Fótbolti

PSG vann Chelsea 3-1 í París | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paris Saint-Germain er í góðum málum í viðureign sinni gegn Chelsea í 8 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir 3-1 sigur á heimavelli í kvöld.

Heimamenn frá París fengu óskabyrjun því argentínski framherjinn EzequielLavezzi kom PSG yfir eftir rúmar tvær mínútur. John Terry gerði sig sekan um slæm mistök og skallaði boltann beint á Argentínumanninn í teignum sem hamraði boltann í þaknetið.

Chelsea kom betur inn í leikinn eftir markið og uppskar víatspyrnu á 27. mínútu þegar brasilíski miðvörðurinn ThiagoSilva braut á samlanda sínum Oscar í teignum.

Belginn EdenHazard var ískaldur á punktinum og skoraði örugglega en Sirigu í marki Parísarliðsins kastaði sér í rangt horn.

Liðin skiptust á að sækja til að byrja með í seinni hálfleik en það voru heimamenn sem bættu við marki á 61. mínútu. Reyndar var það Chelsea-maður sem skoraði markið en David Luiz varð fyrir því óláni að setja knöttinn í eigið net eftir aukaspyrnu inn á teiginn, 2-1.

Það var svo í uppbótartíma sem PSG bætti við þriðja markinu en Argentínumaðurinn Javier Pastore skoraði glæsilegt mark úr þröngu færi í teignum þegar ríflega tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Verðskuldaður sigur PSG staðreynd.

PSG varð fyrir áfalli í leiknum þegar Zlatan Ibrahimovic þurfti frá að hverfa vegna meiðsla en hann virtist togna aftan í læri. Sé raunin sú er afar hæpið að hann verði með í seinni leiknum á Stamford Bridge eftir sex daga. Hann átti aftur á móti ekki góðan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×