Íslenski boltinn

Hallgrímur Mar: Ætla sýna hvað ég get í Pepsi-deildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hallgrímur Mar Steingrímsson í búningi Víkings í dag.
Hallgrímur Mar Steingrímsson í búningi Víkings í dag. vísir/tom
„Þetta er bara mjög flott og fínt skref fyrir mig á mínum ferli,“ segir Hallgrímur Mar Steingrímsson, nýjasti leikmaður Pepsi-deildar liðs Víkings, við Vísi.

Húsvíkingurinn skrifaði undir þriggja ára samning við Fossvogsfélagið í dag, en hann hefur verið á meðal bestu leikmanna 1. deildarinnar undanfarin ár þar sem hann spilaði með KA.

„Mér fannst þetta vera rétti tíminn að taka skrefið þó ég hefði getað tekið það fyrir einu til tveimur árum. Mér fannst ég skulda KA aðeins og vildi vera þar lengur,“ segir Hallgrímur sem skoraði 22 mörk í 58 leikjum síðustu þrjú sumur með Akureyrarliðinu.

„Nú fannst mér ég vera kominn á endastöð, en KA kom svo vel fram við mig og vildi allt fyrir mig gera á mínum erfiðu tímum. Ég vildi reyna að gera eitthvað gott fyrir þá, en því miður tókst það ekki.“

Hallgrímur var með nokkur félög á eftir sér að eigin sögn, en hann æfði með bikarmeisturum KR fyrr í mánuðinum. Hvað kom til að hann skrifaði undir við Víking?

„Ég fór á fund með Óla Þórðar og Milos [Milojevic] um daginn. Það sem þeir sögðu heilluðu mig. Hér er flott stefna og mér líst vel á markmiðin. Það er mikill metnaður í félaginu fyrir að ná árangri,“ segir Hallgrímur.

Víkingar spilaði í Evrópu næsta sumar í fyrsta sinn í 23 ár, en það var ekkert sem heillaði Húsvíkinginn neitt sérstaklega.

„Ég vissi alveg af Evrópukeppninni, en Víkingur hefði alveg heillað mig alveg jafnmikið þó liðið væri ekki í Evrópu. Mér leist bara vel á Óla, Milos og markmið félagsins,“ segir hann.

Hallgrímur segist fullviss um að hann geti tekið skrefið upp í Pepsi-deildina og sýnt sömu hluti í deild þeirra bestu og hann hefur gert í 1. deildinni. Hann hefur þó varann á.

„Það hafa einhverjir kannski ekki náð að sanna sig en stefnan hjá mér er klárlega að sýna hvað ég get og festa mig í sessi í Pepsi-deildinni. Ég hef líka fulla trú á að ég geti það,“ segir Hallgrímur Mar Steingrímsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×