Tónlist

Íslensku tónlistarverðlaunin 2013: Hjaltalín með flestar tilnefningar

Mynd/Vísir
Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna voru birtar í dag. Verðlaunin verða veitt í Eldborgarsal Hörpu föstudaginn 14. mars. Þá verður 20 ára afmæli þeirra fagnað og verður viðburðurinn því með glæsilegra sniði en áður.



Popp og rokk

Hjaltalín fékk flestar tilnefningar, alls átta talsins, í popp og rokk flokki. Mammút fékk sjö tilnefningar og Emilíana Torrini og John Grant fjórar.

Íkorni og Drangar fylgja þar á eftir með þrjár tilnefningar hvor og einnig hljóta Lay Low og Baggalútur tvær tilnefningar auk þess sem Jóhanna Guðrún er tilnefnd sem söngkona ársins, m.a. fyrir flutning í laginu Mamma þarf að djamma með Baggalúti.

Tilnefningar Hjaltalín: Hljómplata ársins, Söngkona ársins, Söngvari ársins, Tónlistarflytjandi ársins, Lag ársins, Lagahöfundur ársins, og Upptökustjóri ársins. Einnig hlýtur hljómplata Hjaltalín, Days of Grey, tilnefningu sem Hljómplata ársins í opnum flokki.

Tilnefningar Mammút: Söngkona ársins, Textahöfundur ársins, Hljómplata ársins, Upptökustjóri ársins, Tónlistarflytjandi, Lag ársins og Lagahöfundur ársins. 

Tilnefningar Emilíönu Torrini: Hljómplata ársins, Söngkona ársins, Lag ársins og Lagahöfundur ársins.

Tilnefningar John Grant: Hljómplata ársins, Söngvari ársins, Lag ársins, Lagahöfundur ársins.



Djass og blús

Í djass og blús flokki er Samúel Jón Samúelsson Big Band og Sunna Gunnlaugs með flestar tilnefningar eða fjórar hvor en fast á hæla þeirra fylgja K-Tríó, Tómas R. Einarsson og Sigurður Flosason með tvær tilnefningar.

Tilnefningar SJS Big Band: Tónhöfundur ársins, Tónverk ársins, Tónlistarflytjandi ársins og Hljómplata ársins.

Tilnefningar Sunnu Gunnlaugs: Tónhöfundur ársins, Tónverk ársins, Tónlistarflytjandi ársins og Hljómplata ársins.

Tilnefningar K-Tríó: Tónhöfundur ársins og Hljómplata ársins.

Tilnefningar Tómasar R. Einarssonar: Tónhöfundur árins og Tónverk ársins.

Tilnefningar Sigurðar Flosasonar: Tónlistarflytjandi og Hljómplata ársins (Nightfall - Sigurður Flosason og Kjeld Lauritsen)



Sígild og samtímatónlist

Í flokki sígildrar- og samtímatónlistar er óperan Ragnheiður sem frumflutt var í Skálholti síðast liðið haust með flestar tilnefningar. Verkið er tilnefnt sem Tónverk ársins, Gunnar Þórðarson er tilnefndur sem Tónhöfundur ársins og að auki er Þóra Einarsdóttir tilnefnd sem Söngkona ársins fyrir frammistöðu sína í hlutverki Ragnheiðar og Eyjólfur Eyjólfsson er tilnefndur sem Söngvari ársins fyrir frammistöðu sína í hlutverki Daða Halldórssonar. Að lokum er frumflutningurinn á óperunni tilnefndur til Tónlistarviðburðar ársins.

Hugi Guðmundsson hlýtur þrjár tilnefningar í ár en plata hans Djúpsins ró er tilnefnd sem Hljómplata ársins, verk hans Ice Age er tilnefnt sem Tónverk ársins og hann sjálfur sem Tónhöfundur ársins.



Opinn flokkur

Í ár er aftur tekið upp á því að verðlauna fyrir Hljómplötu ársins í opnum flokki (ýmis tónlist). Flokkurinn á að ná yfir þær hljómplötur sem með engu móti teljast geta fallið í einhvern hinna þriggja grunnflokkar (popp/rokk, djass/blús, sígild- og samtímatónlist). Í ár eru eftirfarandi hljómplötur tilnefndar í þeim flokki: Days of Grey eftir Hjaltalín, For Now I am Winter eftir Ólaf Arnalds og The Lighthouse Project með Amiina.

