Tónlist

Laufabrauðsát er fyrsta verk Ásgeirs

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Ásgeir kemur fram ásamt hljómsveit sinni á þrennum tónleikum á Íslandi á milli jóla og nýárs.
Ásgeir kemur fram ásamt hljómsveit sinni á þrennum tónleikum á Íslandi á milli jóla og nýárs. fréttablaðið/arnþór
„Það er langt síðan hann hefur haldið formlega tónleika á Íslandi og okkur finnst sniðugt að endurtaka leikinn með því að halda tónleika á sömu stöðum og hann kom fram á fyrir fimmtán mánuðum,“ segir María Rut Reynisdóttir, umboðsmaður Ásgeirs. Hann mun ásamt hljómsveit sinni koma fram á þrennum tónleikum á milli jóla og nýárs, í Reykjavík, á Akureyri og á Hvammstanga.

„Það fyrsta sem hann ætlar að gera þegar hann kemur til landsins er að gera ekki neitt. Síðan ætlar hann að fá sér laufabrauð.“

Á föstudaginn kemur Ásgeir fram á stórum jólatónleikum sem danska ríkissjónvarpið stendur fyrir en þeim verður sjónvarpað á Norðurlöndunum í kringum jólin. „Ég geri ráð fyrir að þeir verði sýndir hér á landi.“

Ásgeir hefur ekki setið auðum höndum síðustu mánuði en þrátt fyrir að hafa lítið spilað hér á landi hefur Ásgeir spilað víða um Evrópu þar sem hann hitaði meðal annars upp fyrir bæði John Grant og Of Monsters and Men í sumar. Í nóvember hélt hann síðan ásamt hljómsveit í sitt fyrsta stóra tónleikaferðalag um Evrópu sem lýkur þann 17. desember.

Útlit er fyrir að ekkert muni hægja á dagskrá Ásgeirs á næstunni þar sem ensk útgáfa af Dýrð í dauðaþögn sem nefnist In the Silence kemur út í Bretlandi og Evrópu í lok janúar og í Bandaríkjunum í byrjun febrúar.

„Með í för verður hin norska Farao sem hefur séð um upphitun á tónleikaferðalagi Ásgeirs um Evrópu undanfarið.“

Tónleikarnir fara fram 27. desember í Gamla bíói í Reykjavík, 28. desember á Græna hattinum á Akureyri og 29. desember heimsækir Ásgeir félagsheimilið á Hvammstanga. Hægt er að nálgast miða á midi.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.