Íslenski boltinn

Keflvíkingar vilja fá tvo syni heim úr FH

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Árni Antoníusson og Hólmar Örn Rúnarsson fagna marki með FH.
Guðjón Árni Antoníusson og Hólmar Örn Rúnarsson fagna marki með FH. Vísir/Guðmundur Bjarki Halldórsson
Keflvíkingar hafa áhuga á því að fá Guðjón Árna Antoníusson og Hólmar Örn Rúnarsson aftur heim til Keflavíkur en þeir hafa spilað síðustu tímabil með FH. Þetta er haft eftir Kristjáni Guðmundsson, þjálfara liðsins, í frétt á fótbolta.net í dag.

Guðjón Árni er 31 árs gamall bakvörður sem hefur aðeins náð að spila 11 af 44 leikjum FH undanfarin tímabil vegna meiðsla. Hann lék síðast með Keflavík sumarið 2011 og á að baki 155 leiki með Keflavíkurliðinu í efstu deild.

Hólmar Örn er 33 ára miðjumaður sem var fastamaður hjá FH-liðinu seinni hluta sumars. Hann lék síðast með Keflavík sumarið 2010 og á að baki 141 leik með Keflavíkurliðinu í efstu deild.

„Þeir eru að losna undan samning og eins og önnur félög þá horfum við á okkar menn í öðrum félögum og reynum að fá þá," sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur í samtali við Fótbolta.net í dag.

Kristján skrifaði sjálfur undir nýjan samning við Keflavík í dag og verður þjálfari liðsins til ársins 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×