Tilnefningar í flokkunum Bjartasta vonin, Plötuumslag ársins og Tónlistarmyndband ársins verða birtar eftir áramótin. Þá hefst einnig kjör á Vinsælasta flytjandanum en á verðlaununum sjálfum verður tilkynnt um það hver hlýtur Heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna.

TILNEFNINGAR TIL ÍTV 2013

-Tilnefningarnar allar ásamt rökstuðningi



Tónhöfundur ársins – Jazz og blús

Kristján Tryggvi Martinsson (K-tríó)

Kristján er frjór tónhöfundur, sem víkur gjarnan frá hefðbundnum leiðum djasshöfunda og skipar húmorinn oft heiðurssess í verkum hans.



Samúel Jón Samúelsson (SJS Big Band)

Samúel skrifar einfaldar en kröftugar línur fyrir stórsveit sína og leitar oft fanga hjá horfnum stórsveitarmeisturum jafnt sem þeim er skína skærast í afrófönkheiminum.

Sunna Gunnlaugsdóttir (Sunna Gunnlaugs)

Sunna er næm á fallegar laglínur þótt hún skrifi ekki síður í hefðbundnum stíl eftir-bopp djassins.

Tómas R. Einarsson

Tómas er meistari í að byggja upp tónverk sín og notar þá jafnt karabísk sem íslensk minni. Laglínurnar eru margar minnisstæðar og sumar hljóma eins og þær hafi alltaf verið til.



Tónverk ársins – Jazz og blús

Ethiopian af plötunni 4 hliðar – Samúel Jón Samúelsson

Hrynfast verk með margar víddir og þrátt fyrir fönkið má greina áhrif frá eldri meisturum  stórsveitardjassins í raddsetningunni.

Janúar af plötunni Bassanótt – Tómas R. Einarsson

Ljúfri laglínunni er gefinn þungi með bassaleik höfundar og það má skynja Ísland ekki síður en Kúbu í tónlistinni.

Smiling Face af plötunni Distilled – Þorgrímur Jónsson

Ballaða þar sem höfundurinn lýsir tilfinningum sínum í sterkum bassaleik í bland við mjúkan píanóleik.

Strokkur af plötunni Gamla hverfið – Kristján Tryggvi Martinsson

Verkið er expressjónísk lýsing á miklum umbrotum; stríðhljóma og kynngimagnað.



Tónlistarflytjandi ársins – Jazz og blús

ADHD

Kvartett sem leitar víða fanga í hryntónlist nútímans þó að oftast verði innhverf ballöðutúlkun ofaná. Hver einstaklingur býr yfir persónulegum stíl sem þjónar þó alltaf heildinni.

Samúel Jón Samúelsson Big Band

Hljómsveit þar sem leikgleðin ríkir öllu öðru ofar, fönkaður hrynur og frábærir einleikarar hrífa jafnt dansglaða og þá sem vilja einbeita sér að hlustun.

Sigurður Flosason

Sigurður nálgast fullkomnun í altósaxófónleik sínum, sér í lagi í mjúktóna spuna. Hann er einn afkastamesti tónlistarmaður okkar og auk þess að leika á saxófóna og flautu er hann vaxandi hljómsveitarstjóri og aðalstjórnandi Stórsveitar Reykjavíkur.



Tríó Sunnu Gunnlaugs

Sérstaklega samspilað tríó þar sem einstaklingarnir þekkja hver annan firna vel, enda hafa þeir haldið fjölda tónleika víða um heim lengi vel.



Hljómplata ársins - Jazz og blús

K-Tríó – Meatball Evening

Kröftugur en fágaður djass með skemmtilegum snúningum og útúrdúrum sem koma á óvart. Tónlistin gælir við hlustirnar á sama tíma og hún rótar í huganum og kallar á óvænt hughrif.  



Samúel Jón Samúelsson Big Band – 4 hliðar

Lifandi sönnun þess að heitustu hrynslaufur afróbítsins og tælandi tónar brasilísku sömbunnar eiga heima á norðurhjara. Jöklar bráðna, hitastig hækkar og gleðin tekur völdin þegar Samúel telur í.  

Sigurður Flosason og Kjeld Lauritsen – Nightfall

Sigurður nálgast fullkomnun í altósaxófónleik sínum, sér í lagi í mjúktóna spuna. Hann er einn afkastamesti tónlistarmaður okkar og auk þess að leika á saxófóna og flautu er hann vaxandi hljómsveitarstjóri og aðalstjórnandi Stórsveitar Reykjavíkur.



