Krónan og stökkbreyttu skuldirnar Ólafur Þ. Stephensen skrifar 20. apríl 2013 06:00 Skuldir heimilanna eru aðalumræðuefnið í kosningabaráttunni; um það þarf ekki að velkjast í vafa. Flokkarnir eru með misgæfulegar lausnir á þeim vanda sem felst í stökkbreyttum húsnæðislánum, en allir þykjast þó hafa lausn sem létti fólki byrðina. Vissulega er skuldavandi heimila mikilvægt úrlausnarefni í pólitík. Flokkarnir margir hverjir lofa leiðum til að lækka skuldirnar um tugi prósenta eða „leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán“ eins og það heitir víst. Einhver hefði hins vegar haldið að það væri jafnvel enn mikilvægara að koma í veg fyrir að lánin stökkbreyttust aftur, þannig að leiðréttingin væri unnin fyrir gýg. Leiðin til þess er sorglega lítið til umræðu í kosningabaráttunni. Flestir ættu að átta sig á því að stökkbreyttu skuldirnar eru ekki undirliggjandi vandamálið. Orsök stökkbreytingarinnar er hrun krónunnar, sem annars vegar tvöfaldaði lán í erlendum gjaldmiðlum og hækkaði hins vegar verðtryggð húsnæðislán um tugi prósenta, af því að verðbólgan rauk af stað við gengishrunið. Almenningur í nágrannaríkjum okkar hefur ekki mátt þola sambærilegar stökkbreytingar. Sum ríki sem nota evruna eru vissulega í kreppu, eins og vinsælt er að hamra á í kosningabaráttunni, en það er ýmist ríkisskuldakreppa eða bankakreppa (við könnumst við báðar sortir). Evran hefur hins vegar haldið verðgildi sínu. Verðlag hefur ekki farið úr böndum og höfuðstóll húsnæðislána ekki stökkbreytzt. Sumir flokkar beina spjótum sínum að verðtryggingunni. Hún er sömuleiðis bein afleiðing veiks gjaldmiðils, sem rýrnar stöðugt. Henni var komið á til að verja hag sparifjáreigenda og sjóðfélaga í lífeyrissjóðunum, sem án hennar myndu horfa á eignir sínar og lífsviðurværi brenna upp. Hún er sömuleiðis nauðsynleg til þess að einhver fáist til að lána íslenzkar krónur til langs tíma, til dæmis fyrir húsnæði. Það er fullkomlega óraunsætt að ætla að afnema verðtrygginguna án þess að taka upp stöðugan, trúverðugan gjaldmiðil. Saga gengis krónunnar er samfelld sorgarsaga sveiflna, sem aðallega hafa verið niður á við. Árið 1920 jafngilti ein íslenzk króna einni danskri. Í dag jafngildir ein dönsk króna 2.040 gömlum íslenzkum krónum (tvö núll voru skorin af krónunni 1981, annars myndi iPhone kosta meira en tíu milljónir). Með öðrum orðum hefur krónan rýrnað um rúmlega 99,95 prósent og tæplega 0,05% standa eftir. Trúir einhver því í alvörunni að hið stöðuga rýrnunarferli krónunnar sé á enda? Gengishrunið 2008 var vissulega skarpt; krónan féll um helming. Margir eru líklega búnir að gleyma að árin 2000-2001 féll hún um fjórðung. Það var líka stökkbreyting í lagi. Slíkar kollsteypur munu halda áfram að hrjá bæði krónuna, verðlag í landinu og lánin okkar ef við ætlum áfram að halda í ónýtan gjaldmiðil. Kjósendur sem vilja forðast afleiðingar gengissveiflna ættu að hugsa sig mjög vandlega um áður en þeir greiða atkvæði sitt flokkum sem vilja endilega halda í orsökina – eða eru að minnsta kosti ekki með neitt raunhæft plan um að fjarlægja hana. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun
Skuldir heimilanna eru aðalumræðuefnið í kosningabaráttunni; um það þarf ekki að velkjast í vafa. Flokkarnir eru með misgæfulegar lausnir á þeim vanda sem felst í stökkbreyttum húsnæðislánum, en allir þykjast þó hafa lausn sem létti fólki byrðina. Vissulega er skuldavandi heimila mikilvægt úrlausnarefni í pólitík. Flokkarnir margir hverjir lofa leiðum til að lækka skuldirnar um tugi prósenta eða „leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán“ eins og það heitir víst. Einhver hefði hins vegar haldið að það væri jafnvel enn mikilvægara að koma í veg fyrir að lánin stökkbreyttust aftur, þannig að leiðréttingin væri unnin fyrir gýg. Leiðin til þess er sorglega lítið til umræðu í kosningabaráttunni. Flestir ættu að átta sig á því að stökkbreyttu skuldirnar eru ekki undirliggjandi vandamálið. Orsök stökkbreytingarinnar er hrun krónunnar, sem annars vegar tvöfaldaði lán í erlendum gjaldmiðlum og hækkaði hins vegar verðtryggð húsnæðislán um tugi prósenta, af því að verðbólgan rauk af stað við gengishrunið. Almenningur í nágrannaríkjum okkar hefur ekki mátt þola sambærilegar stökkbreytingar. Sum ríki sem nota evruna eru vissulega í kreppu, eins og vinsælt er að hamra á í kosningabaráttunni, en það er ýmist ríkisskuldakreppa eða bankakreppa (við könnumst við báðar sortir). Evran hefur hins vegar haldið verðgildi sínu. Verðlag hefur ekki farið úr böndum og höfuðstóll húsnæðislána ekki stökkbreytzt. Sumir flokkar beina spjótum sínum að verðtryggingunni. Hún er sömuleiðis bein afleiðing veiks gjaldmiðils, sem rýrnar stöðugt. Henni var komið á til að verja hag sparifjáreigenda og sjóðfélaga í lífeyrissjóðunum, sem án hennar myndu horfa á eignir sínar og lífsviðurværi brenna upp. Hún er sömuleiðis nauðsynleg til þess að einhver fáist til að lána íslenzkar krónur til langs tíma, til dæmis fyrir húsnæði. Það er fullkomlega óraunsætt að ætla að afnema verðtrygginguna án þess að taka upp stöðugan, trúverðugan gjaldmiðil. Saga gengis krónunnar er samfelld sorgarsaga sveiflna, sem aðallega hafa verið niður á við. Árið 1920 jafngilti ein íslenzk króna einni danskri. Í dag jafngildir ein dönsk króna 2.040 gömlum íslenzkum krónum (tvö núll voru skorin af krónunni 1981, annars myndi iPhone kosta meira en tíu milljónir). Með öðrum orðum hefur krónan rýrnað um rúmlega 99,95 prósent og tæplega 0,05% standa eftir. Trúir einhver því í alvörunni að hið stöðuga rýrnunarferli krónunnar sé á enda? Gengishrunið 2008 var vissulega skarpt; krónan féll um helming. Margir eru líklega búnir að gleyma að árin 2000-2001 féll hún um fjórðung. Það var líka stökkbreyting í lagi. Slíkar kollsteypur munu halda áfram að hrjá bæði krónuna, verðlag í landinu og lánin okkar ef við ætlum áfram að halda í ónýtan gjaldmiðil. Kjósendur sem vilja forðast afleiðingar gengissveiflna ættu að hugsa sig mjög vandlega um áður en þeir greiða atkvæði sitt flokkum sem vilja endilega halda í orsökina – eða eru að minnsta kosti ekki með neitt raunhæft plan um að fjarlægja hana.