Körfubolti

NBA í nótt: Portland vann enn einn toppslaginn | Korver jafnaði met

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Portland styrkti stöðu sína á toppi Vesturdeildarinnar í NBA-deildinni í körfubolta með góðum sigri á Oklahoma City á heimavelli, 111-104. Alls fóru sjö leikir fram í deildinni í nótt.

Portland vann Indiana, efsta lið Austurdeildarinnar, fyrir aðeins tveimur dögum síðan og hefur nú unnið fjórtán af síðustu fimmtán leikjum sínum. Oklahoma City hafði unnið átta leiki í röð fyrir leik næturinnar.

LaMarcus Aldridge skoraði 38 stig í leiknum sem er met hjá honum þetta tímabilið. Hann tók þrettán fráköst þar að auki. Kevin Durant var með 33 stig fyrir Oklahoma City.

Nicolas Batum var hetja Portland í leiknum en hann setti niður þrist þegar um hálf mínúta var eftir af leiknum sem nánast tryggði sigurinn.



Atlanta vann LA Clippers, 107-97. Kyle Korver jafnaði met í leiknum með því að skora þriggja stiga körfu í sínum 89. leik í röð. Hann jafnaði þar með met Dana Barros sem var orðið átján ára gamalt.

Korver skoraði 23 stig í leiknum og setti alls sex þriggja stiga körfur í leiknum í níu tilraunum.



Cleveland vann óvæntan sigur á Denver, 98-88, og stöðvaði þar með sjö leikja sigurgöngu síðarnefnda liðsins. Kyrie Irving skoraði 23 stig fyrir Cleveland en Tristan Thompson var með sautján stig og 21 frákast.

Indiana vann Utah, 95-86, og kom sér þar með aftur á sigurbraut eftir tapið gegn Portland. Paul George var með nítján stig fyrir Indiana.

Úrslit næturinnar:

Cleveland - Denver 98-88

Atlanta - LA Clippers 107-97

Houston - Phoenix - 88-97

Milwaukee - Phoenix 88-97

New Orleans - Dallas 97-100

Utah - Indiana 86-95

Minnesota - San Antonio (frestað)

Portland - Oklahoma City 111-104

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×