Olíuævintýri? Ólafur Þ. Stephensen skrifar 5. janúar 2013 08:00 Margir höfðu orðið olíuævintýri á vörum í gær, þegar skrifað var undir fyrstu sérleyfin til að leita að olíu á Drekasvæðinu. Bæði íslenzkir ráðamenn og útlendir samstarfsaðilar eru feikibjartsýnir á að olía kunni að finnast og Ísland verði innan nokkurra ára orðið olíuríki. Það gæti vissulega orðið niðurstaðan. En útkoman er enn um sinn mikilli óvissu háð. Það er ekki víst að olía finnist í vinnanlegu magni. Þótt hún sé til, er ekki þar með sagt að hagkvæmt sé að vinna hana. Víða um heiminn er verið að leita að olíu og aðstæður í Norður-Atlantshafinu eru að mörgu leyti erfiðar. Stóraukið framboð á jarðgasi, sem unnið er úr leirsteinslögum og fjallað var um í helgarblaði Fréttablaðsins fyrir hálfum mánuði, getur breytt alþjóðlegum orkumarkaði og gert vinnsluna óhagkvæma. Verði niðurstaðan engu að síður sú að hagkvæmt sé að bora eftir olíu á Drekasvæðinu er ótal spurningum ósvarað. Íslenzk stjórnvöld hafa enn sem komið er eingöngu mótað stefnu um skattlagningu olíufyrirtækjanna. Að öðru leyti vantar stefnumótun um það hvernig olíuríkið Ísland ætti að haga sér. Eitt stórt álitamál snýr að umhverfismálunum. Olíuvinnsla getur verið áhættusamur bransi, eins og stórslysið í Mexíkóflóa fyrir fáeinum árum sýndi vel. Sambærilegt slys hefði enn alvarlegri áhrif á viðkvæmt lífríki norðurhafa og gæti stórskaðað útflutningshagsmuni Íslands í sjávarútvegi og annarri matvælavinnslu. Verði olíuvinnsla á annað borð leyfð, verður að gera til hennar gríðarlega strangar öryggiskröfur. Við mótun stefnu hljóta að vegast á annars vegar vonir um hagnað af olíuvinnslu og hins vegar sjónarmið um varðveizlu ímyndar Íslands sem lands hreinleika – og lands sem vill vera í forystuhlutverki á sviði þróunar loftslagsvænnar tækni og nýtingar annarra orkugjafa en jarðefnaeldsneytis. Það er yfirlýst markmið íslenzkra stjórnvalda að draga stórlega úr notkun jarðefnaeldsneytis og ákveðin þversögn í því fólgin að hefja þá vinnslu á því í stórum stíl. Á móti kemur það sjónarmið að olían mun áfram sjá heimsbyggðinni fyrir hluta orkuþarfar sinnar um langa framtíð og það væri ekki skynsamlegt að láta gríðarleg verðmæti á íslenzku yfirráðasvæði liggja ónýtt. Vítin eru líka til að varast þau hvað varðar áhrif olíuarðsins á hagkerfið. Olíuauðurinn olli á sínum tíma ofþenslu og sveiflum í Noregi. Norðmenn tóku hins vegar þá skynsamlegu ákvörðun að læra af þeirri reynslu og stofna margfrægan olíusjóð sinn. Það blasir við að hér verði strax farin sama leið, ekki sízt í ljósi þess að olían er ekki endurnýjanleg auðlind og finna þarf leiðir til að komandi kynslóðir eignist einnig hlutdeild í arðinum af henni, en honum verði ekki sólundað jafnóðum. Það er heldur að mörgu leyti ekki hollt fyrir íslenzkt hagkerfi að verða enn háðara náttúruauðlindum en það er í dag. Lönd sem eru rík af auðlindum vanrækja oft mannauð, menntun og þekkingargreinar sem geta stuðlað að sjálfbærum langtímahagvexti. Við þurfum að átta okkur fyrirfram á að sú hætta getur enn aukizt og vinna á móti henni. Nokkur ár munu líða þangað til fyrir liggur hvort hægt er að hefja olíuboranir á Drekasvæðinu. Þann tíma þarf að nýta til að móta heildstæða stefnu um þessi mál. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun
