Í stríði við sóknarfærin Pawel Bartoszek skrifar 29. nóvember 2013 06:00 Gamall maður í fjölskyldunni sagði eftirfarandi sögu um leið og hann handlék nýkeyptan snjallsímann: „Það er nú meira hvað tækninni hefur fleygt fram! Þegar ég lærði að skrifa þurfti ég að notast við svokallaða blekbyttu. Þá þurfti maður að dýfa pennanum í þetta furðulega ílát á nokkurra málsgreina fresti til að geta haldið áfram að skrifa. Og þar sem ég var aldrei mjög flinkur við þetta voru öll blöð mín, öll föt og flestallir líkamspartar útötuð í bláum og svörtum blettum. Þegar ég flutti til Vesturlanda fékk ég reyndar stundum penna og stundum blýant en þó aldrei hvort tveggja við sömu aðstæður. Svo var mikið lagt upp úr því að allir næðu tökum á tilteknum skrifstíl. Ég var ásamt öðrum börnum látinn sitja tímum saman og endurhandskrifa orð með tengiskrift í þar til gerðar skriftarbækur. Þetta var gert svo árum skipti. Ég var reyndar svo lánsamur að þegar ég gekk í gagnfræðaskóla var þar fólk sem gerði sér grein fyrir mikilvægi þess að börn tileinkuðu sér tæknina. Þess vegna var lagt upp úr því að við lærðum öll á ritvél. Það átti nú eftir að nýtast manni vel, að hafa lært fingrasetninguna.“ Gamli maðurinn í þessari sögu er ég sjálfur. Já, ég lærði vélritun á ritvél í tölvuveri Hagaskóla um 1994. Og þrátt fyrir að vera nokkurn veginn jafngamall fyrstu einkatölvunni þá tók ég mitt fyrsta forritunarnámskeið um tvítugt, á seinasta ári í menntaskóla. Þar lærðum við Turbo Pascal, einungis fjórum árum eftir að framleiðandinn, Borland, hafði hætt þróun þess.Góðir af óhófi Skólakerfið kenndi fólki ekki á tölvur. Fólk af minni kynslóð lærði á þær í gegnum hvers kyns grúsk. Menn þurftu til dæmis að leysa eitthvert tæknivandamál með minni eða hljóðkorti til að geta spilað tölvuleik. Þannig lærðu menn á arkitektúrinn og stýrikerfið. Eitt má þó bóka: Að flest þetta fólk hafi í ófá skipti fengið að heyra að það væri „alltaf í tölvunni“. Það ætti að gera eitthvað uppbyggilegt. Eins og „að fara í labbitúr“. En einhvern veginn þá reyndist það ágætis undirbúningur undir lífið að vera alltaf í tölvunni. Því satt að segja er ég eiginlega alltaf í tölvunni. Og mér sýnist starfsmöguleikar þeirra sem voru alltaf í tölvunni ekki síðri en þeirra sem náðu fullkomnun í þeirri list að vera „úti í labbitúr“.Sporni-sporn Ég nota ensku heilmikið í vinnunni. Það er nú önnur námsgrein sem skólakerfið kenndi manni varla. Næstum því allir kunnu ensku heilmikið þegar þeir byrjuðu að læra hana og þeim leiddist því í tímum. Hjá flestum sem ég þekki komst það í vana að hunsa þetta fag algerlega. Þannig að þegar kom að einhverju sem maður gæti hafa haft gagn af þá var það orðið of seint. Allur áhugi var farinn. En hugsið ykkur þvílík sóun: Nánast allir skilja ensku og flestir tala hana sæmilega óhindrað. En ritunarhæfileikar flestra Íslendinga, þegar kemur að enskunni, eru langt frá því að vera góðir. Miðað við alla þessa ensku í umhverfinu ættum við að geta miklu betur. En til þess þarf helst að byrja að kenna ensku fimm ára. Mér virðist reyndar sem margt fullorðið fólk líti á það sem hlutverk sitt að sporna við hinum og þessum áhrifum. Sporna við farsímanotkun. Sporna við áhrifum enskunnar. Sporna við tölvunotkun. Sporna við sjónvarpsglápi. Einu sinni vildu menn sporna við áhrifum dönskunnar. Nú tala Íslendingar hvorki dönsku né skilja. Menn hljóta að vera ánægðir.Hættum að hata símana Þegar ég var ungur hafði sumt fólk áhyggjur af því að ég læsi of mikið. Nú hafa menn áhyggjur af því að fólk sé of mikið í símanum. Flestir kennarar banna síma og líta á það sem stórkostlegt vandamál að meðalnemandi gangi nú með nettengda ofurtölvu með myndavél og upptökutæki á sér. En svona er þetta. Eitthvað ungt fólk í appabransanum verður búið að sigra heiminn og fimm sinnum áður en kennarar hætta að líta á síma nemenda sinna sem óvin númer eitt. „Ný tækni? Sóknarfæri? Nei…ógn.“ Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pawel Bartoszek Mest lesið ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun BRCA Elín Íris Fanndal Jónasdóttir Skoðun Að kjósa með nútíma hugsunarhætti Ragnhildur Katla Jónsdóttir Skoðun Eitt heimili, ein fjölskylda og ein heilsa Pétur Heimisson Skoðun Þegar náttúruvinir hitta frambjóðendur. Hjálpartæki kjósandans Stefán Jón Hafstein Skoðun Íslenskufræðingurinn Sigmundur Davíð Hákon Darri Egilsson Skoðun Það er verið að ljúga að okkur Hildur Þórðardóttir Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun
