Körfubolti

Jafnaði félagsmet Vince Carter í tapi | Durant snéri aftur með þrefalda tvennu

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ross héldu engin bönd.
Ross héldu engin bönd. mynd:nordic photos/ap
Átta leikir voru leiknir í NBA körfuboltanum í Bandaríkjunum í nótt. Terrence Ross og Jamal Crawford efndu til veislu í Kanada og Kevin Durant sýndi að engar áhyggjur þarf að hafa af axlarmeiðslunum sem héldu honum utan vallar í sigri á Boston í fyrri nótt.

Terrence Ross, bakvörður á öðru ári hjá Toronto Raptors skoraði 51 stig þegar lið hans tapaði fyrir Los Angeles Clippers í nótt 126-118. Ross jafnaði þar með stigamet Vince Carter hjá félaginu.

Ross hitti úr 16 af 29 skotum sínum í leiknum, þar af 10 af 17 þriggja stiga skotum og tók að auki 9 fráköst. Jonas Valanciunas skoraði 17 stig og tók 12 fráköst fyrir Raptors.

Stórleikur Ross dugði ekki til því Raptors réð ekkert við Jamal Crawford hjá Clippers. Crawford skoraði 37 stig og gaf 11 stoðsendingar af bekknum. Blake Griffin skoraði 30 stig og J.J. Redick 18.

Oklahoma City Thunder vann sjöunda leik sinn í röð í nótt þegar liðið lagði Philadelphia 76ers 103-91. Kevin Durant hvíldi í fyrri nótt vegna meiðsla í öxl en snéri aftur á völlinn og var ekki hægt að sjá að meiðslin hrjáðu honum neitt.

Durant skoraði 32 stig, hirti 14 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Frábær leikur hjá besta leikmanni deildarinnar um þessar mundir. Serge Ibaka skoraði 25 stig og tók 11 fráköst.

James Anderson skoraði 19 stig fyrir 76ers og Evan Turner 15.

Deildarkeppnin er rétt rúmlega hálfnuð en engu að síður er Portland Trail Blazers búið að jafna fjölda sigra frá allri síðustu leiktíð. Trail Blazers vann sinn 33 sigur í nótt þegar liðið lagði Minnesota Timberwolves 115-104.

Sex leikmenn Trail Blazers skoruðu 13 stig eða meira en LaMarcus Aldridge skoraði mest, 21 stig. Wesley Matthews skoraði 18 og Mo Williams 16 af bekknum.

Kevin Martin skoraði 30 stig fyrir Timberwolves og Nikola Pekaovic 23 auk þess að taka 11 fráköst. Kevin Love var nokkuð frá sínu besta í sókninni og skoraði 15 stig en hann hitti aðeins úr 4 af 12 skotum sínum utan af velli. Hann tók þó 13 fráköst.



Úrslit næturinnar:

Charlotte Bobcats – Chicago Bulls 87-89

Toronto Raptors – Los Angeles Clippers 118-126

Philadelphia 76ers – Oklahoma City Thunder 91-103

Memphis Grizzlies – Houston Rockets 99-81

Milwaukee Bucks – Atlanta Hawks 87-112

Denver Nuggets – Indiana Pacers 109-96

Utah Jazz – Washington Wizards 104-101

Portland Trail Blazers – Minnesota Timberwolves 115-104



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×