Bílar

Drukkinn trukkabílstjóri

Finnur Thorlacius skrifar
Bílstjóri á stórum flutningabíl sem flutti nokkra glænýja Ford bíla á milli staða í Hvíta-Rússlandi taldi það bestu aðferðina til að drepa tímann á leið sinni að drekka ógn og býsn af vodka og varð ökulagið eftir því. Það fannst hvorki lögreglunni né öðrum vegfarendum sniðugt og upphófst mikil eftirför til að stöðva hann.

Bílstjórinn kófdrukkni lét alls ekki segjast við ljós og sírenur lögreglubíla heldur jók frekar ferðina og ekki skánaði aksturinn við það. Lögreglan varð þá að grípa til þess ráðs að skjóta á dekk flutningabílsins. Ekki dugði það til heldur urðu þeir að skjóta á eldsneytistank bílsins líka og bíða þess að eldneytið tæmdist af bílnum, að sögn Intex-Press, fréttamiðils í Hvíta-Rússlandi.

Lögreglan skaut einum 80 skotum að bílnum. Magnað er að fylgjast með för þessa stórundarlega bílstjóra í myndskeiðinu hér að ofan, en honum er ekki beint umhugað um aðra vegfarendur og nær meðal annars að moka einum bíl útaf veginum.

Flestir aðrir ökumenn höfðu vit á því að aka útaf veginum til að forðast það að verða fyrir geggjuðum bílstjóranum og sem betur fer er mikið pláss við hlið vegarins til að víkja. Bílstjórinn var að sjálfsögðu handtekinn og bíður nú dóms, sem líklega verður ekki vægur.






×