Íslenski boltinn

Góður kostur að koma til Íslands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin Rauschenberg í leik með Stjörnunni.
Martin Rauschenberg í leik með Stjörnunni. Vísir/Daníel
Danska blaðið Tipsbladet var nýlega með ítarlega umfjöllun um þann stóra fjölda danska leikmanna sem hafa komið hingað til lands á undanförnum misserum.

Sá sem ber einna helst ábyrgð á komu Dananna hingað til lands er Henryk Bödker, aðstoðarþjálfari Stjörnunnar, sem kom hingað sem lands árið 2007. Þá lék hann sem markvörður með ÍBV og síðar með Hetti, Þrótti og Víð.

Nú síðast samdi framherjinn Rolf Toft við Stjörnuna en félagið er nýbúið að missa Jeppe Hansen aftur til Danmerkur eftir að hafa slegið í gegn í deildinni hér í sumar.

Bödker lýsir í ítarlegu máli hvernig viðhorf danskra knattspyrnumanna gagnvart íslenska boltanum hefur breyst síðastliðin ár. Þetta sé ekki lengur endastöð fyrir knattspyrnumenn sem eru að klára sinn feril og vilja upplifa eitthvað nýtt.

„Ég er þó ekki það barnalegur að halda því fram að Ísland sé betri stökkpallur en danska deildin. En þetta getur verið kostur fyrir leikmenn sem standa utan fyrir lið sín í úrvalsdeildinni eða neðrideildarleikmenn sem vilja ná hærra,“ sagði Bödker meðal annars í viðtalinu.

Bödker bendir á að mun fleiri leikmenn frá Íslandi hafa farið til úrvalsdeildarliða í Noregi og Svíþjóð en úr dönsku B-deildinni. Þá er einnig sagt frá varnarmanninum Alexander Scholz sem samdi við Lokeren í Belgíu eftir að hafa slegið í gegn með Stjörnunni. Hann er nú eftirsóttur af stórum liðum í Belgíu og Þýskalandi.

Bödker segir einnig að það ævintýraþrá leikmanna skipti einnig máli enda draumur margra að kynnast nýjum löndum í gegnum knattspyrnuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×