Fótbolti

Sjáðu ævintýralega björgun Hannesar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes Þ. Sigurðsson bjargaði glæsilega frá Viðari Erni Kjartanssyni.
Hannes Þ. Sigurðsson bjargaði glæsilega frá Viðari Erni Kjartanssyni. Heimsíða Sandnes Ulf
Eins og frá var greint fyrr í kvöld vann Sandnes Ulf langþráðan sigur í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Vålerenga var mótherjinn, en Viðar Örn Kjartansson langmarkahæsti leikmaður deildarinnar er í þeirra röðum.

Hann komst þó ekki á blað í leiknum. Landar hans Eiður Aron Sigurbjörnsson og nafnarnir Hannes Þór Halldórsson og Sigurðsson spiluðu allan leikinn fyrir Sandnes sem er, þrátt fyrir sigurinn, enn í botnsæti deildarinnar.

Sá síðastnefndi átti risastóran þátt í að Sandnes fékk öll stigin þrjú, en Hannes bjargaði með ótrúlegum hætti á línu í stöðunni 2-1 fyrir Úlfana.

Aðeins ein mínúta var eftir af leiknum þegar Viðar vippaði boltanum yfir Hannes Þór. Svo virtist sem Viðari hefði tekist að skora sitt 25. mark í deildinni, en framherjinn Hannes sýndi ótrúleg viðbrögð og hreinsaði boltann frá með bakfallsspyrnu rétt áður en hann fór yfir marklínuna.

Myndband af atvikinu ótrúlega má sjá á vef norska dagblaðsins Verdens Gang.


Tengdar fréttir

Langþráður sigur Sandnes Ulf

Viðari Erni Kjartanssyni tókst ekki að skora framhjá landsliðsmarkverðinum í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×