Sunna Gunnlaugs – Distilled

Skapandi og hugmyndaríkur tónheimur Sunnu Gunnlaugs, Þorgríms Jónssonar og Scotts McLemore, ásamt þéttofnu samspili sem leyfir tónlistinni að anda á réttum stöðum, er meginstyrkur Distilled. 



Tónverk ársins - Sígild- og samtímatónlist

Lokalagið úr kvikmyndinni Í draumi sérhvers manns eftir Atla Ingólfsson.

Frumflutt af Víkingi Heiðari Ólafssyni og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Ilans Volkov á Tectonics-tónlistarhátíðinni 2013.



Þetta er eins konar píanókonsert þar sem píanóið verður æ meira áberandi eftir því sem líður á verkið. Atli vísar í ljóð Steins Steinars: „Í draumi sérhvers manns er fall hans falið“ þar sem felst mikilvæg vísbending. Verkið er á köflum óreiðukennt, sem skapar áhugaverða spennu eftir því sem líður á verkið. Verkinu vindur fram og píanóparturinn verður æ flóknari og erfiðari. Þetta er óvenjulegt og skemmtilegt verk með kaldranalegan húmor.



Gangverk englanna eftir Gunnar Andreas Kristinsson.

Frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Ilans Volkovs á Myrkum músíkdögum 2013.



Efniviðurinn er að hluta sóttur í íslenska vögguvísu, „Vaki englar vöggu hjá“, sem fléttast saman við ýmis vélræn ferli, nokkurs konar gangvirki. Þannig birtast fallegar andstæður í verkinu – hið mjúka og innhverfa andspænis hinu vélræna og harða.



Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson. 

Frumflutt í Skálholti árið 2013.



Þetta er saga Ragnheiðar Brynjólfsdóttur biskupsdóttur sem Gunnar færir í óperubúning. Hann notar tónmál sem er fremur hefðbundið og nýstárlegt í senn og nær að segja þessa erfiðu sögu á skýran og næman hátt og um leið búa til glæsilega óperu sem gaman verður að sjá á sviði.



Höfuðskepnur eftir Hauk Tómasson. 

Frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórnJohn Storgårds, í nóvember árið 2012.



Verkið er í fimm köflum og er samið með staðsetningu Hörpu í huga „þar sem frumöflin haf, land og norðangarrinn mæta menningunni.“ Hver kafli fyrir sig lýsir einni höfuðskepnu og Haukur sækir efniviðinn í jarðarpúlsinn, ískur íssins, ljós, loft og hinn endanlega skugga. Umfjöllunarefnið er á kosmískum skala og endurspeglast í fjölbreyttri úrvinnslu efnisins, þykkur tónvefur á móti fínlegum, háir tónar á móti dökkum, fastur rytmi á móti fljótandi. Í þessu stórbrotna verki má heyra mörg helstu einkenni tónsmíða Hauks.



Ice Age eftir Huga Guðmundsson. 

Samið fyrir og frumflutt af Kammerkór danska útvarpsins í desember 2012.



Verkið er samið fyrir kór og rafhljóð við ljóð Sigurbjargar Þrastardóttur. Dúlúðugt og seiðandi verk þar sem hefðbundnir hljómar og glissandó-strófur kórsins og rafhljóð unnin út frá þeim mynda heillandi vef. Eins og oft í verkum sínum tengir Hugi saman nútímann og vísanir hí fortíðina og hér vísar hann aftur í rómantíska skandinavíska kórahefð. Huga lætur vel að skrifa fyrir raddir og hér bætir hann en enn einni fjöður í þann glæsta hatt.



Nostalgia eftir Pál Ragnar Pálsson. 

Verkið var frumflutt á Myrkum músíkdögum 2013 af Unu Sveinbjarnardóttur og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Ilans Volkovs.

Efniviður verksins er að miklu leyti sóttur í aðrar listgreinar, samnefnda kvikmynd Andreis Tarkovskis, goðsöguna af Sysifos, og verk franska rithöfundarins Alberts Camus um þá goðsögu  – vísanir eru í horfinn tíma og söknuð eftir honum. Allt myndar þær saman eina sterka og áhrifaríka heild og nafn verksins endurspeglar fortíðarþrána enn frekar. Einstaklega áhrifamikið verk.



