Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - Fram 3-2 | Frábær endurkoma hjá KR

Andri Valur Ívarsson á KR-velli skrifar
Gary Martin, framherji KR.
Gary Martin, framherji KR. Vísir/Daníel
Heimamenn í KR tóku stigin þrjú sem voru í boði þegar Fram kom í heimsókn í Frostaskjólið nú í kvöld. Ekki er hægt að segja að sigurinn hafi verið sannfærandi og næsta víst að gestirnir séu svekktir að hafa ekki hið minnsta náð stigi í leiknum.

KR byrjaði af miklum krafti og komst yfir strax eftir korters leik þegar fyrirliðinn Baldur Sigurðsson setti boltann yfir marklínuna eftir fyrirgjöf frá Óskari Erni Haukssyni.

Eftir markið hélt KR áfram að sækja og voru áhorfendur byrjaðir að bíða eftir að liðið myndi auka forystuna. Það gerðist ekki heldur náður gestirnir úr sér stressinu og náðu tökum á leiknum. Það dugði þeim til að jafna metin eftir um hálftíma leik.

Var þar að verki Ásgeir Marteinsson með skot sem fór af varnarmanni KR og breytti um stefnu. Leikmenn KR vildu meina að brotið hefði verið á Abdel-Farid leikmanni liðsins skömmu áður og því hefði markið ekki átt að standa. Fínn dómari leiksins Þorvaldur Árnason var ekki á sömu skoðun og markið stóð.

Það sem eftir leið fyrri hálfleik skiptust liðin á að sækja og voru í nokkur skipti nálægt því að skapa sér góð færi. Gestirnir lágu til baka og leyfðu heimamönnum að koma upp með boltann og tóku á móti þeim á sínum vallarhelmingi.

Þar voru þeir gríðarlega grimmir með Viktor Bjarna í broddi fylkingar og hirtu ítrekað af þeim boltann sem þeir komu fram á Björgólf Takefúsa sem var gríðarlega sprækur í kvöld. Hvorugu liðinu tókst að skora og var staðan því jöfn í hálfleik.

 

Í síðari hálfleik voru þeir bláklæddu framan af sterkari og líklegri til að skora. Það skilaði marki á 59. mínútu þegar Viktor Bjarki Arnarson skoraði með laglegu skoti niðri í bláhornið, eftir að Ásgeir Marteinsson hafði lagt boltann út á hann. Verðskulduð forysta gestanna.

Heimamenn tóku að sækja að meiri krafti sem opnaði leikinn og hefðu þeir bláklæddu með smá heppni getað skorað og náð tveggja marka forystu. Það tókst ekki og aukin sókn KR skilaði þeim marki á 76. mínútu. Var þar að verki varamaðurinn Þorsteinn Már Ragnarsson sem kom inn á í hálfleik og átti góðan leik. Haukur Heiðar geystist upp hægri kantinn, lék á varnarmann Fram og sendi boltann fyrir á Þorstein sem skoraði af stuttu færi.

Um fimm mínútum síðar var Þorsteinn á undan Ögmundi markmanni Fram í baráttu um boltann sem leiddi til þess að Þorsteinn féll við og víti var dæmt. Kjartan Henry tók vítaspyrnuna sem Ögmundur varði en Kjartan fylgdi á eftir og skoraði. KR komið yfir og innan við tíu mínútur eftir. Heimamenn náðu að halda sínum hlut þar til leikurinn var flautaður af.

Þrjú stig til íslandsmeistaranna. Ekki hægt að segja að þau hafi verið verðskulduð og Frammarar geta verið svekktir. Að sama skapi ef þeir spila áfram eins og þeir gerðu í kvöld þurfa þeir varla að hafa áhyggjur af þessum fræga falldraug.

Haukur: Framarar með gott lið

 

„Leikurinn var ekki góður en þetta var mikilvægur sigur. Við vorum að missa boltann á hættulegum stöðum og allt of lang á milli allra í liðinu og þeir fundu svæði” sagði Haukur Heiðar Hauksson bakvörður KR.

Haukur lék virkilega vel í leiknum en hann hefur verið að spila mjög vel í sumar.

„Eftir að við jöfnuðum leikinn náðum við að spila okkar leik. Frammarar sýndu mikla baráttu og að þeir eru með gífurlega gott lið. Við vissum að þeir myndu beita skyndisóknum í þessum leik. Þeir gerðu það bara vel.”

Ögmundur: Fannst þetta ekki vera víti

 

„Persónulega fannst mér þetta ekki vera víti. Ég náði að klafsa í boltann og síðan fór leikmaðurinn í boltann og mig í leiðinni og fór niður. Dómarinn dæmdi hins vegar víti og það er hann sem ræður. Við spiluðum vel í dag og getum verið stoltir af frammistöðunni og töpum þessu ósáttir” sagði Ögmundur Kristinsson markmaður Fram.

Hann hefur átt frábært sumar og svekkjandi fyrir hann að fá á sig mark eftir að hafa varið vítið. Svona er þetta stundum.

„Við erum búnir að spila fínt í sumar og þurfum ekki að óttast framhaldið ef þetta heldur svona áfram. Það eru ekki mörg lið sem mæta hingað á KR-völl og fara svekkt til baka og finnst þau hafa verðskuldað eitthvað annað en tap”.

Rúnar: Áttum góðan fund í hálfleik

 

Rúnar Kristinsson þjálfari KR sagði að liðið hefði leikið vel til að byrja með en misst flugið þegar Fram tókst að jafna. Leikmenn KR hefðu viljað fá aukaspyrnu og því hefði markið ekki átt að standa.

„Menn hættu að gera það sem þeir áttu að gera og Frammarar nýttu sér það mjög vel. Við áttum svo góðan fund í hálfleik en komum samt ekki nógu beittir inn í síðari hálfleik.

Þorsteinn Már kom sterkur inn og gerði góða hluti, skoraði mark og fiskaði svo vítið sem tryggði okkur sigur. Við erum þakklátir fyrir þessi þrjú stig gegn sterku liði Fram. Ef þeir halda áfram að spila svona þurfa þeir ekki að hafa áhyggjur af neinu”.

Bjarni: Okkur var refsað

 

„Grautfúlt að spila svona góðan leik og ná ekki að minnsta kosti stigi út úr leiknum,” sagði Bjarni Guðjónsson, þjálfari Fram, að leik loknum.

„Við lögðum upp með það að liggja aftur á okkar vallarhelmingi og sækja svo hratt með Björgólf á toppnum þegar tækifæri gafst. KR hefur átt í vandræðum með að brjóta lið að bak aftur sem liggja svona til baka.

"Stóran hluta af leiknum tókst það vel og í raun fengu þeir ekki mörg færi í leiknum, þó það sé asnalegt að segja það í ljósi þess að þeir skoruðu þrjú mörk. Heilt yfir áttum við meira í leiknum og fengum nokkur góð marktækifæri.

"Smá einbeitningarleysi gerði það að verkum að sterkt lið KR refsaði okkur. Það er nógu erfitt að skora tvö mörk á þessum velli svo þau séu ekki orðin þrjú eða fjögur.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×