Gamall maður í fjölskyldunni sagði eftirfarandi sögu um leið og hann handlék nýkeyptan snjallsímann: „Það er nú meira hvað tækninni hefur fleygt fram! Þegar ég lærði að skrifa þurfti ég að notast við svokallaða blekbyttu. Þá þurfti maður að dýfa pennanum í þetta furðulega ílát á nokkurra málsgreina fresti til að geta haldið áfram að skrifa. Og þar sem ég var aldrei mjög flinkur við þetta voru öll blöð mín, öll föt og flestallir líkamspartar útötuð í bláum og svörtum blettum. Þegar ég flutti til Vesturlanda fékk ég reyndar stundum penna og stundum blýant en þó aldrei hvort tveggja við sömu aðstæður. Svo var mikið lagt upp úr því að allir næðu tökum á tilteknum skrifstíl. Ég var ásamt öðrum börnum látinn sitja tímum saman og endurhandskrifa orð með tengiskrift í þar til gerðar skriftarbækur. Þetta var gert svo árum skipti. Ég var reyndar svo lánsamur að þegar ég gekk í gagnfræðaskóla var þar fólk sem gerði sér grein fyrir mikilvægi þess að börn tileinkuðu sér tæknina. Þess vegna var lagt upp úr því að við lærðum öll á ritvél. Það átti nú eftir að nýtast manni vel, að hafa lært fingrasetninguna.“ Gamli maðurinn í þessari sögu er ég sjálfur. Já, ég lærði vélritun á ritvél í tölvuveri Hagaskóla um 1994. Og þrátt fyrir að vera nokkurn veginn jafngamall fyrstu einkatölvunni þá tók ég mitt fyrsta forritunarnámskeið um tvítugt, á seinasta ári í menntaskóla. Þar lærðum við Turbo Pascal, einungis fjórum árum eftir að framleiðandinn, Borland, hafði hætt þróun þess.Góðir af óhófi Skólakerfið kenndi fólki ekki á tölvur. Fólk af minni kynslóð lærði á þær í gegnum hvers kyns grúsk. Menn þurftu til dæmis að leysa eitthvert tæknivandamál með minni eða hljóðkorti til að geta spilað tölvuleik. Þannig lærðu menn á arkitektúrinn og stýrikerfið. Eitt má þó bóka: Að flest þetta fólk hafi í ófá skipti fengið að heyra að það væri „alltaf í tölvunni“. Það ætti að gera eitthvað uppbyggilegt. Eins og „að fara í labbitúr“. En einhvern veginn þá reyndist það ágætis undirbúningur undir lífið að vera alltaf í tölvunni. Því satt að segja er ég eiginlega alltaf í tölvunni. Og mér sýnist starfsmöguleikar þeirra sem voru alltaf í tölvunni ekki síðri en þeirra sem náðu fullkomnun í þeirri list að vera „úti í labbitúr“.Sporni-sporn Ég nota ensku heilmikið í vinnunni. Það er nú önnur námsgrein sem skólakerfið kenndi manni varla. Næstum því allir kunnu ensku heilmikið þegar þeir byrjuðu að læra hana og þeim leiddist því í tímum. Hjá flestum sem ég þekki komst það í vana að hunsa þetta fag algerlega. Þannig að þegar kom að einhverju sem maður gæti hafa haft gagn af þá var það orðið of seint. Allur áhugi var farinn. En hugsið ykkur þvílík sóun: Nánast allir skilja ensku og flestir tala hana sæmilega óhindrað. En ritunarhæfileikar flestra Íslendinga, þegar kemur að enskunni, eru langt frá því að vera góðir. Miðað við alla þessa ensku í umhverfinu ættum við að geta miklu betur. En til þess þarf helst að byrja að kenna ensku fimm ára. Mér virðist reyndar sem margt fullorðið fólk líti á það sem hlutverk sitt að sporna við hinum og þessum áhrifum. Sporna við farsímanotkun. Sporna við áhrifum enskunnar. Sporna við tölvunotkun. Sporna við sjónvarpsglápi. Einu sinni vildu menn sporna við áhrifum dönskunnar. Nú tala Íslendingar hvorki dönsku né skilja. Menn hljóta að vera ánægðir.Hættum að hata símana Þegar ég var ungur hafði sumt fólk áhyggjur af því að ég læsi of mikið. Nú hafa menn áhyggjur af því að fólk sé of mikið í símanum. Flestir kennarar banna síma og líta á það sem stórkostlegt vandamál að meðalnemandi gangi nú með nettengda ofurtölvu með myndavél og upptökutæki á sér. En svona er þetta. Eitthvað ungt fólk í appabransanum verður búið að sigra heiminn og fimm sinnum áður en kennarar hætta að líta á síma nemenda sinna sem óvin númer eitt. „Ný tækni? Sóknarfæri? Nei…ógn.“