Tónhöfundur ársins - Sígild- og samtímatónlist

Atli Ingólfsson

Fyrir verkið „Lokalagið úr kvikmyndinni Í draumi sérhvers manns“.



Gunnar Andreas Kristinsson

Fyrir „Gangvirki englanna“.

Gunnar Þórðarson

Fyrir óperuna „Ragnheiði“.

Hugi Guðmundsson

Fyrir „Ice Age“



Haukur Tómasson

Fyrir „Höfuðskepnur“.



Páll Ragnar Pálsson

Fyrir fiðlukonsertinn „Nostalgia“.



Tónlistarflytjandi ársins - Sígild- og samtímatónlist

Kammersveit Reykjavíkur

Kammersveit Reykjavíkur hélt eftirminnilega tónleika á Listahátíð í Reykjavík undir stjórn Petris Sakari, þar sem flutt voru valin verk eftir pólska tónskáldið Withold Lutoslawski í tilefni aldarafmælis hans. Leikur sveitarinnar var frammúrskarandi og túlkun sveitarinnar á framsæknum verkum Lutoslawskis undir stjórn Sakaris sannfærandi í alla staði.

Nordic affect

Tónleikaár tónlistarhópsins Nordic affect einkenndist af mikilli fagmennsku og efnisskrár tónleika hópsins voru fjölbreyttar og vandlega samsettar af skýrri heildarsýn. Hópurinn hefur sérhæft sig í flutningi gamallar tónlistar sem og flutningi á samtímatónlist og hefur á þeim árum sem hann hefur starfað auðgað íslenska tónlistarflóru.



Víkingur Heiðar Ólafsson

Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari kom fram á fjölmörgum tónleikum á árinu. M.a. frumflutti hann nýjan píanókonsert Atla Ingólfssonar með Sinóníuhljómsveit Ísland og átti hann mörg eftirminnileg augnablik á hátíðinni Reykjavik Midsumer Music. Auk þess lék hann með fjölmörgum íslenskum listamönnum í þáttaröðinni Útúrdúr sem hann ásamt Höllu Oddnýju Magnúsdóttur gerði fyrir RÚV.

Anna Guðný Guðmundsdóttir

Anna Guðný Guðmundsdóttir var mjög virk í tónlistarlífinu í ár og sýndi enn og aftur frammá  að hún er einn af okkar fremstu tónlistarmönnum. Hún átti m.a. stórleik á hátíðinni Reykjavik Midsummer Music, á Listahátíð í Reykjavík í flutningi á verki Igors Stravinskys Petrushka og sem kammertónlistarflytjandi á Reykholtshátíð svo fátt eitt sé nefnt. 



Schola Cantorum

Schola Cantorum hélt tónleika á Kirkjulistahátíð ásamt 20 manna hátíðarsveit undir stjórn Harðar Áskelssonar sem helgaðir voru verkum eistneska tónskaldsins Arvo Pärt. Kórinn söng af miklu listfengi og náði vel að koma til skila því tímaleysi og tilbeiðslu sem helst einkennir verk Pärts.



Hljómplata ársins - Sígild- og samtímatónlist

Daníel Bjarnason - Over Light Earth

Á hljómdisknum Over Light Earth má finna tvö af nýrri verkum tónskáldsins og hljómsveitarstjórans Daníels Bjarnasonar, auk endurgerðrar á eldra verki. Frábær hljómdiskur þar sem afar vel er vandað til verka.



Hugi Guðmundsson - Djúpsins ró

Djúpsins ró inniheldur kórverk, kammer- og einleiksverk eftir Huga Guðmundsson. Sérlega áhugaverður hljómdiskur og fjölbreytilegur.



Emilía Rós Sigfúsdóttir og Ástríður Alda Sigurðardóttir - Portrait

Emilía Rós Sigfúsdóttir flautuleikari og Ástríður Alda Sigurðardóttir bjóða upp á margar af helstu perlum verka fyrir flautu á píanó. Frábær flutningur og vel unninn diskur í alla staði.



Vincent d´Indy - Orchestral Works 5 - Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Rumons Gamba

Samstarf Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Rumons Gamba elur af sér fimmta hljómdiskinn með verkum franska síð-rímantíkersins Vincent d´Indy. Frábær flutningur á áhugaverðri tónlist d´Indy og hljóðupptaka til fyrirmyndar.



Þórður Magnússon - La Poesie

Á hljómdisknum La Poesie má finna fjögur nýlega kammertónverk eftir Þórð Magnússon. Verkin eru afar vel skrifuð og ekki er flutningurinn síðri. Frábær diskur.



