Bílar

Olís uppfyllir skilyrði vegna breytinga á lögum

Finnur Thorlacius skrifar
Eldsneytisstöð Olís í Mjódd.
Eldsneytisstöð Olís í Mjódd.
Um næstu áramót taka gildi lög nr. 40/2013 um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi. Þau kveða á um skyldu olíufélaganna um að tryggja að hluti af eldsneyti til samgangna verði af endurnýjanlegum uppruna Markmið laganna er að hrinda af stað markvissum 
aðgerðum til að stuðla að orkuskiptum í samgöngum með aukinni notkun endurnýjanlegs eldsneytis.

Lögin fela í sér þau nýmæli að lögð er sú skylda á söluaðila eldsneytis hér á landi að minnst 3,5% orkusölunnar verði af endurnýjanlegum uppruna (t.d. etanól, metanól, lífdísel/VLO) frá og með árinu 2014. Ári síðar hækkar þessi hlutur í 5%. Lögin gera kröfu um að allt endurnýjanlegt eldsneyti til samgangna á landi verði framleitt með sjálfbærum hætti.

,,Olís uppfyllir nú þegar þau skilyrði sem breytingar á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi kveða á um. Fyrr á árinu kynnti félagið fyrst íslenskra olíufyrirtækja díselolíu blandaða með VLO, eða vetnismeðhöndlaðri lífrænni olíu. Um er að ræða hreinna og umhverfisvænna díseleldsneyti.

Nú í lok sumars opnaði félagið metanafgreiðslu í Mjódd. Með þessu hefur Olís verið að stíga fleiri græn skref en félagið hefur um árabil unnið skipulega að umhverfis- og uppgræðslumálum hér á landi,“ segir Jón Ó. Halldórsson framkvæmdastjóri smásölu- og eldsneytissviðs Olís.





×