Að verða illt í auðmýktinni Saga Garðarsdóttir skrifar 28. mars 2013 06:00 Fyrir nokkru fór ég á fund í Valhöll um stöðu femínisma á Íslandi. Ég hafði aldrei komið í Valhöll áður og aldrei, eflaust út af einhverri verndandi töfraþulu, hitt Brynjar Níelsson, einn framsögumanna. Þriðja nýjungin var nístandi sársauki sem ég fékk í auðmýktina. Ég hef reyndar áður fundið fyrir henni – heimurinn er fullur af tækifærum til þess að láta sig sundla í auðmýktinni ef maður hefur hana á annað borð. Verkirnir eru ekki ósvipaðir því og þegar fólk tekur inn mjög vont eitur eða stendur á sviði og man ekki textann sinn. Oft er hægt að vinna bug á þessum eymslum með því að knúsa ketti eða loka gluggum á internetinu en í ýktum aðstæðum sem þessum er það erfiðara. Brynjar Níelsson sagði á fundinum að femínismi í dag væri á villigötum. Erkióvinur auðmýktarinnar er hroki og yfirlæti og það er svo sannarlega yfirlætisfullt að ætla sér að hafa vit fyrir öllum femínistum nútímans. Til þess eru þeir einfaldlega of margir og fara of margar ólíkar leiðir til að hægt sé að alhæfa að þeirra götur liggi allar til glötunar. Og Brynjar er því miður ekki sá eini sem fullyrðir að aðferðir femínista séu rangar, öfgafullar, fráhrindandi og svo framvegis. Ég þykist viss um að þeir sem halda slíku fram ætli engan að meiða heldur einungis að leiðbeina mér og öðrum femínistum á þá braut sem þeim finnst umræðan eigi heima á og haga henni eftir sínu höfði. Það er aftur á móti meiðandi því það gefur í skyn vantrú á það hvernig við upplifum samfélagið og efasemdir um getu okkar til að berjast gegn misréttinu sem við finnum fyrir. Ofan á þetta bætist svo að þeir sem tala svona geta yfirleitt ekki vegna líffræðilegrar lukku sinnar upplifað kynbundið óréttlæti eins og konur. Það sem þeir geta hins vegar gert er að treysta okkur þegar við segjumst finna fyrir því og þegar við segjum að breytingar séu ekki nógu hraðar, víðtækar, miklar o.s.frv. þrátt fyrir margvíslega og áratugalanga baráttu. Málið er nefnilega tiltölulega einfalt. Ef þú segir við manneskju sem er ekki með alvarlega ímyndunarveiki, alræmdur lygalaupur, ósjálfráða eða mjög ungt barn að hennar upplifun eða tilfinningar, jafnvel yfir mörg ár, sé uppspuni eða ýkjur þarftu að hafa eitthvað verulega mikið fyrir þér í því, helst mastersgráðu í samkennd, Evrópumet í innsýn og dulspekiprófgráður af þeirri stærð sem ég þekki ekki. Líklegast ertu þó bara hrokafullur og vilt auðmýkja. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Saga Garðarsdóttir Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Fyrir nokkru fór ég á fund í Valhöll um stöðu femínisma á Íslandi. Ég hafði aldrei komið í Valhöll áður og aldrei, eflaust út af einhverri verndandi töfraþulu, hitt Brynjar Níelsson, einn framsögumanna. Þriðja nýjungin var nístandi sársauki sem ég fékk í auðmýktina. Ég hef reyndar áður fundið fyrir henni – heimurinn er fullur af tækifærum til þess að láta sig sundla í auðmýktinni ef maður hefur hana á annað borð. Verkirnir eru ekki ósvipaðir því og þegar fólk tekur inn mjög vont eitur eða stendur á sviði og man ekki textann sinn. Oft er hægt að vinna bug á þessum eymslum með því að knúsa ketti eða loka gluggum á internetinu en í ýktum aðstæðum sem þessum er það erfiðara. Brynjar Níelsson sagði á fundinum að femínismi í dag væri á villigötum. Erkióvinur auðmýktarinnar er hroki og yfirlæti og það er svo sannarlega yfirlætisfullt að ætla sér að hafa vit fyrir öllum femínistum nútímans. Til þess eru þeir einfaldlega of margir og fara of margar ólíkar leiðir til að hægt sé að alhæfa að þeirra götur liggi allar til glötunar. Og Brynjar er því miður ekki sá eini sem fullyrðir að aðferðir femínista séu rangar, öfgafullar, fráhrindandi og svo framvegis. Ég þykist viss um að þeir sem halda slíku fram ætli engan að meiða heldur einungis að leiðbeina mér og öðrum femínistum á þá braut sem þeim finnst umræðan eigi heima á og haga henni eftir sínu höfði. Það er aftur á móti meiðandi því það gefur í skyn vantrú á það hvernig við upplifum samfélagið og efasemdir um getu okkar til að berjast gegn misréttinu sem við finnum fyrir. Ofan á þetta bætist svo að þeir sem tala svona geta yfirleitt ekki vegna líffræðilegrar lukku sinnar upplifað kynbundið óréttlæti eins og konur. Það sem þeir geta hins vegar gert er að treysta okkur þegar við segjumst finna fyrir því og þegar við segjum að breytingar séu ekki nógu hraðar, víðtækar, miklar o.s.frv. þrátt fyrir margvíslega og áratugalanga baráttu. Málið er nefnilega tiltölulega einfalt. Ef þú segir við manneskju sem er ekki með alvarlega ímyndunarveiki, alræmdur lygalaupur, ósjálfráða eða mjög ungt barn að hennar upplifun eða tilfinningar, jafnvel yfir mörg ár, sé uppspuni eða ýkjur þarftu að hafa eitthvað verulega mikið fyrir þér í því, helst mastersgráðu í samkennd, Evrópumet í innsýn og dulspekiprófgráður af þeirri stærð sem ég þekki ekki. Líklegast ertu þó bara hrokafullur og vilt auðmýkja.