Heilsa

Leiðin að sykurlausri sælu

sigga dögg kynfræðingur skrifar
Sigga Dögg kynfræðingur hefur líf án viðbætts sykurs og bloggar um það vikulega
Sigga Dögg kynfræðingur hefur líf án viðbætts sykurs og bloggar um það vikulega Mynd/Aldís Pálsdóttir
2.september - Fyrsti dagurinn án formlegrar inntöku sykurs

Það var blásið til átaksins  „Sykurlaus september“ á Heilsuvísi og verandi pistlahöfundur þar þá get ég varla látið mitt eftir liggja, eða hvað? Ég hef alltaf blásið á öll svona átök og lofað mér að vera í andstöðu við svona „tískuhreyfingar“ en það er eiginlega bara afsökun fyrir leti.

Ég nenni ekki að spá í þessum hlutum og hef bara gaman af því að synda um í hvíta sykrinum mínum. Þó potar einhver innri álfur í mig og segir hey, stoppaðu, ertu ekki þreytt á að langa alltaf í eitthvað sætt? Langar þig ekki að ögra sjálfri þér, og mér innri líkamsálfinum, til að borða betur og þar með lifa betur? Ætli innri álfurinn sé ekki unglingurinn með bólurnar sem nennir engann veginn að fá þær aftur.

Þetta hljómar klisjukennt ég veit en ég ákvað að ég skyldi vera með. Þora að taka áhættu og velja gulrætur fram yfir súkkulaðirúsínur. Það var mitt fyrsta skref. Það var eitthvað undarlegt við að jappla á gulrót og vita af fallegu glansandi rúsínunum inni í skáp. En ég lét mig hafa það og át þrjár gulrætur. Það virtist duga og ég gat snúið mér að öðru.

Fór svo að versla, auðvitað glorsoltin, og var næstum því dottin ofan í poka af kleinuhringjum en valdi nachos. Það var bara salt en ekki sykur svo það hlýtur að mega. Djöfull er þetta erfitt! Það er sykur í öllu komst ég að í þessum verslunarleiðangri mínum. Ég ákvað að til að hafa þetta raunhæft þá ætla ég að sneiða hjá „beinum“ og augljósum sykri og það eftir fremsta megni.

Þegar dagur varð að kvöldi var ég enn á lífi og hafði ekkert nammi fengið en velti því fyrir mér hvort djús væri í lagi. Ég ákvað að fá mér bara vatnsglas fyrir svefninn. Allt hitt er of freistandi og það væri glatað ef heill dagur væri fyrir bí.

Súkkulaðirúsinur hafa mikið aðdráttaraflMynd/Getty
3.september - Dagur 2

Ég renni Special K í skálina og mjólk yfir en þá fatta ég að lesa innihaldslýsinguna.

Þeir reyna ekki einu sinni að setja einhvern hollustusykur, það er bara venjulegur sykur og það þriðja hráefnið á listanum. Það gengur klárlega ekki.

Henti ávöxtum og djús án viðbætts sykurs í blandara og leyfði mér góða slettu af vanilluskyri útí. Ég var mjög meðvituð um sykurinn og var farin að sjá hann útum allt og í öllu.

Kannski var ég að missa vitið eða þá að það er gersamlega sykur í öllu! Dagurinn var annars viðburðarsnauður og ég og súkkulaðirúsínurnar eigum enn í störukeppni.

Það er vissara að var sig á svokölluðum „heilsu“ vörum á kaffihúsumMynd/Getty
4.september - Dagur 3

Ég get þetta, ég get þetta, ég get þetta, held ég, vona ég.

Ég panta mér kaffi og næ að þegja á meðan ég skima yfir allt girnilega bakkelsið. Ég ætlaði að fá mér heilsuklatta en fyrsta hráefnið þar er púðursykur. Púðursykur! Í „heilsuklatta“. Hvar er heilsan í því spyr ég þá.

Ég ákvað að það sé lítill sykur í flatkökum og ég splæsi ekki í sírópi eða hunangi útí kaffið mitt, það er bara venjulegt með mjólk, það má alveg örugglega.

Svo fæ ég boð í afmæli seinnipartinn. Þar verða dísætar kökur. Ég ákveð að leyfa mér tvær litlar sneiðar (sitthvor tegundin og ég varð auðvitað að prófa báðar) og læt þar við sitja enda var það alveg nóg. Mig langaði ekki í meira. Það hlýtur að vera einhvers konar „batamerki“.

Ég hlýt að vera á réttri leið.

Ef þú ætlar að fá þér súkkulaði, passaðu þá að hafa það eins dökkt og þú þolir því þá er minni sykur í þvíMynd/Getty
5.september - Dagur 4

Þetta er ekki alveg eins erfitt og ég hélt í byrjun, ég sem taldi í fyrstu að þetta væri erfiðara en að fæða barn.

Nú þegar ég er að komast upp á lagið þá er þetta bara svolítið skemmtilegt. Stakk óvart upp í mig hálfum súkkulaðimola og hálf sá eftir því.

Ég þurfti ekkert þetta súkkulaði ég bara gerði það af vana. Ætli það sé málið? Ætli neysla á sykri sé að hluta til vani? Stórkostleg uppgvötun.

Ég ætla ekki að vera með yfirlýsingar um að ég glansi af heilbrigði og sé þvengmjó og lífið sé loksins í lit en ég skal þó játa eitt. Mér finnst ég aðeins léttari í maganum. Svona minna útblásin. Kannski er það samt stress en að hluta til held ég að það sé sykurminnkunin.

Ég er ekki frá því að mér líði aðeins betur.

6.september - Dagur 5

„Æ viltu draga mig að landi með þessa girnilegu og gómsætu karmellu muffu?“

Alls staðar leynast hætturnar. Ég segi á innsoginu NEI TAKK. Og velti því fyrir mér hvort það sé mikill sykur í biscotti kexi, það er mögulega það eina inni á kaffihúsinu sem inniheldur ekki tonn af bannefninu.

Ég held ég þurfi að færa mig um vinnuaðstöðu því hér eru freistingarnar allt um kring. Hvernig verður helgin? Og ég sem á boð í Ljósanæturteiti með mojito hlaðborði! Ætli einhver taki eftir því ef ég skipti hrásykri út fyrir steviu?

Þetta verður eitthvað, ef ég lifi helgina af án sælgætis og sykruðu morgunkorni og gosi þá get ég allt, það er ég sannfærð um.


Tengdar fréttir

Sykurlaus september - ertu með?

Við á Heilsuvísi viljum stuðla að bættri heilsu og betra líferni og skorum á þig að taka þátt í Sykurlausum september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×