Bílar

Sá fljótasti í 300 km/klst

Finnur Thorlacius skrifar
Hennessy Venom GT hefur náð mestum hraða allra bíla, eða 435 km hraða og var það gert á flugbrautinni sem bandarísku geimskutlurnar lenda, Kennedy Space Center í Flórída. Ekki var þó hægt að skrá þetta sem heimsmet þar sem bíllinn fór ekki sömu leið til baka, en heimsmet er aðeins viðurkennt ef svo er gert og meðaltal hámarkshraðans báðar leiðir gildir sem heimsmetið.

Hennessy Venom GT á þó annað met sem ekki er hægt að taka af þessum bíl, en hann er sá sneggsti í 300 km/klst. Hefur það verið viðurkennt af Guinness World Records. Það tekur hann ekki nema 13,63 sekúndur að ná þessum hraða. Bíllinn er með 7,0 lítra og 8 strokka vél með tveimur stórum forþjöppum sem skilar 1.244 hestöflum.

Hennessy ætlar að reyna að ná metum á hinum ýmsu akstursbrautum á næstunni og er Nürburgring ein þeirra, en einnig brautirnar Laguna Seca og Circuit of the Americas. Hennessey ætlar aðeins að framleiða 30 bíla af þeirri gerð sem hraðaheimsmetið á og eru 20 þeirra þegar seldir. 

Sjá má bílinn setja metið í meðfylgjandi myndskeiði.






×