102 Reykjavík Guðmundur Andri Thorsson skrifar 25. mars 2013 06:00 Sum mál eru aldrei útrædd hér á landi og kannski varla rædd: um þau er kapprætt eins og þetta sé íþróttakeppni þar sem sá/sú sigrar sem „á síðasta orðið" og nær með því að kæfa umræðuna. Þessi mál koma skyndilega til tals og fólk keppist við að kveða hvert annað í kútinn – og hefur svo hver sitt að kveða í sínum kút. Svo hverfur umræðan jafn snögglega og hún hófst, án þess að leiða til annars en að herða fólk í sinni kútakveðandi, en það þykir mikil dyggð hér á landi að „vera harður á meiningunni" – „standa fastur á sínu" – skipta aldrei um skoðun, jafnvel þótt allt bendi til þess að sú skoðun sé fráleit. Því fólk hefur ekki skoðanir. Skoðanir hafa fólk.Að valda reitinn Flugvallarmálið er eitt þeirra mála sem mörg geta sagt um: „ég var ung gefin skoðun". Við rífumst um það á um það bil fimm ára fresti og nú erum við stödd þar í skoðanahringnum að það er allt í einu á döfinni en verður það ekki í næstu viku. Þá verður komið vopnahlé í stríðinu. Eins og oft er í íslenskum hitamálum er eitthvað ósagt í þessu máli. Eitthvað virðist kynda undir tilfinningahitanum en samt er eins og það sé aldrei beinlínis orðað. Af hverju á tölvufræðingur á Akureyri að hafa meira um staðsetningu flugvallar í Reykjavík að segja en borgarstjórn Reykjavíkur? Af hverju er þetta rakara á Egilsstöðum slíkt kappsmál? „Flugvöllurinn er ekkert einkamál Reykvíkinga," er iðulega sagt en stundum fær maður á tilfinninguna að öllum eigi að koma það við hvar Reykvíkingar hafa flugvöllinn sinn – öðrum en Reykvíkingum sjálfum. Snýst málið um flugvöll? Snýst það um vald? Snýst það um sanngirni? Snýst málið um að Reykvíkingar skuli greiða ?landsbyggðinni? eitthvert gjald fyrir það hversu mikið aðdráttarafl borgin hafði á síðustu öld og hversu mörgu góðu fólki fámenn byggðarlög máttu sjá á eftir til Reykjavíkur? Er þetta spurning um þá ánægju að geta valdað reit inni í miðri borg? Af hverju finnst tónlistarkennara á Djúpavogi að hann eigi að hafa skoðun á skipulagsmálum í Reykjavík? Ókei, við skulum leyfa Reykjavík að vera höfuðborg landsins en þá verðum við líka að fá í staðinn yfirráð yfir flæmi í miðri borginni, svona eins og Vestur-Berlín var lítil frelsisvin í alræði kommúnismans í Austur-Þýskalandi. Umræðan spólar. Kynnt var skýrsla um hugsanlega flugvallargerð á Hólmsheiði og á örfáum dögum sveiflaðist nýtingarhlutfallið þar frá því að vera rúm 99 prósent og niður í að vera 96 prósent, sem er víst óásættanlegt. Sjálfar forsendurnar í umræðunni gliðna jafnharðan, og vonlaust er fyrir leikmann að átta sig á því hvaðan honum kemur rykið í augun í öllu þessu moldviðri.En hvað nú ef? Hefur svo hver nokkuð að iðja. En það hvarflar að manni að ef til vill sé það lán í óláni fyrir Reykjavík að flugvöllurinn skyldi ekki fluttur í kjölfar atkvæðagreiðslu þar sem samþykkt var að gera það – af þeim sárafáu Reykvíkingum sem ómökuðu sig á kjörstað í þeirri mislukkuðu tilraun til beins lýðræðis. Ekki þarf annað en að líta á nýleg mannvirki til að geta gert sér í hugarlund hvað hefði risið í staðinn: Nýja Hringbrautin; háhýsin sem reist hafa verið í miðborginni; nýju draugahverfin í öllum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu? Allt vitnar um rótgróna andúð á mannlífi en þeim mun innilegri ást á steypu og malbiki, bílum en þó einkum stærð. Grimmdarstórleikur bygginganna er keppikeflið og mælikvarðinn. Stórt og ljótt skyldi það vera. Alls staðar máttu sjónarmið um fegurð og manneskjulegt umhverfi víkja fyrir römmum nýtingarsjónarmiðum. Litið var á fegurð