Íslenski boltinn

Gott kvöld fyrir FH-inga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Atli Viðar Björnsson tryggði FH sigur í enn eitt skiptið í Pepsi-deild karla í kvöld en hinum tveimur leikjum dagsins lauk með 1-1 jafntefli.

FH er með fjórtán stig eftir sex leiki en Atli Viðar skoraði eina mark leiksins er nýliðar Víkings mættu í heimsókn. Víkingar fengu þó sín færi til að komast yfir á meðan staðan var markalaus en fóru illa að ráði sínu.

Keflavík komst upp í annað sætið í kvöld en liðið er með ellefu stig eftir 1-1 jafntefli gegn Fjölni, sem er enn taplaust á tímabilinu.

Hörður Sveinsson kom Keflavík yfir um miðjan síðari hálfleikinn en Chris Tsonis jafnaði metin á 83. mínútu. Bæði mörk leiksins komu eftir hraðar sóknir en þess má geta að þetta var þriðja mark Harðar á tímabilinu. Atli Viðar hefur einnig skorað þrjú mörk.

Stjarnan er einnig með ellefu stig en á leik til góða gegn Breiðabliki annað kvöld. Fjölnismenn koma svo næstir í fjórða sætinu með tíu stig.

Það var einnig botnbaráttuslagur í dag. Þór og ÍBV gerðu 1-1 jafntefli í bragðdaufum leik þar sem helst bar til tíðinda að Dean Martin fékk að líta rauða spjaldið fyrir að gefa Atla Jens Albertssyni olnbogaskot.

Staðan var þá 1-0 fyrir Eyjamenn sem virtust ætla að hanga á forystunni til leiksloka en Kristinn Þór Björnsson skoraði jöfnunarmark heimamanna í uppbótartíma leiksins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×