Vitnavernd vantar Ólafur Þ. Stephensen skrifar 14. desember 2013 07:00 Vitnaleiðslur í Stokkseyrarmálinu svokallaða gefa okkur innsýn í afskaplega ógeðslegan og dapurlegan veruleika glæpa og eiturlyfjaneyzlu, þar sem ólýsanlega hrottalegu ofbeldi er beitt. Margir hafa sjálfsagt kosið að loka augunum fyrir því að önnur eins andstyggð gæti þrifizt á Íslandi, en það verður ekki um villzt. Þá vaknar að sjálfsögðu sú spurning hvernig sé hægt að uppræta ógeðið. Það verður annars vegar gert með forvarnarstarfi og hins vegar með því að taka hart á ofbeldisglæpum eins og þeim sem lýst hefur verið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. Það getur hins vegar reynzt erfitt að fullnægja réttlætinu yfir ofbeldismönnum af þessari sort. Margir hverjir treysta þeir á ótta fólks í kringum sig til að ná sínu fram. Fréttablaðið sagði frá því á fimmtudaginn að ákæruvaldið hefði sterkan grun um að vitnum í málinu hefði verið hótað til að fá þau til að breyta framburði sínum eða bera ekki vitni. Þannig liggur fyrir að eitt lykilvitnið í málinu, húsráðandinn á Stokkseyri þar sem hluti brotanna átti sér stað, varð fyrir grófri líkamsárás í haust, þar sem fingur og handarbein hans voru brotin með hamri. Hann heldur til í Bandaríkjunum og hefur ekki látið sjá sig fyrir dómi. Tvö önnur vitni höfðu skyndilega misst minnið, eftir að hafa greint nokkuð skilmerkilega frá málavöxtum í lögregluskýrslum. Það fjórða sagði frá því að það hefði fengið skilaboð um að „halda kjafti“. Minni spámennirnir í hópi sakborninga neita að tjá sig um nokkuð annað en eigin þátt í málinu. Nú er varla við öðru að búast en að ofbeldismennirnir í Stokkseyrarmálinu verði sakfelldir, meðal annars vegna framburðar hugrakks fólks sem ekki lét hræða sig frá að bera vitni í málinu. Hins vegar verður lögreglan að bregðast við þegar uppvíst verður um að vitnum sé hótað. Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sagði í Fréttablaðinu að lögregluyfirvöld stæðu úrræðalaus gagnvart slíkum hótunum. Það er ekkert til sem heitir vitnavernd á Íslandi og að mörgu leyti snúið að koma henni við í okkar litla samfélagi. Nauðsyn hennar hefur hingað til verið lítill gaumur gefinn, en þó stendur til að ríkislögreglustjóri og ríkissaksóknari sendi frá sér tillögur um tilhögun vitnaverndar í mansalsmálum í þessum mánuði, samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir gegn mansali. Það er full þörf á að skoða líka hvaða möguleikar eru til að vernda vitni í annars konar ofbeldismálum. Helgi Magnús hefur nefnt að hægt væri að láta vitni hafa öryggishnapp tengdan Neyðarlínu. Fælingarmáttur hans virkar ekki nema lögreglan sé fljót að bregðast við. Vararíkissaksóknarinn hefur líka nefnt að hugsanlega gætu vitni dvalizt í „öruggu“ húsnæði nálægt lögreglustöð þar sem erfitt væri að hafa uppi á þeim. Sá möguleiki hefur stundum verið ræddur að Ísland gæti átt samstarf við önnur norræn ríki um að fólki yrði auðveldað að „hverfa“ og hefja nýtt líf í öðru landi, sem getur átt við í alvarlegustu málunum. Svo mikið er víst að ástandið í undirheimum Íslands kallar á að gripið sé til aðgerða sem duga til að vernda vitni svo hægt sé að koma lögum yfir hrottana. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Hvað segir Morgunblaðið nú um stöðu litlu ríkjanna í ESB? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óáreiðanlegar mælingar og misvísandi fréttir Sigurjón Arnórsson Skoðun Líknarslæving við lífslok er umdeild meðferð Ingrid Kuhlman Skoðun Henta vísindin bara þegar þau styðja skoðanir okkar? Haukur Logi Jóhannsson Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Tvær þjóðir í sama landi Einar Helgason Skoðun Unga fólkið okkar og samfélagsmiðlar Fjóla Einarsdóttir Skoðun Hlutverk markmiða er að umbreyta okkur Árni Sigurðsson Skoðun Syndaaflausnin er svo að við ætlum að læra af þessu „á ykkar kostnað“ Davíð Bergmann Skoðun