eins og óþarfa bruðl sem vitni um deiglyndi og aumingjaskap; ljótt hús þykir hér á landi sýna skynsemi og lausnamiðaðan þankagang. Fyrst og fremst þurfti að hámarka gróðann: verktakar höfðu keypt land og lóðir í skáldlegu æði á uppsprengdu verði og urðu að fá eitthvað fyrir sinn yfirveðsetta snúð; þar með voru allar reglur um stærð húsnæðis þverbrotnar. Það er ósennilegt að 102 Reykjavík hefði orðið smáfrítt hverfi krúttlegra húsa með rauðum og bláum þökum – og það vaxa blóm á þakinu – gróðri við hvert fótmál og glaðlegu mannlífi þar sem nágrannar kankast á yfir þvottasnúrum milli þess sem þeir hjóla í vinnuna og út í búð við undirleik lúðrasveitar barna í fjáröflun fyrir tónleikaferð og harmonikkan dunar og glaðvær glymja hrópin frá götusölunum: Nýafskorin blóm! Rófur! Rófur! Nýveidd loðna! Riklingur að vestan!... Þetta er að vísu hverfið sem við þráum öll að búa í en fáum aldrei fyrir köllunum sem ráða öllu þegar á hólminn er komið. Þetta hefði orðið svona: drungalegar góðærisblokkir með svartri álklæðningu þrumandi í súldinni innan um kraðak af mislægum gatnamótum fullum af gráum bílum með ólundarlegu fólki hóstandi upp úr sér svifrykinu. Kannski rennur sú tíð upp á Íslandi að hús verði reist handa fólki. Og kannski rennur upp sú tíð að flugvallarumræðan snýst um þarfir borgarinnar og íbúa hennar. Því er jafnan haldið fram að það þurfi að gera eitthvað til að „koma hjólum atvinnulífsins í gang" – bara eitthvað – eitthvað nógu mikið og fráleitt – og stundum skilst manni að framkvæmdir séu því þjóðhagslega hagkvæmari sem minni sjáanleg not virðist fyrir þær. Er alveg óhugsandi að framkvæmdir við nýjan flugvöll á góðum stað – og svo í kjölfarið framkvæmdir við að byggja upp nýtt hverfi þar sem jafnvel einhver myndi vilja búa – gætu haft slík áhrif líka? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun
Sum mál eru aldrei útrædd hér á landi og kannski varla rædd: um þau er kapprætt eins og þetta sé íþróttakeppni þar sem sá/sú sigrar sem „á síðasta orðið" og nær með því að kæfa umræðuna. Þessi mál koma skyndilega til tals og fólk keppist við að kveða hvert annað í kútinn – og hefur svo hver sitt að kveða í sínum kút. Svo hverfur umræðan jafn snögglega og hún hófst, án þess að leiða til annars en að herða fólk í sinni kútakveðandi, en það þykir mikil dyggð hér á landi að „vera harður á meiningunni" – „standa fastur á sínu" – skipta aldrei um skoðun, jafnvel þótt allt bendi til þess að sú skoðun sé fráleit. Því fólk hefur ekki skoðanir. Skoðanir hafa fólk.Að valda reitinn Flugvallarmálið er eitt þeirra mála sem mörg geta sagt um: „ég var ung gefin skoðun". Við rífumst um það á um það bil fimm ára fresti og nú erum við stödd þar í skoðanahringnum að það er allt í einu á döfinni en verður það ekki í næstu viku. Þá verður komið vopnahlé í stríðinu. Eins og oft er í íslenskum hitamálum er eitthvað ósagt í þessu máli. Eitthvað virðist kynda undir tilfinningahitanum en samt er eins og það sé aldrei beinlínis orðað. Af hverju á tölvufræðingur á Akureyri að hafa meira um staðsetningu flugvallar í Reykjavík að segja en borgarstjórn Reykjavíkur? Af hverju er þetta rakara á Egilsstöðum slíkt kappsmál? „Flugvöllurinn er ekkert einkamál Reykvíkinga," er iðulega sagt en stundum fær maður á tilfinninguna að öllum eigi að koma það við hvar Reykvíkingar hafa flugvöllinn sinn – öðrum en Reykvíkingum sjálfum. Snýst málið um flugvöll? Snýst það um vald? Snýst það um sanngirni? Snýst málið um að Reykvíkingar skuli greiða ?landsbyggðinni? eitthvert gjald fyrir það hversu mikið aðdráttarafl borgin hafði á