Gæði bóka miðað við höfðatölu Friðrika Benónýsdóttir skrifar 21. október 2013 06:00 Bókaflóðið er byrjað. Daglega hellast inn fréttatilkynningar um nýjar bækur sem nú séu fáanlegar í næstu bókabúð. Samkvæmt tilkynningum útgefendanna er hver og ein nánast meistarverk, eitthvað sem enginn má missa af, og gildir þá einu hvort um er að ræða nýjustu skáldsögur viðurkenndra höfunda, fyrstu smásögur ungra höfunda, hekl- eða prjónabækur, megrunarfræði eða afrakstur margra ára rannsóknarvinnu fræðimanna á einhverju sviði. Þetta er allt stórkostlegt, sætir tíðindum, nýr tónn sleginn og gott ef ekki bókmenntasögulegur viðburður. Hvorki meira né minna. Þetta póstmóderníska viðhorf að allt sé jafn merkilegt sem út kemur á prenti virðist skila sér í því að útlendingar fái þá tilfinningu að hérlendis sé tíunda hver manneskja skáld. Í vikunni sem leið birtist á vefsíðu BBC grein eftir Rosie Goldsmith, einn gesta á Bókmenntahátíð í september, þar sem því er haldið fram að einn af hverjum tíu Íslendingum gefi út bók einhvern tíma á lífsleiðinni. Af lestri greinarinnar má helst ráða að allar séu þær bækur skáldskapur þar sem Íslendingar séu jú fæddir sögumenn, en auðvitað á sá skilningur ekki við nokkur rök að styðjast. Íslenskir rithöfundar og bókmenntafrömuðir virðast þó frekar hafa ýtt undir þann misskilning en leiðrétt hann, ef marka má tilsvör þeirra sem tilfærð eru innan gæsalappa í greininni, og Goldsmith dregur eðlilega þá ályktun að á bak við blessaða statistíkina leynist heimsmet í framleiðslu skáldskapar. Og í þeim skilningi að skáldskapur feli í sér hagræðingu á sannleikanum má það auðvitað til sanns vegar færa. Fjöldi útgefinna titla segir hins vegar ekki nokkurn skapaðan hlut um skáldskaparleg afrek Íslendinga, hvað þá að þeim perlum sem á hverju ári leynast innan flóðsins sé nokkur greiði gerður með því að setja þær í sömu hálsfesti og bækur um nýjasta megrunaræðið eða heklaðar sófadúllur. Okkar góðu höfundar eiga svo miklu betra skilið. Eflaust þykir einhverjum að það óttaleg smámunasemi og bókmenntasnobb að gera greinarmun á skáldskap og bókaframleiðslu. Hverju skiptir hvort fólk skrifar fagurbókmenntir eða fegrunarráð ef það kemur út á bók sem hægt er að hafa með í statistíkinni sem gerir okkur einstök í veröldinni? Við erum bara mest og best og það jaðrar við landráð að skoða hvað að baki þeim fullyrðingum liggur. Sá hugsunarháttur og skorturinn á sjálfsgagnrýni kom okkur reyndar á kaldan klaka fyrir fimm árum en eftir því virðist ekki nokkur maður muna. Hið gagnrýnislausa sjálfshól veður uppi sem aldrei fyrr og þótt við stærum okkur kannski ekki lengur af fegurstu konum og sterkustu mönnum heims þá blossar þjóðernisrembingurinn upp af minnsta tilefni og úrtölufólki er vinsamlegast bent á að flytja bara úr landi sé það ekki sammála. Slíkan málflutning þekkjum við úr sögunni sem aðferð við að byggja upp sjálfstraust þjóða sem beðið hafa skipbrot í einhverjum skilningi og dæmin um afleiðingar hans ættu að vera nægilega ógnvekjandi til að staldra við og skoða í fullri alvöru hvert slíkur uppbelgdur þjóðernishroki leiðir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Friðrika Benónýsdóttir Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun
Bókaflóðið er byrjað. Daglega hellast inn fréttatilkynningar um nýjar bækur sem nú séu fáanlegar í næstu bókabúð. Samkvæmt tilkynningum útgefendanna er hver og ein nánast meistarverk, eitthvað sem enginn má missa af, og gildir þá einu hvort um er að ræða nýjustu skáldsögur viðurkenndra höfunda, fyrstu smásögur ungra höfunda, hekl- eða prjónabækur, megrunarfræði eða afrakstur margra ára rannsóknarvinnu fræðimanna á einhverju sviði. Þetta er allt stórkostlegt, sætir tíðindum, nýr tónn sleginn og gott ef ekki bókmenntasögulegur viðburður. Hvorki meira né minna. Þetta póstmóderníska viðhorf að allt sé jafn merkilegt sem út kemur á prenti virðist skila sér í því að útlendingar fái þá tilfinningu að hérlendis sé tíunda hver manneskja skáld. Í vikunni sem leið birtist á vefsíðu BBC grein eftir Rosie Goldsmith, einn gesta á Bókmenntahátíð í september, þar sem því er haldið fram að einn af hverjum tíu Íslendingum gefi út bók einhvern tíma á lífsleiðinni. Af lestri greinarinnar má helst ráða að allar séu þær bækur skáldskapur þar sem Íslendingar séu jú fæddir sögumenn, en auðvitað á sá skilningur ekki við nokkur rök að styðjast. Íslenskir rithöfundar og bókmenntafrömuðir virðast þó frekar hafa ýtt undir þann misskilning en leiðrétt hann, ef marka má tilsvör þeirra sem tilfærð eru innan gæsalappa í greininni, og Goldsmith dregur eðlilega þá ályktun að á bak við blessaða statistíkina leynist heimsmet í framleiðslu skáldskapar. Og í þeim skilningi að skáldskapur feli í sér hagræðingu á sannleikanum má það auðvitað til sanns vegar færa. Fjöldi útgefinna titla segir hins vegar ekki nokkurn skapaðan hlut um skáldskaparleg afrek Íslendinga, hvað þá að þeim perlum sem á hverju ári leynast innan flóðsins sé nokkur greiði gerður með því að setja þær í sömu hálsfesti og bækur um nýjasta megrunaræðið eða heklaðar sófadúllur. Okkar góðu höfundar eiga svo miklu betra skilið. Eflaust þykir einhverjum að það óttaleg smámunasemi og bókmenntasnobb að gera greinarmun á skáldskap og bókaframleiðslu. Hverju skiptir hvort fólk skrifar fagurbókmenntir eða fegrunarráð ef það kemur út á bók sem hægt er að hafa með í statistíkinni sem gerir okkur einstök í veröldinni? Við erum bara mest og best og það jaðrar við landráð að skoða hvað að baki þeim fullyrðingum liggur. Sá hugsunarháttur og skorturinn á sjálfsgagnrýni kom okkur reyndar á kaldan klaka fyrir fimm árum en eftir því virðist ekki nokkur maður muna. Hið gagnrýnislausa sjálfshól veður uppi sem aldrei fyrr og þótt við stærum okkur kannski ekki lengur af fegurstu konum og sterkustu mönnum heims þá blossar þjóðernisrembingurinn upp af minnsta tilefni og úrtölufólki er vinsamlegast bent á að flytja bara úr landi sé það ekki sammála. Slíkan málflutning þekkjum við úr sögunni sem aðferð við að byggja upp sjálfstraust þjóða sem beðið hafa skipbrot í einhverjum skilningi og dæmin um afleiðingar hans ættu að vera nægilega ógnvekjandi til að staldra við og skoða í fullri alvöru hvert slíkur uppbelgdur þjóðernishroki leiðir.