Íslenski boltinn

Bjarni Guðjónsson ráðinn þjálfari KR

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, ánægður með ráðninguna á Bjarna og Guðmundi í dag.
Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, ánægður með ráðninguna á Bjarna og Guðmundi í dag. vísir/vilhelm
Bjarni Guðjónsson, fyrrverandi leikmaður KR og atvinnumaður í fótbolta, var í dag formlega ráðinn þjálfari Vesturbæjarliðsins og stýrir hann því í Pepsi-deildinni næsta sumar. Hann var kynntur á blaðamannafundi í KR-heimilinu í dag, en Bjarni skrifaði undir þriggja ára samning.

Bjarni tekur við starfinu af Rúnari Kristinssyni sem þjálfaði KR frá miðju ári 2010 og út tímabilið í sumar. Hann lét af störfum í síðustu viku og tekur væntanlega við norska úrvalsdeildarliðinu Lilleström í næsta mánuði.

Bjarni lagði skóna á hilluna í fyrra og reyndi í fyrsta skipti fyrir sér sem þjálfari í sumar þegar hann féll með lið Fram. Hann lét af störfum skömmu eftir að tímabilinu lauk.

Guðmundur Benediktsson var ráðinn aðstoðarþjálfari KR, en hann var jafnframt kynntur til leiks á blaðamannafundinum í dag.

Bæði Bjarni og Guðmundur eiga farsæla ferla að baki sem leikmenn KR. Bjarni varð Íslandsmeistari 2011 og 2013 og bikarmeistari 2008, 2011, 2012 og 2014.

Guðmundur lék í tvígang með KR, en hann varð fyrst Íslandsmeistari með félaginu árið 1999 og aftur árið 2000. Hann vann Íslandsmeistaratitilinn aftur með KR 2002 og var svo aðstoðarþjálfari Willums Þórs Þórssonar árið eftir þegar KR vann fjórða titilinn á fimm árum.

Guðmundur hætti að spila með KR árið 2009 og stýrði Selfossi í efstu deild árið eftir. Hann þjálfaði Breiðablik í sumar eftir að vera aðstoðarþjálfari Ólafs Kristjánssonar til tveggja ára.

KR hafnaði í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar í ár en varð bikarmeistari í þriðja sinn undir stjórn Rúnars Kristinssonar.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, fyrrverandi leikmaður KR, hefur einnig verið ráðinn þjálfari 2. flokks og mun hann koma að starfi meistaraflokks. Halldór Árnason verður honum til aðstoðar og enn fremur yfirþjálfari yngri flokka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×