Söngkona ársins - Sígild- og samtímatónlist

Hallveig Rúnarsdóttir

Hallveig Rúnarsdóttir hlýtur tilnefningu sem söngkona ársins fyrir frammistöðu sína í hlutverki Danielu í uppfærslu Íslensku Óperunnar á Carmen sem og fyrir flutning á sumartónleikum Skálholts 2013.



Hanna Dóra Sturludóttir

Hanna Dóra Sturludóttir hlýtur tilnefningu sem söngkona ársins fyrir frammistöðu sína í titilhlutverki Carmen í uppfærslu Íslensku Óperunnar sem og fyrir flutning á Wesendonk-ljóðum eftir Richard Wagner með Sinfóníuhljómsveit Íslands í vor.



Þóra Einarsdóttir

Þóra Einarsdóttir hlýtur tilnefningu sem söngkona ársins fyrir frammistöðu sína í hlutverki Ragnheiðar í samnefndri óperu eftir Gunnar Þórðarsson og einnig fyrir túlkun sína á Vier Letzte Lieder eftir Richard Strauss á tónlistarhátíðinni Reykjavik Midsommer Music.



Söngvari ársins - Sígild- og samtímatónlist

Ágúst Ólafsson

Ágúst Ólafsson hlýtur tilnefningu sem söngvari ársins fyrir þáttöku sína á listahátíð þar sem hann söng á þrennum tónleikum helstu ljóðasöngflokka Roberts Schumann, og fyrir frammistöðu í hlutverki Dancaire í uppfærslu Íslensku Óperunnar á Carmen.



Bjarni Thor Kristinsson

Bjarni Thor Kristinsson hlýtur tilnefningu sem söngvari ársins fyrir frammistöðu sína í hlutverki Zuninga í uppfærslu Íslensku Óperunnar á Carmen og fyrir söng sinn í verkum Wagners með Sinfóníuhljómsveit Íslands í vor.



Eyjólfur Eyjólfsson

Eyjólfur Eyjólfsson hlýtur tilnefningu sem söngvari ársins fyrir frammistöðu sína í hlutverki Daða Halldórssonar í óperunni Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarsson.



Lagahöfundur ársins - popp og rokk

Drangar

Fyrir samnefnda plötu þar sem frumleg notkun hljóðfæra í bland við fjölbreyttan söng og sterkar lagasmíðar nýtur sín vel.



Emilíana Torrini

Fyrir Tookah; ljúfar lagasmíðar sem láta lítið yfir sér í byrjun en reynast þéttofnar og marglaga við nánari hlustun.



Hjaltalín

Fyrir Enter 4, þar sem hljómsveitin fer óhefðbundnar og margslungnar leiðir í lagasmíðum sínum.



John Grant

Fyrir Pale Green Ghosts. Einlæg og öflug tónlist Johns Grant er hér samfléttuð raftónlist, sumsstaðar á ögrandi hátt, svo að úr verður einstök blanda.



Mammút

Fyrir Komdu til mín svarta systir. Sterkar lagasmíðar, skemmtileg uppbygging og útsetningar, þar sem kraftmikill söngurinn er studdur dyggilega af frumlegum hljóðfæraleik.



Lag ársins - popp og rokk

Crack In a Stone – Hjaltalín

Margbrotið lag sem grípur mann strax á fyrstu sekúndum: trommur, gítar og frábær bassalína; Högni og Sigríður syngja saman lagið, sem byggist upp í litla symfóníu með Bítlalegum hljóðheimi. Áhrifaríkt og fallegt.



GMF – John Grant

Þetta fallega, rólega lag stingur skemmtilega í stúf við kjarnyrtan textann; söngur Johns Grant er mjúkur og sterkur í senn og undirstrikar kaldhæðnina í textanum. Einfaldlega vel samið lag.



Salt – Mammút

Taktföst byrjun, frumlegur millikafli, áleitinn söngur og vel útsettur undirleikur. Vel samið lag með þjóðlagalegri undiröldu sem hrífur mann með sér.



Speed of Dark – Emilíana Torrini

Eitt af þessum lögum sem vekur athygli manns innanum öll hin lögin í útvarpinu; byrjar lágstemmt,en stöðugur takturinn og fallegur söngur Emilíönu sem eins og fléttast um lagið virkar næstum dáleiðandi. Hrífandi lag, bæði fyrir hug og dansgólf.