Vitnaleiðslur í Stokkseyrarmálinu svokallaða gefa okkur innsýn í afskaplega ógeðslegan og dapurlegan veruleika glæpa og eiturlyfjaneyzlu, þar sem ólýsanlega hrottalegu ofbeldi er beitt. Margir hafa sjálfsagt kosið að loka augunum fyrir því að önnur eins andstyggð gæti þrifizt á Íslandi, en það verður ekki um villzt. Þá vaknar að sjálfsögðu sú spurning hvernig sé hægt að uppræta ógeðið. Það verður annars vegar gert með forvarnarstarfi og hins vegar með því að taka hart á ofbeldisglæpum eins og þeim sem lýst hefur verið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. Það getur hins vegar reynzt erfitt að fullnægja réttlætinu yfir ofbeldismönnum af þessari sort. Margir hverjir treysta þeir á ótta fólks í kringum sig til að ná sínu fram. Fréttablaðið sagði frá því á fimmtudaginn að ákæruvaldið hefði sterkan grun um að vitnum í málinu hefði verið hótað til að fá þau til að breyta framburði sínum eða bera ekki vitni. Þannig liggur fyrir að eitt lykilvitnið í málinu, húsráðandinn á Stokkseyri þar sem hluti brotanna átti sér stað, varð fyrir grófri líkamsárás í haust, þar sem fingur og handarbein hans voru brotin með hamri. Hann heldur til í Bandaríkjunum og hefur ekki látið sjá sig fyrir dómi. Tvö önnur vitni höfðu skyndilega misst minnið, eftir að hafa greint nokkuð skilmerkilega frá málavöxtum í lögregluskýrslum. Það fjórða sagði frá því að það hefði fengið skilaboð um að „halda kjafti“. Minni spámennirnir í hópi sakborninga neita að tjá sig um nokkuð annað en eigin þátt í málinu. Nú er varla við öðru að búast en að ofbeldismennirnir í Stokkseyrarmálinu verði sakfelldir, meðal annars vegna framburðar hugrakks fólks sem ekki lét hræða sig frá að bera vitni í málinu. Hins vegar verður lögreglan að bregðast við þegar uppvíst verður um að vitnum sé hótað. Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sagði í Fréttablaðinu að lögregluyfirvöld stæðu úrræðalaus gagnvart slíkum hótunum. Það er ekkert til sem heitir vitnavernd á Íslandi og að mörgu leyti snúið að koma henni við í okkar litla samfélagi. Nauðsyn hennar hefur hingað til verið lítill gaumur gefinn, en þó stendur til að ríkislögreglustjóri og ríkissaksóknari sendi frá sér tillögur um tilhögun vitnaverndar í mansalsmálum í þessum mánuði, samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir gegn mansali. Það er full þörf á að skoða líka hvaða möguleikar eru til að vernda vitni í annars konar ofbeldismálum. Helgi Magnús hefur nefnt að hægt væri að láta vitni hafa öryggishnapp tengdan Neyðarlínu. Fælingarmáttur hans virkar ekki nema lögreglan sé fljót að bregðast við. Vararíkissaksóknarinn hefur líka nefnt að hugsanlega gætu vitni dvalizt í „öruggu“ húsnæði nálægt lögreglustöð þar sem erfitt væri að hafa uppi á þeim. Sá möguleiki hefur stundum verið ræddur að Ísland gæti átt samstarf við önnur norræn ríki um að fólki yrði auðveldað að „hverfa“ og hefja nýtt líf í öðru landi, sem getur átt við í alvarlegustu málunum. Svo mikið er víst að ástandið í undirheimum Íslands kallar á að gripið sé til aðgerða sem duga til að vernda vitni svo hægt sé að koma lögum yfir hrottana.