða.“

Arnþór Ari segir valið ekki endilega standa á milli þeirra tveggja heldur hann öllum dyrnum opnum.

„Ég er ennþá opinn fyrir öðru, en þessi lið virðast svona spenntust fyrir mér,“ sagði Arnþór, en mikill áhugi hefur verið á honum eftir að tímabilinu lauk.

„Ég er búinn að finna fyrir nokkrum áhuga, allavega meiri en ég bjóst við. Ég gat alveg eins búist við að enginn hefði áhuga miðað við hvernig sumarið fór hjá okkur, en þetta er gaman.“

„Ég er bara sultuslakur yfir þessu og tek mér minn tíma í þetta. En það fer nú að líða að ákvörðun,“ sagði Arnþór Ari Atlason.

Víkingur er eina Pepsi-deildarliðið sem búið er að bæta við sig fyrir næsta sumar, en Húsvíkingurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson gekk í raðir Fossvogsfélagsins í síðustu viku.

FH-ingar voru nálægt því að landa Óskari Erni Haukssyni sem á endanum samdi aftur við KR, en þeir eru einnig í viðræðum við Finn Orra Margeirsson.


Tengdar fréttir

Óskar Örn skrifaði undir nýjan samning við KR í kvöld

Óskar Örn Hauksson verður áfram í KR en það var ljóst í kvöld þegar þessi snjalli vængmaður skrifaði undir nýjan samning við Vesturbæjarfélagið. Þetta kom fram í fréttatilkynningu frá KR í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×