Glaðasti hundur í heimi – Dr. Gunni og félagar

Eitt af ekki svo mörgum barnalögum sem grípa fullorðna jafn föstum tökum og börnin. Skemmtilegt lag og Friðrik Dór góður í hlutverki hundsins glaðasta.



Mamma þarf að djamma – Baggalútur og Jóhanna Guðrún

Verulega grípandi og gott lag með drepfyndnum og snilldarvel sömdum texta, og punkturinn yfir i-ið er frábær söngur og túlkun Jóhönnu Guðrúnar.



Tónlistarflytjandi ársins - popp og rokk

Áhöfnin á Húna

Fyrir einstaka tónleikasjóferð kringum landið og vel heppnaða bryggjutónleika á fjöldamörgum stöðum, þrátt fyrir misgott veðurfar.



Hjaltalín

Fyrir magnaða útgáfutónleika, áhrifaríka tónleika á Airwaves o.fl.



Mammút

Fyrir kraftmikinn og áhrífaríkan flutning á Airwaves, útgáfutónleikum o.fl.



Of Monsters And Men

Fyrir frábæran flutning á tónleikum víðs vegar um heim, auk eftirminnilegra stórtónleika á Víðisstaðatúni sl. sumar.



Skálmöld

Fyrir sterka sviðsframkomu, áhrifamikinn og öflugan flutning og frumleika.



Söngvari ársins - popp og rokk

Egill Ólafsson

Einstakur söngvari sem getur brugðið sér í ótal hlutverk. Hélt frábæra afmælistónleika á árinu og stofnaði til samstarfs við ungt tónlistarfólk með góðum árangri. Fjölhæfur og frjór í sinni tónlistarsköpun og flutningi og átti einnig topplag á árinu.



Högni Egilsson

Hæfileikaríkur söngvari og listamaður með mikla útgeislun. Tilnefndur fyrir söng sinn með Hjaltalín og í öðrum verkefnum s.s. á leiksviði og víðar.



John Grant

Gaf út plötuna Pale Green Ghosts og kom fram á fjölda tónleika innanlands- sem utan. Blæbrigðaríkur söngvari sem sýndi á árinu að hann er óhræddur við að reyna nýja hluti og efna til samstarfs við aðra tónlistarmenn í fjölbreyttum verkefnum.



Pálmi Gunnarsson

Einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar fór yfir magnaðan feril sinn með stórtónleikum á árinu og sendi frá sér þrefalda ferilsplötu með einu nýju lagi sem fór á toppinn.



Jökull Júlíusson

Kraftmikill söngvari sem komst rækilega á kortið í ár með hljómsveit sinni Kaleo. Jafnvígur á bljúgar ballöður og rífandi rokkslagara.



Eyþór Ingi

Sigraði örugglega í Söngvakeppni sjónvarpsins, kom að fjölbreyttum verkefnum s.s. með Todmobile, Freddie Mercury heiðurstónleikum og gaf út plötu ásamt Atómskáldunum.



Söngkona ársins - popp og rokk

Emilíana Torrini

Fyrir tilfinningaríkan, en áreynslulausan og fallegan söng á plötunni Tookah. 



Jóhanna Guðrún

Fjölhæf söngkona sem tekið hefur þátt í fjölbreyttum verkefnum. Fer á kostum með Baggalúti.



Sigríður Thorlacius

Fyrir frábæra túlkun og framkomu, einstaka söngrödd og flutning með Hjaltalín, á plötunni Jólakveðju og víðar.



Katrína Mogensen

Kraftmikil rödd með mikinn karakter, sterk sviðsframkoma og eftirtektarverður flutningur með hljómsveitinni Mammút.



Lay Low

Einlæg í flutningi sínum með mjúka en þó blæbrigðaríka rödd sem nýtur sín vel í einföldum útsetningum þar sem söngurinn stendur fremstur.



Andrea Gylfadóttir

Töfrandi og fjölhæf söngkona sem leikur sér að því að flakka á milli tónlistarstefna. Hefur komið að margbreytilegum verkefnum á árinu með hljómsveit sinni Todmobile, Blúsmönnum og sem sólólistamaður.



Hljómplata ársins - popp og rokk

Drangar – Drangar

Líflegar lagasmíðar, fjölbreyttur og frumlegur flutningur og skemmtilegir textar einkenna þessa fyrstu plötu Dranga.



