Tónlist

Plötusala dróst saman um 8%

Freyr skrifar
Of Monsters and men seldi plötuna sína í um tíu þúsund eintökum árið 2012. One Direction naut einnig vinsælda hér á landi.
F57030113 direction
Of Monsters and men seldi plötuna sína í um tíu þúsund eintökum árið 2012. One Direction naut einnig vinsælda hér á landi. F57030113 direction
Plötusala árið 2012 var um 8% minni en árið áður. Þetta kemur fram ef Tónlistinn er skoðaður. Hann tekur saman sölutölur úr öllum stærstu smásöluverslunum landsins. Listinn segir ekki alla söguna því ekki eru allar verslanir teknar með í reikninginn en er mjög nærri lagi.

Árið 2011 var metár í plötusölu hérlendis og því erfitt að bera 2012 saman við það. Þá seldist plata Mugisons, Haglél, í um þrjátíu þúsund eintökum sem er met. Salan 2009 og 2010 markast af því að engin plata náði álíka vinsældum og Haglél eða Dýrð í dauðaþögn með Ásgeiri Trausta sem seldist í um 22 þúsund eintökum í fyrra.

Salan 2012 var sú næstbesta á undanförnum fjórum árum hvað varðar seld eintök. Hún var 10% betri en 2009 og 25% betri en 2010. „Árið var frábært í nýjum íslenskum plötum. Markaðurinn virðist hafa brugðist vel við þeirri staðreynd því salan var mjög góð,“ segir Eiður Arnarsson hjá Senu, stærstu útgáfu landsins. „Ungu listamennirnir seldu afgerandi vel. Það er svolítið stóra fréttin, sýnist manni.“

Þar á hann við Ásgeir Trausta, Of Monsters and Men, Retro Stefson, Jónas Sigurðsson, Valdimar og fleiri flytjendur sem nutu mikilla vinsælda á síðasta ári. Plata Of Monsters and Men, My Head Is an Animal, seldist í um tíu þúsund eintökum á árinu en alls hefur hún selst í um tuttugu þúsundum síðan hún kom út 2011. Retro Stefson seldi plötu sína í yfir fimm þúsund eintökum, sem er gullsala.

Meðal eldri listamanna sem seldu minna en oft áður var Bubbi Morthens. Platan hans Þorpið sem kom út síðasta vor seldist í um 3.500 eintökum á meðan Ég trúi á þig með Bubba og Sólskuggunum frá 2011 fór í um 5.500 eintökum.

Í erlendu deildinni seldi ensk-írska strákabandið One Direction plötuna Take Me Home í um 1.500 eintökum og kanadíski popparinn Justin Bieber var á svipuðum slóðum með Believe. Platan 21 með Adele seldist einnig vel árið 2012 þrátt fyrir að hafa komið út ári fyrr. Merry Christmas, Baby með Rod Stewart vakti líka lukku og seldist í um eitt þúsund eintökum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.