Fastir pennar

Mjóu bökin

Teitur Guðmundsson skrifar
Ein helstu heilsufarsvandamál sem þekkt eru í hinum vestræna heimi, og þótt víðar væri leitað, eru vandamál tengd stoðkerfi okkar. Stoðkerfi er orð sem er notað um beinin, auk vöðva- og sinakerfi líkamans. Verkir og óþægindi frá þessum svæðum er einna algengast að valdi veikindum og fjarveru frá vinnustað. Það er því afar mikilvægt að reyna að draga úr álagi, hugsa um líkamsbeitingu okkar og vinna með skipulegum hætti gegn aðstæðum sem geta haft slæm áhrif á stoðkerfið.

Ein nálgunin er að framkvæma svokallað áhættumat starfa, sem á að gera reglubundið samkvæmt lögum og reglum um heilsu- og vinnuvernd, en þannig er mögulegt að nálgast vandamálin, greina þau og vinna að úrbótum. Það er þó ekki það eina sem er mikilvægt því einstaklingarnir sjálfir eru í lykilhlutverki þegar kemur að því að koma í veg fyrir veikindi tengd þessum svæðum. Áhættuþættir tengdir stoðkerfaeinkennum eru offita og yfirvigt, hreyfingarleysi og lélegt þjálfunarástand auk vinnuumhverfisþátta.

Mjóbaksverkir eru afar algengir og geta verið margvíslegir, allt frá vægum óþægindum til snarpra verkja sem geta leitt niður í annan eða báða fætur. Þeir geta komið skyndilega við átök eins og að lyfta eða bogra, en einnig við slys. Slíkir verkir geta orðið krónískir ef verkirnir hafa staðið lengur en 3 mánuði samfleytt. Þá geta mjóbaksverkir þróast við ranga líkamsbeitingu eins og við setu eða langar stöður, við burð og rangar æfingar. Ekki má gleyma að ýmsir sjúkdómar og kvillar geta einnig valdið slíkum óþægindum og verkjum, en helst ber að nefna slit og bólgusjúkdóma, þrengingar í mænugangi, liðskrið og svo auðvitað beinþynningu og möguleikann á krabbameini sem oftast er í formi meinvarpa.

Besta leiðin

Í þeim tilvikum þar sem um áverka er að ræða og verkir eru mjög miklir eða einkenni eru frá fleiri líffærakerfum en bakinu er ráðlegt að leita læknis sem fyrst. Sérstaklega ef um er að ræða truflun á þvaglátum eða hægðalosun, en slíkt bendir til mögulegs þrýstings á taugarætur eða jafnvel mænu og mænusekk og þarfnast frekari skoðunar.

Það sem í daglegu tali er kallað þursabit getur framkallað mikil óþægindi og jafnvel valdið því að viðkomandi einstaklingur á erfitt með að hreyfa og athafna sig. Hið sama gildir um brjósklos, sem er þrýstingur á taugarót eða mænu, og í flestum tilvikum veldur leiðniverk niður í þann fót eða á það svæði sem taugin sinnir. Mikilvægt er að greina vel á milli þessara tveggja algengu vandamála þar sem meðferð er ekki sú sama og getur þurft að framkvæma aðgerð hjá þeim sem þjást af slæmu brjósklosi. Algengast er þó, og sömuleiðis talin besta leiðin, að nota sjúkraþjálfun, bólgueyðandi lyf og tækla orsök vandans sem getur verið fjölþætt. Yfirleitt er sjúklingurinn vel móttækilegur, en þetta getur reynt á þolinmæðina og fæstir vilja kveljast að óþörfu og getur það leitt til togstreitu og ofmeðhöndlunar en það er vel þekkt í dag að of oft hafi verið gripið til aðgerðar vegna bakverkja.

Virk forvörn

Greiningarúrræði eru margvísleg, allt frá hefbundinni læknisskoðun að flókinni myndvinnslu. Hið merkilega er þó að í flestum tilvikum bætir myndgreiningin litlu við áætlaða meðferð og hefur fyrst og fremst í för með sér aukinn kostnað, þó hún eigi sannarlega rétt á sér og þurfi að vera til staðar þegar skipuleggja skal aðgerð eða flóknari meðferðir. En í flestum tilvikum dugir einföld læknisskoðun til að átta sig á vandanum og þá er einnig vel þekkt að einkenni lagast oftar en ekki einfaldlega af sjálfu sér, eða með minniháttar aðstoð. Rannsóknir sýna að við einföldum bakverkjum ætti að hvílast sem minnst, frekar reyna að hreyfa sig og draga þannig úr bólgum og einkennum, og teygjur og styrkjandi æfingar geta gert gæfumuninn. En sökum þess hversu algengir mjóbaksverkir eru og í raun tímafrekur vandi sem ekki er til nein töfralausn á hafa komið fram fjölmargar meðferðir sem margar hverjar eru góðar og gildar. Aðalatriði er að greiningin sé rétt og að viðkomandi einstaklingur fái viðeigandi meðferð og endurmat nái hann ekki bata innan þess tímaramma sem þykir eðlilegur.

Best af öllu er þó að stunda virka forvörn gegn vandamálum sem þessum með því að halda sér í kjörþyngd, hreyfa sig reglubundið og stunda rétta líkamsbeitingu við vinnu hvort heldur sem það er erfiðisvinna eða sitjandi við skrifborð.






×