Tookah – Emilíana Torrini

Heillandi plata sem vinnur á við hverja hlustun. Mjúkar, vel samdar melódíur og seiðandi söngur.



Enter 4 – Hjaltalín

Athyglisverð plata þar sem fjölbreytnin er allsráðandi í óhefðbundnum og dramatískum popplagasmíðum.



Íkorni – Íkorni

Áhugverð frumraun – heillandi, hugljúfar lagasmíðar og fallegur hljóðheimur.



Pale Green Ghosts – John Grant

Sterk plata sem er í senn uppgjör við erfiða tíma og ný framtíðarsýn. Falleg rödd Johns Grant nýtur sín í fjölbreyttum lögum þar sem blandast hugljúfar lagasmíðar söngvaskáldsins og taktföst raftónlistin.



Komdu til mín svarta systir – Mammút

Orkumikið verk sem einkennist af frumkrafti og ástríðu. Sterkir textar og athyglisverðar lagasmíðar fluttar af mikilli tilfinningu.



Kveikur – Sigurrós

Tónlistin á þessari sjöundu plötu Sigurrósar er sem magnað ferðalag um íslenska náttúra; eldur, ís, stormur, rafmagn...og svo loks komist í var. Kveikur er kröftugasta plata sveitarinnar í langan tíma, jafnvel sú kröftugasta frá upphafi. Þykkt, tilkomumikið, fljótandi hraunrokk.

Textahöfundur ársins

Bragi Valdimar Skúlason

Fyrir texta við lög Baggalúts. Einstaklega hnyttinn og flinkur textahöfundur sem leikur sér með tungumálið.

Bubbi Morthens

Sannkallaður sögumaður sem flytur okkur einlæga og sterka samfélagstexta úr nútíð og fortíð á plötunni Stormurinn.

Drangar

Tilfinningaríkir og kjarnyrtir textar á plötunni Drangar.



Íkorni

Vönduð textagerð sem fer vel með ljúfum lagasmíðum á fyrstu plötu Íkorna.



Katrína Mogensen

Munúðarfullir og kraftmiklir textar, sem einkennast af orku og ástríðu,  á plötunni Komdu til mín Svarta systir með Mammút. 





Tónlistarviðburður ársins

Eistnaflug 2013

Einhvern tímann hefði Neskaupstaður þótt ólíklegur vettvangur fyrir árlega rokkhátíð, en þangað leggja æ fleiri leið sína, ekki síst erlendir gestir, sem fer sífellt fjölgandi á hátíðinni. Þetta er vel skipulögð rokkhátíð, glæsileg í alla staði og fer ávallt friðsamlega fram. Eistnaflug er gott dæmi um vel heppnaða tónlistarhátíð á landsbyggðinni.



Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson – Ragnheiður, ópera

Frumflutningur á óperunni Ragnheiður í Skálholti haustið 2013 líður þeim sem sáu seint úr minni. Gunnar Þórðarson færir texta Friðriks Erlingssonar á tóna á áhrifaríkan hátt og útkomuna er ekki hægt að kalla annað en stórvirki.

Iceland Airwaves 2013

Iceland Airwaves, sem haldin var í 15. sinn í ár, er ein fremsta tónlistarhátíð landsins. Iceland Airwaves státar af faglegri umgjörð og hefur náð þeim stalli að vera eins konar flaggskip íslenskra tónlistarhátíða. Hróður hátíðarinnar erlendis eykst með hverju árinu og er hún mikilvægur stökkpallur fyrir íslenskar hljómsveitir sem vilja leita út fyrir landsteinana.

Ólafur Arnalds og Sinfóníuhljómsveit Íslands – For Now I am Winter

Leiðir Ólafs Arnalds og Sinfóníuhljómsveitar Íslands lágu saman í fyrsta sinn á tónleikum Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar í Elborgarsal Hörpu í lok nóvember sl.. Innhverf og einlæg tónlist Ólafs naut sín til fullnustu fyrir fullum sal áheyrenda í Eldborg og fegurðin í kyrrðinni ríkti ofar öllu. 

Pönk á Patró 2013

Rokksveitin Skálmöld stjórnaði smiðjunni Pönk á Patró sem haldin var í fimmta sinn í Sjóræningjahúsinu. Börn og unglingar lærðu á hljóðfæri, nutu tónlistar á eigin forsendum og svöluðu rokkþörfinni í tónlistasmiðjum. Tónlist Skálmaldar og víkingatextar með fornum háttum í víkingastíl voru á kennsluskránni. Merkilegt grasrótarstarf á landsbyggðinni. 