síðustu öld og hversu mörgu góðu fólki fámenn byggðarlög máttu sjá á eftir til Reykjavíkur? Er þetta spurning um þá ánægju að geta valdað reit inni í miðri borg? Af hverju finnst tónlistarkennara á Djúpavogi að hann eigi að hafa skoðun á skipulagsmálum í Reykjavík? Ókei, við skulum leyfa Reykjavík að vera höfuðborg landsins en þá verðum við líka að fá í staðinn yfirráð yfir flæmi í miðri borginni, svona eins og Vestur-Berlín var lítil frelsisvin í alræði kommúnismans í Austur-Þýskalandi. Umræðan spólar. Kynnt var skýrsla um hugsanlega flugvallargerð á Hólmsheiði og á örfáum dögum sveiflaðist nýtingarhlutfallið þar frá því að vera rúm 99 prósent og niður í að vera 96 prósent, sem er víst óásættanlegt. Sjálfar forsendurnar í umræðunni gliðna jafnharðan, og vonlaust er fyrir leikmann að átta sig á því hvaðan honum kemur rykið í augun í öllu þessu moldviðri.En hvað nú ef? Hefur svo hver nokkuð að iðja. En það hvarflar að manni að ef til vill sé það lán í óláni fyrir Reykjavík að flugvöllurinn skyldi ekki fluttur í kjölfar atkvæðagreiðslu þar sem samþykkt var að gera það – af þeim sárafáu Reykvíkingum sem ómökuðu sig á kjörstað í þeirri mislukkuðu tilraun til beins lýðræðis. Ekki þarf annað en að líta á nýleg mannvirki til að geta gert sér í hugarlund hvað hefði risið í staðinn: Nýja Hringbrautin; háhýsin sem reist hafa verið í miðborginni; nýju draugahverfin í öllum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu? Allt vitnar um rótgróna andúð á mannlífi en þeim mun innilegri ást á steypu og malbiki, bílum en þó einkum stærð. Grimmdarstórleikur bygginganna er keppikeflið og mælikvarðinn. Stórt og ljótt skyldi það vera. Alls staðar máttu sjónarmið um fegurð og manneskjulegt umhverfi víkja fyrir römmum nýtingarsjónarmiðum. Litið var á fegurð eins og óþarfa bruðl sem vitni um deiglyndi og aumingjaskap; ljótt hús þykir hér á landi sýna skynsemi og lausnamiðaðan þankagang. Fyrst og fremst þurfti að hámarka gróðann: verktakar höfðu keypt land og lóðir í skáldlegu æði á uppsprengdu verði og urðu að fá eitthvað fyrir sinn yfirveðsetta snúð; þar með voru allar reglur um stærð húsnæðis þverbrotnar. Það er ósennilegt að 102 Reykjavík hefði orðið smáfrítt hverfi krúttlegra húsa með rauðum og bláum þökum – og það vaxa blóm á þakinu – gróðri við hvert fótmál og glaðlegu mannlífi þar sem nágrannar kankast á yfir þvottasnúrum milli þess sem þeir hjóla í vinnuna og út í búð við undirleik lúðrasveitar barna í fjáröflun fyrir tónleikaferð og harmonikkan dunar og glaðvær glymja hrópin frá götusölunum: Nýafskorin blóm! Rófur! Rófur! Nýveidd loðna! Riklingur að vestan!... Þetta er að vísu hverfið sem við þráum öll að búa í en fáum aldrei fyrir köllunum sem ráða öllu þegar á hólminn er komið. Þetta hefði orðið svona: drungalegar góðærisblokkir með svartri álklæðningu þrumandi í súldinni innan um kraðak af mislægum gatnamótum fullum af gráum bílum með ólundarlegu fólki hóstandi upp úr sér svifrykinu. Kannski rennur sú tíð upp á Íslandi að hús verði reist handa fólki. Og kannski rennur upp sú tíð að flugvallarumræðan snýst um þarfir borgarinnar og íbúa hennar. Því er jafnan haldið fram að það þurfi að gera eitthvað til að „koma hjólum atvinnulífsins í gang" – bara eitthvað – eitthvað nógu mikið og fráleitt – og stundum skilst manni að framkvæmdir séu því þjóðhagslega hagkvæmari sem minni sjáanleg not virðist fyrir þær. Er alveg óhugsandi að framkvæmdir við nýjan flugvöll á góðum stað – og svo í kjölfarið framkvæmdir við að byggja upp nýtt hverfi þar sem jafnvel einhver myndi vilja búa – gætu haft slík áhrif líka?