Fótbolti

Sögulegur sigur Ancelottis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carlo Ancelotti með Evrópubikarinn sem hann hefur unnið þrisvar sem þjálfari og tvisvar sem leikmaður.
Carlo Ancelotti með Evrópubikarinn sem hann hefur unnið þrisvar sem þjálfari og tvisvar sem leikmaður. Vísir/Getty
Sem kunnugt er fagnaði Real Madrid sínum tíunda Meistaradeildartitli í gær eftir 4-1 sigur á Atletico Madrid í framlengdum úrslitaleik á Leikvangi ljóssins í Lissabon.

Carlo Ancelotti og lærisveinar hans bundu þar með enda á tólf ára bið Real Madrid eftir Meistaradeildartitli, en Madrid varð síðast Evrópumeistari vorið 2002 eftir 2-1 sigur á Bayer Leverkusen í úrslitaleik á Hampden Park í Glasgow. Zinedine Zidane skoraði sigurmark Madrid í leiknum með glæsilegu vinstri fótar skoti eftir fyrirgjöf Robertos Carlos, en Zidane er núverandi aðstoðarþjálfari Real Madrid.

Sigurinn var einnig sögulegur fyrir Ancelotti, en hann hefur nú unnið Meistaradeild Evrópu í þrígang sem þjálfari, tvisvar með AC Milan (2003 og 2007) og einu sinni með Real Madrid. Ancelotti varð einnig tvisvar meistari sem leikmaður með AC Milan, 1989 og 1990, og hefur því fimm sinnum orðið Evrópumeistari með einum eða öðrum hætti.

Ancelotti hefur nú unnið Meistaradeildina jafn oft og Bob Paisley gerði á sínum tíma. Paisley stýrði Liverpool til sigurs í Evrópukeppni meistaraliða (forvera Meistaradeildarinnar) 1977, 1978 og 1981.

Ancelotti varð sömuleiðis í gær fimmti þjálfarinn til að gera tvö lið að Evrópumeisturum, en áður höfðu Ernst Happel, Ottmar Hitzfeld, Jose Mourinho og Jupp Heynckes afrekað hið sama.

Þjálfarar sem hafa gert tvö lið að Evrópukeppni:

Ernst Happel - 1970 (Feyenoord) og 1983 (Hamburg)

Ottmar Hitzfeld - 1997 (Borussia Dortmund) og 2001 (Bayern München)

Jose Mourinho - 2004 (Porto) og 2010 (Internazionale)

Jupp Heynckes - 1998 (Real Madrid) og 2013 (Bayern München)

Carlo Ancelotti - 2003, 2007 (AC Milan) og 2014 (Real Madrid)


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×