Tónlist

„Nei er ekki nokkuð svar“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Jakob Frímann Magnússon, stjórnarformaður STEF, segir samtökin ekki una því að höfundar fái ekki greitt fyrir spilun á síðunni.
Jakob Frímann Magnússon, stjórnarformaður STEF, segir samtökin ekki una því að höfundar fái ekki greitt fyrir spilun á síðunni.
Myndbandaveitan Youtube hafnaði ósk STEF (Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar) um greiðslur á höfundarréttargreiðslum í fyrra og sögðu að ekki væri nægileg forsenda til að semja við samtökin.

Fjallað var um myndbandaveituna á Vísi í gær, en óvíst er að tónlistarkonan Sóley Stefánsdóttir fái nokkuð greitt fyrir myndband við lag sitt Pretty Face, sem spilað hefur verið rúmlega 14 milljón sinnum á síðunni.

„En nei er ekki nokkuð svar,“ segir Jakob Frímann Magnússon, stjórnarformaður STEF, sem segir samtökin ekki una því að höfundar fái ekki greitt fyrir spilun á síðunni. „Í fyrstu atrennu höfnuðu þeir erindi okkar en við erum að taka upp viðræður við þá að nýju.“

Um mál Sóleyjar segir Jakob að þýskur útgefandi sjái um hennar mál og hann hljóti að vera á höttunum eftir greiðslu fyrir afnot af tónlistinni, en hvorki Sóley né útgefandi hennar setti myndbandið inn á vefinn.

„Það er tiltölulega einfalt mál að afturkalla það sem fer ólöglega inn á Youtube. Þá er það blokkerað eða tekið út af miðlinum. En þetta er tvíbent ef svo má segja. Það fylgja því ákveðnir kostir að vera sýnilegur í stórum mæli á Youtube, en auðvitað er það óviðunandi að miðill sem aflar umtalsverðra tekna af auglýsingasölu skuli þráast við að semja við listamenn og þeirra fulltrúa. Því er þessi viðvarandi núningur á milli listamanna og Google, sem á Youtube og stýrir þessari traffík að stórum hluta.“

Að hluta til lögleg

Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEF, segir Youtube að hluta til löglega tónlistarveitu en enn vanti upp á samninga við ýmsa aðila til að hún geti kallast algjörlega lögleg.

„Þeir eru nú þegar með samninga við marga útgefendur, einstaka höfunda og flytjendur sem setja sjálfir sitt efni þarna inn. Þeir eru nýbúnir að ljúka mjög erfiðri samningalotu sem stóð yfir í tvö og hálft ár við systursamtök okkar á Norðurlöndunum. Hins vegar hafa þeir ekki enn samið við okkur á Íslandi, en slíkar viðræður eru í gangi.“

Í tilfelli Sóleyjar segir Guðrún að hennar útgefandi geti óskað eftir því að fá tekjur af myndbandinu, en til þess verði að samþykkja um leið að einhverjar auglýsingar verði tengdar því.

„Ég held að Youtube sé komið til að vera og að það sé betra fyrir höfunda að fá lítið greitt heldur en ekkert af því sem fram fer þar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.