Lífið

Léttir að fá Asperger-greiningu segir Susan Boyle

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Boyle segir að hún sé oft misskilin.
Boyle segir að hún sé oft misskilin. mynd/AFP
Susan Boyle, söngkonan sem sló svo eftirminnilega í gegn í þáttunum Britain´s Got Talent árið 2009, var greind með heilkennið Asperger. Frá þessu segir hún í viðtali hjá Guardian.

Þar segir Boyle að hún sé oft misskilin og hún hafi lesið um sjálfa sig í fjölmiðlum að hún sé með heilaskemmdir. Hún segist alltaf hafa vitað að hún væri öðruvísi en aðrir en það var ekki fyrr en í fyrra að hún komst að því að hún er haldin Asperger.

Í rannsóknum sem hún fór í gegnum til að fá þessa niðurstöðu kom í ljós að greindarvísitala hennar er yfir meðallagi. Hún segir mikinn létti að hafa loksins fengið greininguna. „Það er eins og að horfa á epli og loksins samþykkja að það sé raunverulega epli sem maður er að horfa á,“ segir hún.

Susan Boyle segir að hún hafi alltaf verið öðruvísi og þegar hún var að alast upp fann hún virkilega fyrir því. Hún reyndi í sífellu að geðjast að öðrum og vildi sanna sig. Það hafi orðið til þess að hún byrgði mikla reiði innra með sér.

Greiningin og velgengin hafa breytt lífi hennar. „Asperger skilgreinir ekki hver ég er en þetta er eitthvað sem ég þarf að lifa við og vinna með. Mér líður mjög vel núna og ég tel að fólk muni skilja mig betur núna, hver ég er og hvað ég get gert,“ segir Boyle.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.