Margir höfðu orðið olíuævintýri á vörum í gær, þegar skrifað var undir fyrstu sérleyfin til að leita að olíu á Drekasvæðinu. Bæði íslenzkir ráðamenn og útlendir samstarfsaðilar eru feikibjartsýnir á að olía kunni að finnast og Ísland verði innan nokkurra ára orðið olíuríki. Það gæti vissulega orðið niðurstaðan. En útkoman er enn um sinn mikilli óvissu háð. Það er ekki víst að olía finnist í vinnanlegu magni. Þótt hún sé til, er ekki þar með sagt að hagkvæmt sé að vinna hana. Víða um heiminn er verið að leita að olíu og aðstæður í Norður-Atlantshafinu eru að mörgu leyti erfiðar. Stóraukið framboð á jarðgasi, sem unnið er úr leirsteinslögum og fjallað var um í helgarblaði Fréttablaðsins fyrir hálfum mánuði, getur breytt alþjóðlegum orkumarkaði og gert vinnsluna óhagkvæma. Verði niðurstaðan engu að síður sú að hagkvæmt sé að bora eftir olíu á Drekasvæðinu er ótal spurningum ósvarað. Íslenzk stjórnvöld hafa enn sem komið er eingöngu mótað stefnu um skattlagningu olíufyrirtækjanna. Að öðru leyti vantar stefnumótun um það hvernig olíuríkið Ísland ætti að haga sér. Eitt stórt álitamál snýr að umhverfismálunum. Olíuvinnsla getur verið áhættusamur bransi, eins og stórslysið í Mexíkóflóa fyrir fáeinum árum sýndi vel. Sambærilegt slys hefði enn alvarlegri áhrif á viðkvæmt lífríki norðurhafa og gæti stórskaðað útflutningshagsmuni Íslands í sjávarútvegi og annarri matvælavinnslu. Verði olíuvinnsla á annað borð leyfð, verður að gera til hennar gríðarlega strangar öryggiskröfur. Við mótun stefnu hljóta að vegast á annars vegar vonir um hagnað af olíuvinnslu og hins vegar sjónarmið um varðveizlu ímyndar Íslands sem lands hreinleika – og lands sem vill vera í forystuhlutverki á sviði þróunar loftslagsvænnar tækni og nýtingar annarra orkugjafa en jarðefnaeldsneytis. Það er yfirlýst markmið íslenzkra stjórnvalda að draga stórlega úr notkun jarðefnaeldsneytis og ákveðin þversögn í því fólgin að hefja þá vinnslu á því í stórum stíl. Á móti kemur það sjónarmið að olían mun áfram sjá heimsbyggðinni fyrir hluta orkuþarfar sinnar um langa framtíð og það væri ekki skynsamlegt að láta gríðarleg verðmæti á íslenzku yfirráðasvæði liggja ónýtt. Vítin eru líka til að varast þau hvað varðar áhrif olíuarðsins á hagkerfið. Olíuauðurinn olli á sínum tíma ofþenslu og sveiflum í Noregi. Norðmenn tóku hins vegar þá skynsamlegu ákvörðun að læra af þeirri reynslu og stofna margfrægan olíusjóð sinn. Það blasir við að hér verði strax farin sama leið, ekki sízt í ljósi þess að olían er ekki endurnýjanleg auðlind og finna þarf leiðir til að komandi kynslóðir eignist einnig hlutdeild í arðinum af henni, en honum verði ekki sólundað jafnóðum. Það er heldur að mörgu leyti ekki hollt fyrir íslenzkt hagkerfi að verða enn háðara náttúruauðlindum en það er í dag. Lönd sem eru rík af auðlindum vanrækja oft mannauð, menntun og þekkingargreinar sem geta stuðlað að sjálfbærum langtímahagvexti. Við þurfum að átta okkur fyrirfram á að sú hætta getur enn aukizt og vinna á móti henni. Nokkur ár munu líða þangað til fyrir liggur hvort hægt er að hefja olíuboranir á Drekasvæðinu. Þann tíma þarf að nýta til að móta heildstæða stefnu um þessi mál.