Íslenski boltinn

Skarð Gunnhildar Yrsu vandfyllt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Daníel
„Við vitum að við verðum í toppbaráttunni og stefnan verður að sjálfsögðu sett á titilinn,“ segir Harpa Þorsteinsdóttir framherji Stjörnunnar. Stjarnan varð Íslandsmeistari sumarið 2011 en missti titilinn í hendur Þórs/KA síðastliðið sumar. Það var sárabót að Garðbæingar urðu bikarmeistarar.

Stjarnan saknar fyrirliða síns, Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur, sem spilar með Arna-Björnar í Noregi. Þá er Edda María Birgisdóttir í barnseignarleyfi og Ashley Bares farin til síns heima í Bandaríkjunum.

„Það er mjög erfitt að fylla í skarð Gunnhildar Yrsu. Við gerum þó okkar besta og treystum á að aðrir leikmenn stígi fram,“ segir Harpa. Hún fagnar komu Dönku Podovac frá ÍBV og Rúnu Sifjar Stefánsdóttur sem kom frá Fylki.

„Danka mun koma til með að skipta okkur máli í sumar og Rúna hefur spilað mjög vel,“ segir Harpa bjartsýn á framhaldið.*

Stjarnan tekur á móti ÍBV í kvöld en Eyjakonur unnu 1-0 sigur í leik liðanna í Lengjubikarnum á dögunum. Sigurinn var sá eini hjá ÍBV en tapið hið eina hjá Stjörnunni.

„Þær eru nokkuð óskrifað blað. Mér skilst að þær hafi fengið síðustu leikmennina til móts við liðið fyrir helgi,“ segir Harpa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×