Íslenski boltinn

„Meiddist þegar Kjartan Henry steig á mig“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Atli Jens í leik með Þór fyrr í sumar.
Atli Jens í leik með Þór fyrr í sumar. Vísir/Pjetur
Atli Jens Albertsson, leikmaður Þórs, segir að það hafi séð vel á honum eftir leik liðsins gegn KR en þá þurfti hann að fara meiddur af velli.

Eins og kom fram í Pepsi-mörkunum í gær steig Kjartan Henry Finnbogason, leikmaður KR, á hann í leiknum. Atli Jens segir að við það hafi hann fengið tak í hnéð.

„Ég hef átt við hnévandamál að stríða síðastliðin 5-6 ár og það má lítið út af bregða til að það verði slæmt aftur,“ sagði Atli Jens í samtali við Vísi í dag.

„Hann stígur á innanvert lærið, rétt við hnéð. Það sást vel á mér eftir leikinn enda með takkför eftir hann. Í dag er ég blár og marinn,“ bætti hann við.

Atli Jens getur ekki lagt mat á það hvort að Kjartan Henry hafi stigið viljandi á hann en sá síðarnefndi brást við umfjöllun Pepsi-markanna í gær með neðangreindri Twitter-færslu.

„Nei, ég veit ekki hvort þetta var viljandi. En það er ekkert mál að þruma í einhvern, labba í burtu og segja fyrirgefðu - þetta var óviljandi.“

Fyrr í sumar lýsti Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, óánægju sinni með að „hraunað“ hafi verið Kjartan Henry í Pepsi-mörkunum fyrir tveimur árum og sjálfur sagði hann að hann hafi verið dæmdur sem hrotti.

„Maður fer kannski að spyrja sig eftir þessa umfjöllun hvort hann sé í raun að gera þetta viljandi eða hvort hann sé bara svona óheppinn,“ sagði Atli Jens og bætir við hann reikni með að geta spilað með Þór gegn Keflavík á sunnudag.


Tengdar fréttir

Umfjöllun Pepsi-markanna um Kjartan Henry

Rifjaðu upp hvernig umfjöllun Pepsi-markanna var um Kjartan Henry Finnbogason var árið 2012 en hún varð að hitamáli í íslenska boltanum í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×