Tónlist

Sabbath snýr aftur

Freyr Bjarnason skrifar
13 er fyrsta hljóðversplata Ozzy Osbourne með Black Sabbath í 35 ár.
13 er fyrsta hljóðversplata Ozzy Osbourne með Black Sabbath í 35 ár. nordicphotos/getty

Breska þungarokksveitin Black Sabbath gefur út nítjándu hljóðversplötu sína, sem ber nafnið 13, eftir helgi.

Platan er fyrsta hljóðversplata þessarar fornfrægu sveitar síðan platan Forbidden kom út árið 1995 og sú fyrsta með upphaflega söngvaranum Ozzy Osbourne og bassaleikaranum Geezer Butler síðan tónleikaplatan Reunion, sem hafði að geyma tvö ný lög, kom út árið 1998

Í raun er þetta fyrsta hreinræktaða hljóðversplatan með Osbourne í 35 ár, eða síðan Never Say Die! kom út árið 1978 og sú fyrsta með Butler síðan Cross Purposes kom út árið 1994.

Upptökustjóri 13 er sjálfur Rick Rubin, sjöfaldur Grammy-verðlaunahafi sem hefur starfað með mörgum af þeim stærstu í bransanum, til dæmis Metallica, Red Hot Chili Peppers, Slayer, Slipknot og Johnny Cash. Átta lög eru á plötunni, þar á meðal End of the Beginning, Loner og Dear Father, og fimm þeirra eru yfir átta mínútna löng.

Upphaflegir meðlimir Black Sabbath byrjuðu að vinna að nýrri hljóðversplötu árið 2001 með aðstoð Rick Rubin. Upptökunum var frestað vegna þess að Osbourne var sjálfur að vinna að sólóplötu og á endanum ákváðu hinir meðlimirnir að einbeita sér að öðru, þar á meðal rokksveitinni Heaven & Hell. Það var ekki fyrr en árið 2011 sem Black Sabbath tilkynnti að hún ætlaði að hefja vinnu við nýju plötuna á nýjan leik, og enn var Rubin á sínum stað.

Upptökurnar fóru fram í Los Angeles og auk upphaflegu meðlimanna Osbourne, Butler og gítarleikarans Tony Iommi spilaði Brad Wilk úr Rage Against the Machine og Audioslave með þeim á trommur eftir að upphaflegi trymbillinn Bill Ward hafði dregið sig út úr verkefninu.

Vefsíðan Allmusic er yfir sig hrifin af 13 og gefur henni fjórar og hálfa stjörnu af fimm mögulegum á meðan tímaritið Rolling Stone gefur henni þrjár og hálfa af fimm. Metal Hammer segir plötuna betri en nokkur hefði búist við og gefur henni níu af tíu mögulegum.

Black Sabbath hefur auglýst tónleikaferð um Bretland í desember. Fyrstu tónleikarnir verða í O2-höllinni í London 10. desember. Þeir síðustu verða í gamla heimabæ sveitarinnar, Birmingham, tíu dögum síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.