Tónlist

Naut liðsinnis systra sinna við upptökur

Sara McMahon skrifar
Þriðja plata söngkonunnar Ólafar Arnalds, Sudden Elevation, kom út fyrir nokkru. Upptaka plötunnar fór fram í sumarbústað í Hvalfirði og naut Ólöf meðal annars liðsinnis systra sinna við gerð hennar.

Að sögn Ólafar einkenndist upptökuferlið af þægilegu flæði sem veitti henni frelsi til að sinna tónlistinni þegar hún var í ákjósanlegu hugarástandi. „Ég fékk lánaðan ævintýralegan jakútískan bústað í Hvalfirði og dvaldi þar í tvær vikur við upptökur með dyggri aðstoð Skúla Sverrissonar. Ég kveikti eld í eldstæðinu á hverjum morgni, fór í göngutúr þegar mig langaði og svaf þegar ég þurfti að sofa. Ég var mjög frjáls og gat gert hlutina á mínu síbreytilega tempói,“ útskýrir Ólöf.

Sudden Elevation er hennar fyrsta verk sem er allt á ensku og leikur Ólöf að auki á flest hljóðfærin sjálf, þar á meðal á fiðlu, gítar og hörpu. „Ég hef aldrei verið í góðu sambandi við nótnaskrif og á stundum erfitt með að miðla hugmyndum mínum til annarra tónlistarmanna. Það var því gott að hafa nægan tíma til að geta spilað sjálf á hljóðfærin fyrir þessa plötu.“

Systur Ólafar komu að gerð plötunnar og syngur yngri systir hennar, Klara (meðlimur í sveitinni Boogie Trouble), með henni í tveimur lögum en sú eldri, Dagný, leikur á píanó í einu lagi. Söngkonan viðurkennir að það hafi verið þægilegt og gaman að vinna með systrum sínum. „Það sem mér finnst skemmtilegast við að vinna með systrum mínum er hvað hugrenningatengslin eru lík. Ég get verið mjög „kryptísk“ í máli en þær eru með kóðann og skilja hvað ég á við.“

Í sumar tekur við strangt tónleikahald um Bandaríkin og Evrópu og gerir Ólöf ráð fyrir því að vera á stöðugu ferðalagi næsta árið. Hún kemur þó heim á tveggja vikna fresti til að verja tíma með syni sínum. „Nú fer maður aftur á þrekhjólið og túrar og túrar. Ég hef verið heima í rúmt ár og fengið góðan tíma til að kjarna mig, sem er gott því stöðug ferðalög geta verið slítandi,“ segir hún að lokum.

Fékk aðstoð frá aðdáendum á Pledgemusic.comÓlöf safnaði fé fyrir plötunni á vefsíðunni Pledgemusic.com. Hún segir síðuna nýtast einyrkjum sem henni vel og einnig vera frábæra leið fyrir hlustendur og tónlistarfólk til að vera í samskiptum.

„Kostnaðurinn sem maður þarf að standa straum af er margvíslegur. Þó maður fái fjármagn til að gera plötu þá er lítið eftir til að gera myndband eða til að kosta tónleikaferðalag. Með aðstoð Pledgemusic er meiri von um að koma út á sléttu,“ segir hún og bætir við:

„Þetta er jákvæð leið sem tekur mið af „digitalíseringunni“ og kynning á sama tíma. Maður verður að aðlagast breyttum aðstæðum, maður getur ekki verið fýlu yfir því að fólk hlaði tónlistinni manns ókeypis niður á netinu. Það er eins og að vera handskrifari sem varð fúll þegar Gutenberg hóf að prenta bækur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.