Sport

Aníta sjóðheit í Slóvakíu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gull Aníta er komin á HM í Moskvu eftir magnað hlaup.
Gull Aníta er komin á HM í Moskvu eftir magnað hlaup. Nordicphotos/getty
Aníta Hinriksdóttir bætti um helgina sitt eigið Íslandsmet í 800 metra hlaupi um tæplega tvær sekúndur. Íslenska landsliðið í frjálsum íþróttum tekur þátt á Evrópumóti landsliða í Banská Bystrica í Slóvakíu en Ísland keppir í þriðju deild.

Aníta kom í mark á tímanum 2:01,17 mínútum og vann hún hlaupið örugglega. Sú sem kom í mark á eftir Anítu var tæpum sjö sekúndum á eftir Íslendingnum, en fyrra met hennar var 2:03,15 mínútur.

Með sigrinum tryggði hún sér sæti á heimsmeistaramótinu í Moskvu sem fer fram í ágúst.

Aníta Hinriksdóttir er aðeins sautján ára gömul og okkar allra mesta efni í frjálsum íþróttum um þessar mundir.

Í gær vann Aníta síðan 1.500 metra hlaupið nokkuð örugglega en hún kom í mark á tímanum 4:16,50 mínútum.

Hlauparinn bætti sig persónulega um þrjár sekúndur og var nálægt því að slá Íslandsmet Ragnheiðar Ólafsdóttur sem er 4:14,94 mínútur. Tvenn gullverðlaun hjá þessari frábæru hlaupakonu um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×