Tónlistarhátíð unga fólksins – Kammer tónlistarhátíð

Markmið hátíðarinnar, sem í ár var haldin í sjötta sinn, er að skapa vettvang fyrir ungt tónlistarfólk til að tjá list sína á tónleikum og standa fyrir metnaðarfullum námskeiðum í tónlist og tónlistartengdum málefnum. Mikill fjöldi íslenskra sem erlendra tónlistarmanna hefur komið fram á hátíðinni og aragrúi ungs tónlistarfólks tekið þátt. Hátíðin er nú einn umfangsmesti árlegi viðburður fyrir klassíska tónlist á Íslandi.



Upptökustjóri ársins

Bjarni Rúnar Bjarnason – Portrait – Emilía Rós Sigfúsdóttir, Ástríður Alda Sigurðardóttir

Fyrir upptökur á Portrait með Emilíu Rós Sigfúsdóttur og Ástríði Öldu Sigurðardóttur. Bjarni Rúnar hefur komið að óteljandi upptökum sem tónmeistari RÚV.. Á þessum hljómdiski sýnir hann og sannar að hann er í fremstu röð. Frábær upptakan fangar í senn vel flutta tónlist og skilar stemmningu tónlistarinnar sterkt til þeirra sem á hlýða.



Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir (Lay Low)

Fyrir upptökur á Talking About The Weather með Lay Low. Merkileg plata þar sem Lay Low skilar ótrúlega góðu verki. Hún vann plötuna nánast að öllu leyti ein og óstudd og leysti verkefnið af hendi á faglegan og eftirminnilegan hátt.



Magnús Árni Öder

Fyrir upptökur á Komdu til mín svarta systir með Mammút. Hljómsveitin er með mjög ákveðinn stíl sem Magnús Árni undirstrikar með frumleika sínum og smekkvísi.  



Stefán Örn Gunnlaugsson

Fyrir upptökur á plötunni Íkorni með Íkorna. Heilsteyptur hljómur þar sem unnið er með heildarmynd á sama tíma og hvert lag fær viðeigandi meðhöndlun. Útkoman er þéttofinn hljóðvefur.    



Sveinn Helgi Halldórsson

Fyrir upptökur á Enter 4 með Hjaltalín. Einstaklega góður heildarhljómur þar sem hljóðfæraleik og öðrum hljóðum er smekklega skeytt saman og fær hlustandann til að gefa upptökunum sérstakan gaum.



Valgeir Sigurðsson

Fyrir upptökur á Over Light Earth sem inniheldur tónlist Daníels Bjarnasonar. Á plötunni eru þrjú tónverk eftir Daníel sem er nostrað við á öllum stigum. Hljóðvinnslan undirstrikar hvern tón og heldur jafnframt vel utanum heildarmyndina.



Hljómplata ársins - Opinn flokkur

Days of Grey – Hjaltalín

Heillandi verkefni sem varð að veruleika vegna áhuga bandarísks kvikmyndaleikstjóra á því að gera þögla mynd við tónlist eftir liðsmenn hljómsveitarinnar Hjaltalín. Niðurstaðan varð kvikmyndin Days of Grey og stemmningsrík tónlist sem líka stendur ágætlega ein og sér.



For Now I am Winter – Ólafur Arnalds

Ólafur Arnalds heldur áfram að þróa tónsmíðar sínar sem sækja minni úr sígildum, nýgildum og rafrænum tónheimum. Útsetningar, vandaður hljóðfæraleikur og söngrödd skipa stóran sess og skapa draumkennt tónmál.



The Lighthouse Project – Amiina

Afrakstur Vitaverkefnisins, hljómleikum sem Amiina hélt í vitum víða um landið árið 2009. Lokkandi og dulúðugur seiður leysist úr læðingi á þessari plötu sem geymir minninguna um sérstætt og fallegt tónlistarverkefni.  



TILNEFNINGAR OG VERÐLAUN SEM VERÐA KYNNT SEINNA

Tilnefningar í flokkunum Bjartasta vonin, Plötuumslag ársins og Tónlistarmyndband ársins verða birtar eftir áramótin. Þá hefst einnig kjör á Vinsælasta flytjandanum en á verðlaununum sjálfum verður tilkynnt um það hver hlýtur Heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×